

Stúlka með höfuð: Sjálfsævisaga
1.290 kr.Hann kenndi mér að halda mig á mottunni um leið og hann gerði mig reiða svo mig langaði að slíta af mér hlekki. Þar er spennan. Það sem gerir lífið spennandi. Að syndga og slíta af sér hlekki og taka út refsinguna. Þessi línudans á línunni voðalegu, að vilja vera á mörkunum og teygja þau út svo heimurinn skáni. Að bögglast við að vera hamingjusamur í heimi þar sem næstum ekkert má.
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir segir hér frá uppvexti sínum í Reykjavík rokksins og hippaáranna, þar sem erfiður skilnaður foreldranna varpaði skugga á gleðina, frá frjálsu stúdentalífi í Lundi og Mexíkó, kommúnum, ástmönnum og litríkum samferðamönnum. Opinská frásögnin er ofin trega og hamingju, léttleika og djúpum söknuði. Bókin er sjálfstætt framhald hinna marglofuðu Stúlku með fingur og Stúlku með maga, þar sem Þórunn notaði heimildir og skáldlega túlkun til að segja sögu móður sinnar og formæðra.

Hefnd Diddu Morthens
4.690 kr.„Stundum læt ég mér detta í hug að prófa eitthvað nýtt. Ég hef verið í bókaklúbbi, stundað Zumba, gengið á fjöll og farið í sjósund. Ekkert af þessu höfðar sérstaklega til mín en það hefur verið skárra að hafa eitthvað við að vera. Eitthvað til að dreifa huganum.“
Starfsferill Diddu Morthens er að engu orðinn, börnin löngu farin að heiman og eiginmaðurinn er úrvinda öll kvöld. Hún hangir í tölvunni til að drepa tímann og dag einn býr hún til gervimenni á netinu til að hefna sín á gamalli bekkjarsystur. Atlagan heppnast svo vel að Didda ræðst í flóknari aðgerðir sem krefjast einbeitts brotavilja.
Sprenghlægileg saga sem bar sigur úr býtum í Nýjum röddum, handritasamkeppni Forlagsins.
Sigríður Pétursdóttir er kvikmyndafræðingur og vann lengst af hjá RÚV við dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi. Hefnd Diddu Morthens er fyrsta skáldsaga hennar.



















