












Vince Vaughn í skýjunum
990 kr.Á internetinu geta allir orðið stjörnur. Áður óþekkt fólk er á allra vörum einn daginn en öllum gleymt þann næsta. Verðum við kannski öll heimsfræg í 15 mínútur eftir allt saman?
Sara og Þórir – menntaskólastelpa sem vinnur í sundlaug og háttprúður Lottókynnir í sjónvarpinu – eru með öllu óviðbúin frægðinni þegar hún steypist yfir þau. Hann verður alræmdur á Íslandi, hún alþjóðleg stjarna. Hvernig bregðast þau við?
Halldór Armand Ásgeirsson (f. 1986) er ný rödd í íslenskum bókmenntum. Leikrit hans Vakt var sýnt í Norðurpólnum 2010 við góðar undirtektir og í ár fékk hann nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir sögurnar í þessari bók.



Ríkisfang: Ekkert
1.290 kr.Haustið 2008 flúðu átta fjölskyldur skelfilegar aðstæður í Al Waleed-flóttamannabúðunum og fengu hæli á Akranesi. Allt voru þetta einstæðar mæður með börn, af palestínsku bergi brotnar en höfðu alið allan sinn aldur í Írak. En hvað rak þær á flótta?
Sigríður Víðis kynntist konunum og sögu þeirra og fjallar hér af yfirsýn og þekkingu um landlausa Palestínumenn, innrásina í Írak, flóttamannabúðir í einskismannslandi og leiðina löngu á Skagann. Í forgrunni eru tvær þeirra kvenna sem hingað komu: Ayda sem varð að skilja elsta barnið sitt eftir í Írak og Lína sem flúði ásamt þremur ungum börnum og fann hamingjuna á ný á Íslandi.
Ríkisfang: Ekkert er einstök frásögn um pólitísk átök undangenginna áratuga í Mið-Austurlöndum og fólkið sem lifir og hrærist í skugga þeirra.
Vegabréf: Íslenskt
1.290 kr.Í Vegabréf: Íslenskt ferðast Sigríður Víðis Jónsdóttir með lesendum um heiminn, heimsækir til að mynda brunadeild á sjúkrahúsi í Afganistan, dvelur í völundarhúsi í Sýrlandi, hittir börn í gullnámu í Búrkína Fasó og kynnist flóttafólki í Suður-Súdan. Í Eþíópíu búa geimverur á Hilton-hótelinu og í Mjanmar hvíslar fólk um stjórnvöld.
Í gegnum frásagnir af fólki á hverjum stað miðlar Sigríður heimssögunni af einstakri næmni og virðingu og minnir okkur á að þrátt fyrir að höf og eyðimerkur skilji okkur að búum við öll undir sama himni, sömu sól.


Safnið – Ljóð Lindu Vilhjálms
8.490 kr.Ljóðasafn Lindu Vilhjálmsdóttur geymir allar ljóðabækur hennar frá árabilinu 1990‒2022, níu talsins, auk nokkurra ljóða sem birst hafa á öðrum vettvangi eða eru áður óbirt.
Allt frá því að fyrsta bók Lindu, Bláþráður, kom út árið 1990 hafa beinskeytt og meitluð ljóð hennar um samtíð og samfélag, vald og viðhorf, vakið athygli og hreyft við lesendum. Fyrir ljóðabókina Frelsi, sem Linda sendi frá sér árið 2015, var hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Inngangsorð bókarinnar skrifar Kristín Eiríksdóttir skáld og í bókarlok er viðtal Hauks Ingvarssonar, bókmenntafræðings og skálds, við Lindu þar sem hún segir frá uppvexti sínum og ævi, skáldskap og skoðunum.

Mennska
5.890 kr.Bjarni Snæbjörnsson ólst upp á Vestfjörðum við algeran skort á hinsegin fyrirmyndum. Það eina sem hann heyrði um aðra homma var að þeir væru öfuguggar og kynvillingar. Til að lifa af spilaði hann eftir þeim reglum sem hann taldi gilda en í leiðinni afneitaði hann sjálfum sér með öllum tiltækum ráðum. Hér segir Bjarni, með aðstoð dagbóka sinna og bréfaskipta við fjölskyldu og vini, frá leiðinni út úr skápnum. Hann lýsir á hispurslausan hátt ævintýralegri för um heiminn, erfiðum tímum, ástum og kynlífi, litlum og stórum sigrum í lífi og leiklist – ásamt áralangri sjálfsvinnu til að ná sátt við sína margbrotnu og litríku mennsku.
Mennska er aðgengileg og hrífandi lesning sem á erindi við alla sem hafa glímt við skömm og reynt að skila henni, finnst erfitt að taka pláss í samfélaginu eða hafa fórnað hluta af sjálfum sér af ótta við viðbrögð annarra.




