

Þykjustuleikarnir
1.490 kr.Í Þykjustuleikunum, nýjustu ljóðabók Antons Helga Jónssonar er okkur boðið í sirkus þar sem fer fram samfelld dagskrá og alls konar persónur, misjafnlega kunnuglegar, eru kynntar til leiks. Ólíkar raddir skiptast á, sumt er fyndið, sumt sorglegt og stundum lætur hryllingurinn á sér kræla. Þessi leikur með gervi og raddir endurspeglast að nokkru í útliti og uppsetningu þessarar nýstárlegu ljóðabókar. Anton Helgi hefur lengi verið í hópi okkar allra vinsælustu skálda, tilfinningaríkur, orðsnjall og uppátækjasamur. Þykjustuleikarnir eru tíunda ljóðabók hans.

Fjarri hlýju hjónasængur – öðruvísi Íslandssaga
2.990 kr.Hvenær er ástin glæpsamleg? Hvaða skorður hafa henni verið settar um aldir? Hvaða sess skipaði hjónabandið, og hvaða refsingar voru við hórdómsbrotum og frillulífi?
Þessi bók er réttnefnd öðruvísi Íslandssaga. Hún segir frá samskiptum kynjanna á Íslandi um aldir, í samfélagi þar sem kirkja og veraldlegt vald töldu sér ekkert mannlegt óviðkomandi. Hér eru átakanlegar sögur af þeim konum – og körlum – sem leyfðu sér að fara út fyrir viðurkennd mörk ástar og hjónabands. Í krafti þeirra frásagna verður bókin annað en sögulegt yfirlit, hún verður lifandi saga. Víða er leitað fanga, svo sem í annálum, lagasöfnum, skáldskap og æviminningum og hefur höfundi tekist að miðla geysimiklum fróðleik á einstaklega lipran og aðgengilegan hátt.
Inga Huld Hákonardóttir er sagnfræðingur að mennt. Hún hefur um árabil starfað sem blaðamaður og sent frá sér margar bækur.

Gangandi íkorni
9.990 kr.Draumsólir vekja mig – á þeim orðum hefst fyrsta skáldsaga Gyrðis Elíassonar. Svið hennar og persónur virðast í fyrstu hefðbundin: ungur drengur í afskekktri sveit hjá öldruðum hjónum, kaupstaðarferð, læknisvitjun, búverk. En lesandi finnur brátt einkennilega fjarlægð í þessu nána sambýli, eitthvað órætt bærist með drengnum. Dag einn sest hann við vaxdúklagt borðið og tekur að festa sýnir á brúnan maskínupappír: „Fyrst teikna ég flugvél og hákarl lónandi í gruggugu hafi undir. Síðan færi ég mig til á blaðinu. Ég leggst þungt á tréblýantinn og vanda mig. Allt í einu er orðinn til strákofi með garðskækli við, lítil lognvær tjörn, og íkorni.“ Fyrr en varir er lesandinn horfinn með íkornanum inn í óhugnanlegan heim. Uns draumsólir vekja hann . . .
Gyrðir Elíasson hefur áður sent frá sér fimm ljóðabækur og unnið sér sess sem eitt hugmyndaríkasta ljóðskáld yngri kynslóðarinnar.

Kul
1.990 kr.Una rambar á barmi kulnunar og er send vestur á firði í nýstofnað meðferðarúrræði, Kul. Þar dvelur lítill hópur fólks í þorpi við sjávarsíðuna í svartasta skammdeginu og glímir við það sem Hákon, forsprakki Kuls, segir mikilvægast: að horfast í augu við myrkrið innra með sér. Fyrir vestan fer fortíðin að sækja á Unu, minningar frá æskuárunum í litlu kjallaraíbúðinni með mömmu og Magga bróður.
Þegar hrikta fer í stoðum meðferðarinnar, og ekki síður sjálfsmyndar Unu, tekur allt það sem hefur frosið fast innra með henni að losna úr læðingi og veruleikinn fer á flot.
Kul er fyrsta skáldsaga Sunnu Dísar Másdóttur en áður hefur hún sent frá sér ljóðabókina Plómur sem var tilnefnd til Maístjörnunnar. Sunna er jafnframt ein Svikaskálda sem gefið hafa út fjórar ljóðabækur og skáldsöguna Olíu sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún starfar ennfremur sem þýðandi, leiðbeinandi í ritlist og bókmenntagagnrýnandi.

Gleðileikurinn djöfullegi
1.490 kr.Húrra! Magnað! Loksins gleðileikur
um lífið í Reykjavík, stórbrotin atvik á börum
í miðbænum, þar sem logar af lífi kveikur
og skylmst er á götum, því skynsemin er á förum!
Rökkrið fer yfir, allt er á leið til fjandans,
alþingismenn verða orðlausir fyrir svörum
og upp að nýju synir og dætur landans
rísa frá dauðum og neista næturbál.
Mussju, nostalgískt ungskáld, leitar andans
og ástarinnar sem hvarf, og segir: Skál!
í slagtogi við Dauðann, Kafka og Krist,
Birgittu Haukdal, Harry Potter og Njál,
Foucault, Satan og fleiri er af stakri list
koma við sögu í grátlegum gleðileik Íslands . . .

- -33%

Áður en hrafnarnir sækja okkur: Ljóðaúrval
Original price was: 5.190 kr..3.490 kr.Current price is: 3.490 kr..Knut Ødegård gaf út fyrstu ljóðabók sína árið 1967 og skipaði sér fljótt í hóp virtustu ljóðskálda Noregs. Hann hefur sent frá sér á fjórða tug frumsaminna bóka, ljóð, skáldverk og fræðirit, auk fjölda þýðinga, meðal annars úr íslensku.
Ljóðin í Áður en hrafnarnir sækja okkur koma úr ýmsum áttum en eiga það sameiginlegt að þar talar roskinn ljóðmælandi sem rýnir gjarna í eigið líf nú og þá en fjallar líka um náttúruna, heimsmálin og ástina. Gerður Kristný þýddi ljóðin úr norsku.

Arfur og umhverfi
990 kr.Það er Bergljót, elsta dóttirin í fjölskyldunni, sem tjáir sig í bréfi til systra sinna. Aldraðir foreldrar þeirra hafa ákveðið að yngri systurnar fái báða sumarbústaði fjölskyldunnar í fyrirframgreiddan arf en Bergljót og bróðir hennar fái peninga í staðinn, miklu lægri upphæð en nemur verðgildi bústaðanna. Erfðadeilurnar ýfa upp gömul sár og hrinda af stað átakamiklu fjölskylduuppgjöri. Það er ekki að ástæðulausu sem Bergljót hefur ekki haft samband við foreldra sína og systkini í 23 ár.
Vigdis Hjorth er einn fremsti samtímahöfundur Noregs og Arfur og umhverfi, sem kom út árið 2016, er hennar þekktasta verk. Bókin hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga, var meðal annars tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og bandarísku National Book Award-verðlaunanna.
Ísak Harðarson þýddi.



