
Blóðug jörð
1.290 kr.Árið er 883. Veldi norrænna manna á Bretlandseyjum riðar til falls og Þorsteinn rauður berst við að halda velli á Katanesi þar sem innfæddir gerast æ herskárri. Lífið er hverfult og enginn veit Urðar hug. A augabragði stendur Auður Ketilsdóttir ein uppi, umkringd óvinum og ábyrg fyrir ungum sonarbörnum. Stefnan er tekin til eylandsins á enda veraldar þar sem ár og vötn eru sögð iða af fiski, jökulhettur ber við himin og sjálf jörðin spyr eldi.
Á suðurströnd Íslands hafa þrælar gert uppreisn og goldið grimmilega fyrir. Nýja landið er vigt blóði. Einn kemst lífs úr þeim hildarleik: maður sem á harma að hefna á ætt Dyflinnarkonungs.
Vilborg Davíðsdóttir lýkur hér þríleiknum um landnámskonuna Audi djúpúðgu með Blóðugri jörð, sjálfstæðri sögu um siglinguna yfir hafið. Fyrri bækurnar tvær, Auður og Vígroði, hlutu fádæma góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda og var sú fyrri tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.


Þú sem ert á jörðu
6.990 kr.„Smám saman brá dagrenning birtu á landslagið. Að baki þeim rann jökullinn til sjávar og snæviþaktar þúfur vörpuðu löngum skuggum undir fannhvítum fjallshlíðum. Manneskjan gekk um þennan svarthvíta heim í skærlitum dúnjakka og með rauða púlku í eftirdragi. Á eftir henni tölti hundurinn í nokkuð hófsamari litbrigðum“
Í þessari mögnuðu skáldsögu fylgjum við lífshlaupi konu sem elst upp á heimskautasvæði á tímum mikilla umhverfis- og samfélagsbreytinga. Líf hennar tekur stakkaskiptum og hún flækist inn í atburðarás sem flytur hana yfir heimshöfin. Á einmanalegri ferð sinni um ólík vistkerfi sér hún gjörbreyttan heim og rifjar upp örlög horfinna ástvina, sem og heimsins sem hún kveður.
Þú sem ert á jörðu er hugleiðing um hamfarahlýnun, útdauða og mannmiðaða sýn á veröldina. Hér er maðurinn ekki guð heldur tilheyrir náttúrunni og er jafn háður kenjum hennar og aðrar lífverur á jörðinni.

Skepna í eigin skinni
1.490 kr.Skepna í eigin skinni eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur er sterk og heillandi ljóðabók þar sem eftirminnilegar náttúru- og borgarmyndir fanga athyglina en undir yfirborðinu býr annar og sárari veruleiki. Hér er ort um tímann og lífið – breytingar, niðurbrot, dauða, endurnýjun og hringrás – í djúpum, myndríkum ljóðum; andrúmsloftið er grípandi og textinn blæbrigðaríkur og tær. Hrafnhildur hefur skrifað fjölda leikrita og hlotið fyrir þau margvíslegar viðurkenningar

Meistari Jim
1.990 kr.Hann var kallaður Tuan Jim, Meistari Jim, en þá nafnbót fékk hann ekki fyrr en hann var sestur að á afskekktri eyju í Austur-Indíum. Þar var hann dáður sem friðflytjandi og réttlátur stjórnandi hinna innfæddu, en saga hans fólst ekki í þessum afrekum: hún bjó í mistökum hans, í því að hafa brugðist á hættustund. Eins og þúsundir annarra ungra manna í Evrópu hafði Jim orðið sjómaður í kaupskipaflota nýlenduveldanna, knúinn áfram af hugsýn um mikil ævintýri og stórkostlegar hetjudáðir, en þegar á hólminn kom brást hann og upp frá því var ævi hans einn samfelldur flótti undan lydduorðinu sem af honum fór.
Joseph Conrad (1857-1924) hét upphaflega Jozef Teodor Konrad Korzeniowski, sonur pólskra landeigenda sem rússnesk yfirvöld sendu í útlegð til afskekkts bæjar þar sem foreldrar hans létust meðan hann var barn að aldri. Sautján ára fór hann á sjóinn og í nærri tvo áratugi sigldi hann um öll heimsins höf. Hann varð breskur ríkisborgari og hóf að skrifa sögur á ensku sem flestar byggjast á reynslu hans af sjómennsku og nýlenduásælni Evrópumanna, sögur sem einkennast af orðkynngi og frumlegri sögutækni.
Atli Magnússon þýddi.

Satýrikon
2.990 kr.Satýrikon af mörgum talin fyrsta skáldsaga heimsins, rituð á latínu á árunum 50-60 e.Kr. Talið er að Gajus (Títus) Petróníus, einn af hirðmönnum Nerós keisara, hafi ritað söguna sem nú er varðveitt í brotum. Alvara og gamansemi togast á í litríkum og ísmeygilegum lýsingum á háum og lágum í þessu meistaralega bókmenntaverki.
Sagan segir frá flakki félaganna Enkolpíusar og Askýltosar um íburðarmikla veislusali og aumustu hreysi Rómverja. Hún er heillandi vitnisburður um hinn forna rómverska heim, um ástríður og afbrýði, græðgi og grimmd, spillingu og göfgi.
Satýrikon hefur vakið ýmsum miklum listamönnum innblástur og nægir þar að nefna samnefnda kvikmynd Federicos Fellinis og skáldverkið Petrolio eftir Pier Paolo Pasolini.
Satýrikon birtist hér í þýðingu Erlings E. Halldórssonar sem einnig ritar eftirmála. Margir minnast snilldarþýðingar hans á skáldverkinu Gargantúi og Pantagrúll eftir François Rabelais, en fyrir þá þýðingu hlaut Erlingur verðlaun frönsku akademíunnar, Le Grand Prix de l’Académie Française.

Utz
1.290 kr.Kaspar Utz á óviðjafnanlegt safn af Meissenpostulíni, matarílát og skrautmuni, sem honum hefur tekist að varðveita á tímum margvíslegra ógna. Hann er aðalsmaður af gamla skólanum, sem býr með postulínssafni sínu og þjónustustúlku í tveggja herbergja íbúð sinni í Prag. Sögumaður kemur á fund hans og verður margs vísari um merkileg örlög á umbrotatímum.
Bruce Chatwin lýsir hér sálarlífi ástríðusafnarans og afdrifum gamals og sérkennilegs menningararfs í stalínisma eftirstríðsáranna. Þar spinnist inn sögur um evrópskan aðal, um gyðinga og skriffinna kommúnismans. Chatwin er næmur höfundur, og hann hefur óvenjulega og auðuga kímnigáfu.
Unnur Jökulsdóttir og Þorbjörn Magnússon þýddu.

Heimur feigrar stéttar
1.290 kr.Sögusviðið er Suður-Afríka í ólgu sjötta og sjöunda áratugarins. Söguna segir Liz Van Den Sandt, hvít millistéttarkona. Fyrrum eiginmaður hennar, vanmáttugur og ráðvilltur uppreisnarmaður, hefur fyrirfarið sér. Liz verður hugsað til lífs þeirra saman og baráttu gegn aðskilnaðarstefnunni.
Hvernig er að vera hvít kona í Suður-Afríku á umbrotatímum sem ekki sér fyrir endann á? Er nóg að vilja vel? Er hægt að leiða kúgunina hjá sér? Verður sá sem tekur afstöðu einnig að hafa kjark til að gera eitthvað í málunum?
Þessi bók kemur við kvikuna í hinu margklofna þjóðfélagi Suður-Afríku frá sjónarmiði þess hluta hvíta forréttindahópsins sem finnur að samviskan er svört.
Ólöf Eldjárn þýddi.

Auður
1.290 kr.Auður, dóttir víkingahöfðingjans Ketils flatnefs, vex upp á Suðureyjum, ættstór og skapheit. Allt hennar fólk er heiðið en þegar hún kynnist Gilla munki laðast hún bæði að honum og boðskap hans um Hvítakrist. Fullveðja er Auður gefin Ólafi hvíta, konungi yfir Dyflinni á Írlandi. Samband þeirra er heitt en stormasamt og vináttan við Gilla verður henni dýrkeypt …
Auður djúpúðga er í hópi þekktustu landnema Íslands. Hér er þroskasaga hennar sögð um leið og dregin er upp mynd af þeim róstusömu tímum þegar norrænir menn lögðu undir sig eyjarnar við Skotland og herjuðu í Vesturhafi. Vilborg Davíðsdóttir er þaulkunnug mannlífi sögutímans og Auður rís úr djúpi aldanna, sterk og heillandi kona.

Galeiðan
1.290 kr.GALEIÐAN er nútímaskáldsaga og viðfangsefni hennar er í senn tímabært og sjaldséð í íslenskum bókmenntum. Lesandi slæst í hóp nokkurra stúlkna sem vinna í dósaverksmiðju og lifir með þeim súrt og sætt fáeina daga. Við kynnumst aðstæðum þeirra heima fyrir og á vinnustað og einnig yfirboðurum þeirra, æðri sem lægri.
Skýrar og margþættar persónulýsingar eru einn meginkostur bókarinnar og stúlkurnar verða því mjög sannfærandi og lifandi fyrir augum lesandans, hver með sínum persónusérkennum. Ekki síst þess vegna birtist glöggt það galeiðumynstur sem líf þeirra er í raun hneppt í, bæði á vinnustað og í einkalífi. Á þessum dögum gerast einnig atburðir sem gætu breytt lífi þessara stúlkna, a.m.k. reynist samstaða þeirra vonum meiri þegar í odda skerst…
Sagan er öll skrifuð af hispursleysi og næmu innsæi og frásögn er lipur og skemmtileg. Með þessari bók hefur Ólafur Haukur Símonarson bætt enn einni sögu af alveg nýrri gerð inn í fjölbreytt ritverkasafn sitt sem á vafalaust enn eftir að auka vinsældir hans meðal bókmenntaunnenda.

Illska
990 kr.Agnes Lukauskaite og Ómar Arnarson kynnast snemma á nístingsköldum sunnudagsmorgni í leigubílaröðinni í Lækjargötu. Þremur árum síðar brennir hann heimili þeirra til grunna, keyrir til Keflavíkur og flýgur úr landi.
Sagan hefst raunar löngu fyrr, sumarið 1941, þegar helmingi bæjarbúa litháíska smábæjarins Jurbarkas var slátrað í skógunum í kring. Tveir langafar Agnesar voru þar – annar skaut hinn. Þremur kynslóðum síðar hefur Agnes gert helförina að miðpunkti lífs síns og sú þráhyggja leiðir hana á fund ísfirska nýnasistans og menntamannsins Arnórs.
Illska er bók um helförina og bók um ástina, um Ísland og Litháen, um Agnesi sem glatar sjálfri sér á milli þess sem Jón Baldvin viðurkennir sjálfstæði Eystrasaltslandanna og litháískir glæpamenn taka að starfa í Reykjavík, um Agnesi sem veit ekki hvort hún heldur með b-heimsmeisturunum í handbolta eða Bogdan Kowalczyk, um Agnesi sem elskar Ómar sem elskar Agnesi sem elskar Arnór.
Eiríkur Örn Norðdahl er einn framsæknasti höfundur sinnar kynslóðar og hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín, bæði ljóð og skáldsögur.
Illska hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012 og bóksalar kusu hana bestu skáldsögu ársins.

Gatsby
990 kr.Jay Gatsby er ungur New York-búi, sem berst mikið á og lifir yfirborðslegu lífi á uppgangstíma þriðja áratugarins. Í augum sögumannsins, Nicks, er hann leyndardómsfullur, og Nick verður vitni að ástarævintýri hans og frænku sinnar Daisy. Gatsby er hreinlyndur maður og þó um leið spilltur og undir niðri leynast heitar ástríður.
Gatsby (The Great Gatsby) hefur jafnan þótt lýsa vel anda svokallaðs Djasstíma á árunum milli stríða, og hafa verið gerðar vinsælar kvikmyndir eftir sögunni. Höfundurinn, F. Scott Fitzgerald (1896-1940), er einn merkasti rithöfundur Bandaríkjamanna á öldinni, og Gatsby er þekktast verka hans.
Atli Magnússon íslenskaði söguna.

Kantaraborgarsögur
3.990 kr.Kantaraborgarsögur eru eitt af höfuðritum heimsbókmenntanna og langfrægasta verk Geoffrey Chaucers, þjóðskálds Englendinga. Hópur fólks úr öllum stigum ensks þjóðfélags er á leið í pílagrímsferð að gröf dýrlingsins Tómasar frá Beckett í Kantaraborg. Þau gera með sér samkomulag um að keppa í því hver getur sagt bestu söguna og á hver ferðalangur að segja tvær sögur, eina á leiðinni til áfangastaðarins og eina á leiðinni til baka. Chaucer lauk aldrei við að semja allar sögurnar en það sem til er af verkinu er fyrir löngu orðið sígilt og hefur glatt lesendur í gegnum aldirnar.
Í Kantaraborgarsögum birtist heillandi heimur síðmiðalda þar sem ægir saman dyggðum og klúrheitum, hetjuskap og lágum hvötum. Jarðbundið raunsæi og óbrengluð sýn á gangvirki mannfólksins er aðall þessara bráðfyndnu sagna, en á móti leggur höfundur á vogarskálarnar lærdóm sinn og lýsingar á riddaralegri hugprýði.
Geoffrey Chaucer er talinn hafa látist aldamótaárið 1400. Hann er iðulega nefndur faðir enskra þjóðarbókmennta.
Erlingur E. Halldórsson þýddi Kantara- borgarsögur, en hann er einn virtasti þýðandi okkar um þessar mundir og hefur m.a. þýtt klassísk verk eftir François Rabelais, Petróníus og Boccaccio.

Fljótt, fljótt sagði fuglinn
990 kr.Þessi bók er veisluborð. Réttirnir eru fjölbreyttir með ólíkindum og fram bornir af einstæðri kunnáttusemi. Lesandanum er boðið í hóf og þarf ekki að gæða sér á öllum réttunum í einu, en finnur hvarvetna „bragð hins göfga óspillta víns“, eins og Sverrir Kristjánsson komst eitt sinn að orði um ritlist Thors Vilhjálmssonar.
Fljótt, fljótt sagði fuglinn færir lesanda heim sanninn um myndvísi Thors, orōkynngi og stílíþrótt. Rætur verksins liggja víða í evrópskri menningu, goðsögum sem samtímalist, en um leið er það merk heimild um umbrotin miklu sem urðu þegar það var ritað, 1968.
Fljótt, fljótt sagði fuglinn, er tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu. Ásamt örfáum verkum öðrum markaði bókin nýjan áfanga í íslenskri sagnagerð, og hefur æ síðan verið lesin og kapprædd af áhugafólki um bókmenntir. Hún hefur verið þýdd á nokkur tungumál, en lengi verið ófáanleg hérlendis.

Náttvíg
1.290 kr.Ástin, dauðinn, hafið: Thor Vilhjálmsson fléttar þessa þræði saman í áhrifamikla sögu úr undirheimum Reykjavíkur, sem lögð er í munn leigubílstjóra. Sagan gerist að mestu á tveimur nóttum. Þá fyrri sýnast viðburðir allir sakleysislegri, en þó geymir nóttin víg; seinni nóttina ryðjast þrír rustar inn í bíl sögumanns og neyða hann í leiðangur – þeir sækja sér skotvopn og fremja svo óhugnanlegt innbrot. Þessi skelfilega för vekur með sögumanni minningar um fortíð hans á sjónum, um ofbeldi, dauða og varnarleysi lífsins. En hann er ekki laus: lögreglan þarf á liðveislu hans að halda við að leita illvirkjana uppi, og sú ferð reynist ekki síður viðburðarík.
Inn í þessa meginsögu fellir Thor margar aðrar úr næturlífi Reykjavíkurborgar, af fortíð persóna en líka af öðru fólki, sumar erótískar, aðrar háðskar, en allar bornar uppi af einstakri frásagnargáfu hans og stílgaldri.

Sjáðu, sjáðu mig. Það er eina leiðin til að elska mig.
5.190 kr.Hér missir kona rödd og fær hana aftur. Mögnuð ljóðabók sem hefur verið ófáanleg lengi.
Elísabet Jökulsdóttir er alvöru skáld. Hún horfir fast í augun á lesandanum og orðar sterkar tilfinningar; ást, heift, gleði og sorg, af oddhvassri blíðu og lífsþorsta, sýnir náttúru landsins á síkvikan hátt og lítur aldrei undan.

Bónus Poetry
2.490 kr.Bónus Poetry takes the reader on a mythological journey through the aisles of an undisclosed Bónus Supermarket branch, and is based on Dante’s Divina Commedia. Starting in “Paradiso” (the fruit and vegetable section), we travel through “Inferno” (meat and frozen goods) before finally ending up in the “Purgatorio” (cleaning products).
The book was initially published by Bónus Supermarkets in Iceland and sold at supermarket counters on eternal “special offer”. The author signed the same contract as every other producer: “If the consumer is harmed by the product, the producer is liable.” Bónus Poetry became the biggest selling poetry volume in the history of Iceland. No consumers have yet been harmed but please call the service desk in case of headaches, dizziness or general bursts of poem disorder.

Og þaðan gengur sveinninn skáld
7.490 kr.Thor Vilhjálmsson (1925–2011) var einn frumlegasti og áhrifamesti höfundur okkar á síðari hluta síðustu aldar og fram á þessa, auk þess sem hann var óþreytandi menningarfrömuður og áberandi í þjóðlífinu.
Í tilefni þess að öld er liðin frá fæðingu Thors minnast samferðamenn, fræðimenn, þýðendur og aðrir rithöfundar hans, hver frá sínum sjónarhóli, og varpa ólíku ljósi á þennan flókna höfund og margbrotna persónuleika. Hér eru stuttar svipmyndir, fræðilegar úttektir, ljóð og teikningar. Synir Thors, Örnólfur og Guðmundur Andri, söfnuðu greinunum og völdu einnig stutta texta úr verkum hans sem birtir eru á milli greinanna. Innleggin eru á fjórða tug og að auki er í bókinni fjöldi mynda.

Meet the Elves
3.690 kr.Those who travel around Iceland with an open mind will have a colourful and enjoyable journey ahead of them. With a bit of luck (and GPS navigation) travelers might even encounter an elf – almost no Icelandic farm is without stories of elfdwellings located somewhere on the property.
This book contains a collection of stories and sources that shed light on the relationship between humans and elves in Iceland, from ancient to relatively recent times.





