
Meistari Jim
1.990 kr.Hann var kallaður Tuan Jim, Meistari Jim, en þá nafnbót fékk hann ekki fyrr en hann var sestur að á afskekktri eyju í Austur-Indíum. Þar var hann dáður sem friðflytjandi og réttlátur stjórnandi hinna innfæddu, en saga hans fólst ekki í þessum afrekum: hún bjó í mistökum hans, í því að hafa brugðist á hættustund. Eins og þúsundir annarra ungra manna í Evrópu hafði Jim orðið sjómaður í kaupskipaflota nýlenduveldanna, knúinn áfram af hugsýn um mikil ævintýri og stórkostlegar hetjudáðir, en þegar á hólminn kom brást hann og upp frá því var ævi hans einn samfelldur flótti undan lydduorðinu sem af honum fór.
Joseph Conrad (1857-1924) hét upphaflega Jozef Teodor Konrad Korzeniowski, sonur pólskra landeigenda sem rússnesk yfirvöld sendu í útlegð til afskekkts bæjar þar sem foreldrar hans létust meðan hann var barn að aldri. Sautján ára fór hann á sjóinn og í nærri tvo áratugi sigldi hann um öll heimsins höf. Hann varð breskur ríkisborgari og hóf að skrifa sögur á ensku sem flestar byggjast á reynslu hans af sjómennsku og nýlenduásælni Evrópumanna, sögur sem einkennast af orðkynngi og frumlegri sögutækni.
Atli Magnússon þýddi.

Satýrikon
2.990 kr.Satýrikon af mörgum talin fyrsta skáldsaga heimsins, rituð á latínu á árunum 50-60 e.Kr. Talið er að Gajus (Títus) Petróníus, einn af hirðmönnum Nerós keisara, hafi ritað söguna sem nú er varðveitt í brotum. Alvara og gamansemi togast á í litríkum og ísmeygilegum lýsingum á háum og lágum í þessu meistaralega bókmenntaverki.
Sagan segir frá flakki félaganna Enkolpíusar og Askýltosar um íburðarmikla veislusali og aumustu hreysi Rómverja. Hún er heillandi vitnisburður um hinn forna rómverska heim, um ástríður og afbrýði, græðgi og grimmd, spillingu og göfgi.
Satýrikon hefur vakið ýmsum miklum listamönnum innblástur og nægir þar að nefna samnefnda kvikmynd Federicos Fellinis og skáldverkið Petrolio eftir Pier Paolo Pasolini.
Satýrikon birtist hér í þýðingu Erlings E. Halldórssonar sem einnig ritar eftirmála. Margir minnast snilldarþýðingar hans á skáldverkinu Gargantúi og Pantagrúll eftir François Rabelais, en fyrir þá þýðingu hlaut Erlingur verðlaun frönsku akademíunnar, Le Grand Prix de l’Académie Française.

Utz
1.290 kr.Kaspar Utz á óviðjafnanlegt safn af Meissenpostulíni, matarílát og skrautmuni, sem honum hefur tekist að varðveita á tímum margvíslegra ógna. Hann er aðalsmaður af gamla skólanum, sem býr með postulínssafni sínu og þjónustustúlku í tveggja herbergja íbúð sinni í Prag. Sögumaður kemur á fund hans og verður margs vísari um merkileg örlög á umbrotatímum.
Bruce Chatwin lýsir hér sálarlífi ástríðusafnarans og afdrifum gamals og sérkennilegs menningararfs í stalínisma eftirstríðsáranna. Þar spinnist inn sögur um evrópskan aðal, um gyðinga og skriffinna kommúnismans. Chatwin er næmur höfundur, og hann hefur óvenjulega og auðuga kímnigáfu.
Unnur Jökulsdóttir og Þorbjörn Magnússon þýddu.

Heimur feigrar stéttar
1.290 kr.Sögusviðið er Suður-Afríka í ólgu sjötta og sjöunda áratugarins. Söguna segir Liz Van Den Sandt, hvít millistéttarkona. Fyrrum eiginmaður hennar, vanmáttugur og ráðvilltur uppreisnarmaður, hefur fyrirfarið sér. Liz verður hugsað til lífs þeirra saman og baráttu gegn aðskilnaðarstefnunni.
Hvernig er að vera hvít kona í Suður-Afríku á umbrotatímum sem ekki sér fyrir endann á? Er nóg að vilja vel? Er hægt að leiða kúgunina hjá sér? Verður sá sem tekur afstöðu einnig að hafa kjark til að gera eitthvað í málunum?
Þessi bók kemur við kvikuna í hinu margklofna þjóðfélagi Suður-Afríku frá sjónarmiði þess hluta hvíta forréttindahópsins sem finnur að samviskan er svört.
Ólöf Eldjárn þýddi.

Marta, Marta
4.390 kr.Titill þessarar áhrifamiklu skáldsögu vísar til Biblíupersónunnar Mörtu í Nýja testamentinu. Henni var ráðlagt að sneiða hjá óþarfa átökum og beina sjónum að hinu jákvæða og góða í lífinu. En Marta í skáldsögunni spyr hvar hið jákvæða og góða leynist í heimi þröngsýni og óréttlætis?
Árið 1993 dvaldi Marta á samyrkjubúi (kibbuts) í Jórdandalnum. Hún gerði sér far um að reyna að skilja eðli þeirrar pólitísku og trúarlegu átaka og spennu sem er allt um lykjandi á þeim slóðum. Þrjátíu árum síðar kemur ísrölsk vinkona hennar í heimsókn til Færeyja. Landið helga er þá enn opnara sár en nokkru sinni fyrr. Hvers vegna er ekki hægt að horfast í augu við veruleikann? spyr Marta.
Hjálmar Waag Árnason íslenskaði.
Færeyski rithöfundurinn Marjun Syderbø Kjelnæs (f. 1974) hefur lokið meistaraprófi í færeyskum bókmenntum og tungu, auk þess að vera hjúkrunarfræðingur. Hún hefur skrifað smásögur og skáldsögur, leikrit, ljóð og söngtexta.

Dreggjar dagsins
3.990 kr.Stevens, bryti á ensku yfirstéttarsetri, hefur alla tíð sett starfið og hollustu við herra sína ofar öllu. Hinar fastmótuðu samskiptareglur þjóns og herra hafa verið kjölfesta lífs hans. Nú hafa aðstæður breyst. Bandarískur auðmaður með sérkennilegt skopskyn hefur keypt setrið. Nýja herranum fylgja nýir siðir sem kippa fótunum undan Stevens. Hið fastmótaða samband þjóns og herra fer úr skorðum og verður uppspretta áleitinna spurninga um ábyrgð mannanna á eigin lífi.
Dreggjar dagsins er framúrskarandi vel skrifuð og hrífandi skáldsaga og hefur hvarvetna vakið gífurlega athygli. Á yfirborðinu ríkir svotil fullkomin ró en undir niðri býr ógnvekjandi kraftur sem á upptök sín í lífstíðar langri sjálfsblekkingu Stevens.
Bókin hlaut eftirsóttustu bókmenntaverðlaun — Breta Booker verðlaunin — 1989 og hefur setið á metsölulistum víða um heim.

Sjö manngerðir sem finna má í bókabúðum
4.390 kr.Bækur Shauns Bythell um lífið í fornbókabúðinni hans í Wigton á Skotlandi hafa slegið í gegn víða um heim. Þar er brugðið upp lifandi myndum af daglegum gestum í bókabúðinni, skrýtna fólkinu sem vinnur þar, kettinum Kafteini og öllu amstrinu sem fylgir lífi fornbókasalans.
Í þessari bók reynir Shaun að átta sig á fólkinu sem ratað hefur í búðina hans á langri bóksalaævi. Heilt yfir finnst honum að viðskiptavinina megi flokka í sjö ólíkar manngerðir. Hnyttnar og snjallar mannlýsingar fornbókasalans gera þessa litlu bók að einstökum skemmtilestri.
Snjólaug Bragadóttir íslenskaði.
„Grátbroslegar lýsingar … engum er hlíft.“ – Washington Post
„Fornbókasalinn lætur allt flakka með snilldarlegum hætti … mannfyrlitning í bland við elskulegheit.“ – Guardian“


Hóras prins af Hákoti
4.390 kr.Uppgjafabóndinn Hóras gerist róni í Reykjavík á sjöunda áratug 20. aldar. Hann kemur víða við sögu og er um tíma formaður 17. nefndar Reykjavíkurborgar og síðar forsætisráðherra en stefnumálin eru vafasöm og sögulok ill. Hóras prins af Hákoti er drepfyndinn harmleikur í bundnu máli, ortur af galsafenginni ófyrirleitni sem kankast á við klassískan skáldskap fyrri alda.



Saklaust blóð í snjó
3.690 kr.Þessi bók er byggð á sannsögulegum atburðum er gerðust á Reyðarfirði veturinn 1726.
Á fjallveginum milli Reyðarfjarðar og Norðfjarðar, norðan megin við Oddskarðið stendur Höllusteinn. Undir þessum steini fæddi bláfátæk kornung stúlka barn, alein og útskúfuð í blindhríð um hánótt. Henni hafði verið úthýst í Helgustaðahreppi þetta sama kvöld. Enginn vildi láta óskilgetið barn fæðast á sínum bæ. Eftir þetta hefur þessi brekka verið kölluð Blóðbrekka.
Í raun fjallar þessi bók um það hvernig karlmenn á Íslandi fyrr á öldum misnotuðu vald sitt til misnotkunnar á konum og komust upp með það, því þeir einir skráðu söguna.

Vikuspá
4.390 kr.Vikuspá geymir áttatíu og sex sögur á einföldu máli. Í stuttum og aðgengilegum frásögnum eru ólíkar atvinnugreinar kynntar. Hér er leikið með þá íslensku þjóðtrú að það geti haft áhrif á hvað barn taki sér fyrir hendur í framtíðinni á hvaða vikudegi það fæðist. Sögupersónur takast á við þrautir og sigra í leit að hinum gullna meðalveg, milli frama og lukku. Sögurnar varpa ljósi á fegurð mannflórunnar og mikilvægi þess að þroskast og þróast í takt við tímann.
Vikuspá er sjálfstætt framhald af Árstíðum og Dagatali sem hafa notið mikilla vinsælda og verið kenndar víða á Íslandi sem og erlendis. Textarnir eru fjölbreyttir hvað varðar efnistök, form og stíl og flokkaðir eftir getustigi í samráði við sérfræðinga. Þar að auki fylgir viðauki með margskonar fróðleik um land og þjóð. Bókin nýtist jafnt við kennslu sem og til yndislestrar.

Auður
1.290 kr.Auður, dóttir víkingahöfðingjans Ketils flatnefs, vex upp á Suðureyjum, ættstór og skapheit. Allt hennar fólk er heiðið en þegar hún kynnist Gilla munki laðast hún bæði að honum og boðskap hans um Hvítakrist. Fullveðja er Auður gefin Ólafi hvíta, konungi yfir Dyflinni á Írlandi. Samband þeirra er heitt en stormasamt og vináttan við Gilla verður henni dýrkeypt …
Auður djúpúðga er í hópi þekktustu landnema Íslands. Hér er þroskasaga hennar sögð um leið og dregin er upp mynd af þeim róstusömu tímum þegar norrænir menn lögðu undir sig eyjarnar við Skotland og herjuðu í Vesturhafi. Vilborg Davíðsdóttir er þaulkunnug mannlífi sögutímans og Auður rís úr djúpi aldanna, sterk og heillandi kona.

Úti bíður skáldleg veröld
1.490 kr.Úti bíður skáldleg veröld er nýjasta ljóðabók Jakub Stachowiak. Jakub hefur komið sem ferskur andvari inn í íslenskan ljóðaheim en á síðasta ári kom út hans fyrsta bók, Næturborgir, sem hlaut mikið lof. Jakub flutti til Íslands frá Póllandi fyrir aðeins sex árum, en í dag hugsar hann, skrifar og yrkir á íslensku. Í ljóðum sínum blæs Jakub lífi í tungumálið og dregur fram ljóðrænar myndir með frumleika, glaðværð og áræðni.

Beckomberga-geðsjúkrahúsið
990 kr.Þegar Jimmie Darling er vistaður á Beckomberga-geðsjúkrahúsinu fer dóttir hans, Jackie, að eyða sífellt meiri tíma þar, og eftir að móðirin fer úr landi verður sjúkrahúsið hennar heimur. Þar er Edvard Winterson læknir sem tekur með sér Jim og sérvalda sjúklinga á hverri nóttu í partí niður í bæ, hjúkrunarkonan Inger Vogel sem fetar hárfína línu reglu og eyðileggingar í samskiptum og hin raunamædda en aðlaðandi Sabina. Þar er líka Paul og ástin, hin raunverulega geðveiki.
Beckomberga-geðsjúkrahúsið er heillandi frásögn um baráttuna og drauminn við að halda fólki í birtunni, um vanmátt foreldra og barna, um ótta og dauðageig. Í þessari seiðmögnuðu og hrífandi skáldsögu verður sjúkrahúsið táknmynd samfélags sem í senn reynir að halda utan um þá veiku en líka halda þeim fjarri.
Sara Stridsberg er einn virtasti rithöfundur Svíþjóðar, handhafi Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2007 og hefur hlotið fjölda annarra viðurkenninga, ekki síst fyrir Beckomberga-geðsjúkrahúsið.
Tinna Ásgeirsdóttir þýddi.

Dagskammtar
3.490 kr.Dagskammtar samanstendur af stuttum textum í lausu máli. Margir textanna tengjast ákveðnum atvikum, en aðrir eru fremur hugleiðingar eða þankabrot sem finna sér leið inn í hversdaginn. Líta má á textana sem eins konar dagbókarfærslur þar sem „ég“ frásagnarinnar miðlar reynslu sinni af atvikum og fyrirbærum daganna.
„Í dag er búið að vera mistur og rigning, en nú virðist vera að rofa til. Það er alveg logn og ég er ein á gangi á Sólvallagötunni. Nokkrum sólargeislum tekst að brjótast gegnum mistrið um leið og það hellist yfir mig skyndilegt regn. Það er þá sem ég sé regnbogann. Hann spennir marglitan bogann yfir nesið með annan endann í Faxaflóanum og hinn í Skerjafirðinum. Hann er rétt hjá mér, kannski í nokkur hundruð metra fjarlægð. Ósjálfrátt herði ég gönguna. Áður en ég veit af er ég farin að hlaupa.“

Galeiðan
1.290 kr.GALEIÐAN er nútímaskáldsaga og viðfangsefni hennar er í senn tímabært og sjaldséð í íslenskum bókmenntum. Lesandi slæst í hóp nokkurra stúlkna sem vinna í dósaverksmiðju og lifir með þeim súrt og sætt fáeina daga. Við kynnumst aðstæðum þeirra heima fyrir og á vinnustað og einnig yfirboðurum þeirra, æðri sem lægri.
Skýrar og margþættar persónulýsingar eru einn meginkostur bókarinnar og stúlkurnar verða því mjög sannfærandi og lifandi fyrir augum lesandans, hver með sínum persónusérkennum. Ekki síst þess vegna birtist glöggt það galeiðumynstur sem líf þeirra er í raun hneppt í, bæði á vinnustað og í einkalífi. Á þessum dögum gerast einnig atburðir sem gætu breytt lífi þessara stúlkna, a.m.k. reynist samstaða þeirra vonum meiri þegar í odda skerst…
Sagan er öll skrifuð af hispursleysi og næmu innsæi og frásögn er lipur og skemmtileg. Með þessari bók hefur Ólafur Haukur Símonarson bætt enn einni sögu af alveg nýrri gerð inn í fjölbreytt ritverkasafn sitt sem á vafalaust enn eftir að auka vinsældir hans meðal bókmenntaunnenda.

Gatsby
990 kr.Jay Gatsby er ungur New York-búi, sem berst mikið á og lifir yfirborðslegu lífi á uppgangstíma þriðja áratugarins. Í augum sögumannsins, Nicks, er hann leyndardómsfullur, og Nick verður vitni að ástarævintýri hans og frænku sinnar Daisy. Gatsby er hreinlyndur maður og þó um leið spilltur og undir niðri leynast heitar ástríður.
Gatsby (The Great Gatsby) hefur jafnan þótt lýsa vel anda svokallaðs Djasstíma á árunum milli stríða, og hafa verið gerðar vinsælar kvikmyndir eftir sögunni. Höfundurinn, F. Scott Fitzgerald (1896-1940), er einn merkasti rithöfundur Bandaríkjamanna á öldinni, og Gatsby er þekktast verka hans.
Atli Magnússon íslenskaði söguna.

Kantaraborgarsögur
3.990 kr.Kantaraborgarsögur eru eitt af höfuðritum heimsbókmenntanna og langfrægasta verk Geoffrey Chaucers, þjóðskálds Englendinga. Hópur fólks úr öllum stigum ensks þjóðfélags er á leið í pílagrímsferð að gröf dýrlingsins Tómasar frá Beckett í Kantaraborg. Þau gera með sér samkomulag um að keppa í því hver getur sagt bestu söguna og á hver ferðalangur að segja tvær sögur, eina á leiðinni til áfangastaðarins og eina á leiðinni til baka. Chaucer lauk aldrei við að semja allar sögurnar en það sem til er af verkinu er fyrir löngu orðið sígilt og hefur glatt lesendur í gegnum aldirnar.
Í Kantaraborgarsögum birtist heillandi heimur síðmiðalda þar sem ægir saman dyggðum og klúrheitum, hetjuskap og lágum hvötum. Jarðbundið raunsæi og óbrengluð sýn á gangvirki mannfólksins er aðall þessara bráðfyndnu sagna, en á móti leggur höfundur á vogarskálarnar lærdóm sinn og lýsingar á riddaralegri hugprýði.
Geoffrey Chaucer er talinn hafa látist aldamótaárið 1400. Hann er iðulega nefndur faðir enskra þjóðarbókmennta.
Erlingur E. Halldórsson þýddi Kantara- borgarsögur, en hann er einn virtasti þýðandi okkar um þessar mundir og hefur m.a. þýtt klassísk verk eftir François Rabelais, Petróníus og Boccaccio.



Ég skal hjálpa þér: Saga Auriar
1.990 kr.Auri Hinriksson á að baki merkilegan lífsferil en hún er þekktust fyrir að hafa aðstoðað fólk ættleitt frá Srí Lanka að finna líffræðilega foreldra sína og fjölskyldu. Auri er fædd í Colombo á Srí Lanka en flutti fertug til Ísafjarðar með eiginmanni sínum, Þóri Hinrikssyni, og fimm ára syni.
Í þessari áhugaverðu ævisögu, sem rituð er af Herdísi Magneu Hübner, segir Auri frá uppruna sínum, vinnu fyrir stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem leiddi hjónin saman og frá lífi víða um lönd en auk Íslands og Srí Lanka, bjó fjölskyldan um tíma á Indlandi, Barein og í Íran. Saga Auriar er einstök frásögn af kjarkmikilli konu sem lætur ekki brjóta sig niður, heldur rís alltaf upp og blómstrar mitt í mótlætinu.

