
Aksturslag innfæddra
1.990 kr.Í þessari bók birtast sjö smásögur sem allar eru sprottnar úr raunveruleikanum. Við sögu kemur fjölbreyttur hópur fólks sem lesendur kannast hugsanlega við. Sögurnar segja frá stuttum tímabilum eða einstökum viðburðum í lífi sögupersóna, eða lýsa jafnvel heilli ævi.
Hér er greint frá atburðum sem gætu virst hversdagslegir og smávægilegir við fyrstu sýn en ef lesið er á milli línanna endurspegla þeir stærri og flóknari hliðar tilverunnar.
Þórdís Gísladóttir hefur þýtt og skrifað fjölda barna- og unglingabóka, ljóðabækur, sjónvarpshandrit og skáldsögu fyrir fullorðna. Hún hefur getið sér orð fyrir að skrifa leikandi léttan texta sem einkennist af orðfimi og húmor og varpar nýstárlegu ljósi á hvunndaginn og samtímann. Verk hennar höfða til fjölbreytts hóps lesenda á öllum aldri.
Þórdís hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010 fyrir fyrstu ljóðabók sína, Leyndarmál annarra, og hefur síðan hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga fyrir frumsamin og þýdd verk.



Kalt er annars blóð
1.290 kr.Í Kalt er annars blóð er glæpasagnaformið fléttað glæsilega saman við íslenska sagnahefð og íslensk örlög í nútíð og fortíð eins og Þórunni Jörlu einni er lagið. Í kuldalegri Reykjavíkurborg flögrar krummi um og fylgist með viðburðum sem draga munu dilk á eftir sér; hann sér margt sem mannleg augu sjá ekki – peningar skipta um hendur, kettir eru keyrðir niður, hús brennd og menn skotnir eins og skepnur.
Þegar Ása finnur af tilviljun lík í malarhaugi norðan heiða ber margt fyrir augu sem áður hefur verið hulið – hvað rekur fólk til að ryðja öðrum úr vegi og hvað gerist þegar hömlurnar hverfa ein af annarri?
Kalt er annars blóð, sem sækir efnivið m.a. í Njálu, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2007.


Þrenna
5.190 kr.Bókin Þrenna samanstendur af bókunum Ár og sprænur; hulda ráðgátan, Ranimosk og Litlu sögurnar í hálfa samhenginu. Í bókunum koma meðal annars fram Penni Gúm, sem fann Penny Lane á You Tube, og Háloftamígur. Þar að auki er að finna prósa í hugleiðingaformi sem hverfast um vangaveltur höfundar um málefni líðandi stundar, texta sem ekki urðu að sjálfstæðum bókum ásamt endurminningum sem dansa á línu raunveruleika og skáldskapar.
Verk Einars Guðmundssonar tengjast framúrstefnuhreyfingum í myndlist fremur en því sem var efst á baugi í íslenskum bókmenntum. Sá tilraunaandi sem ríkir í verkum hans er vandfundinn í verkum annarra skáldsagnahöfunda. Eftir Einar liggja yfir 20 bækur, og eru margar þeirra orðnar efirsóttar meðal safnara. Meðal fyrri bóka Einars eru Harry the Caveman (1970), Lablaða hérgula (1975), Flóttinn til lífsins (1976) og Án titils (1978).
Bókin er gefin út í 300 tölusettum eintökum.




Drottningarnar í Garðinum
4.190 kr.Hópur kynlífsverkakvenna er á næturrölti í Sarmiento-garðinum í Córdoba, Argentínu. Þær heyra barnsgrát í nóttinni. Encarna frænka, leiðtogi þeirra, ryður sér leið í gegnum skógarþykknið og finnur barn, sem hún tekur að sér, eins og hún hefur tekið margar útskúfaðar konur að sér, þar á meðal Camilu. Í bleika húsinu hennar Encörnu frænku finnst skjól fyrir daglegum ógnum, sjúkdómum og ofbeldi af hálfu kúnna, lögregluþjóna og ástmanna. Mállaus kona umbreytist í fugl, hauslaus maður flýr stríð og Camila berst fyrir að ráða lífi sínu og kyngervi sjálf. Raunveruleikinn er sveipaður töfrum drungalegs ævintýris. Drottningarnar í garðinum hefur verið þýdd á ótal tungumál og unnið til margra verðlauna. Höfundurinn Camila Sosa Villada er einnig leikkona og baráttukona.


