
Ljáðu mér rödd
6.390 kr.Ljáðu mér rödd er magnaður ljóðaþríleikur eftir eitt virtasta skáld Svía, Kjell Espmark, sem er Íslendingum að góðu kunnur.
Í bókinni eru ljóðabækurnar Vetrarbraut (2007), Innri víðátta (2014) og Fjöldi votta (2020) þar sem öll bestu höfundareinkenni Espmarks sem ljóðskálds njóta sín til fulls.
Njörður P. Njarðvík íslenskaði.

Spegillinn í speglinum
4.790 kr.Spegillinn í speglinum er ótrúlegt völundarhús draumsýna. Lesandinn hverfur inn í dularfullan frásagnarheim fullan af furðum og leyndardómum, súrrealískum myndum og heimpekilegum hugmyndum.
Hvað speglast í spegli sem speglast í spegli? Ef tveir lesendur lesa sömu bókina eru þeir samt ekki að lesa það sama. Því báðir sökkva þeir sér ofan í lesturinn – og bókin verður spegill sem lesandinn speglast í. Á sama hátt er lesandinn spegill sem bókin speglast í: Spegillinn í speglinum vísar lesandanum aftur til sjálfs sín.
Bókina prýða teikningar eftir föður höfundar, listmálarann Edgar Ende.
Sólveg Thoroddsen Jónsdóttir íslenskaði.
Þýski rithöfundurinn Michael Ende (1929-1995) varð frægur á sjöunda áratug síðustu aldar fyrir bækur sínar um „Jim Knopf“ og naut mikilla vinsælda næstu áratugi fyrir fjölbreyttar sögur fyrir börn og fullorðna sem bera vott um óbeislað hugarflug og mannúðlega heimssýn. Sérstakra vinsælda nutu Mómó og Sagan endalausa sem báðar hafa komið út í íslenskri þýðingu Jórunnar Sigurðardóttur. Spegillinn í speglinum (Der Spiegel im Spiegel), sem höfundurinn kallaði stundum „Söguna endalausa fyrir fullorðna“, er eitt af síðari verkum Michaels Ende og kom út árið 1984. Bókin þykir magnað listaverk og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.




Vonum það besta
990 kr.Nýbökuð móðir með barn á brjósti fær furðulegan tölvupóst frá manni sínum: Lykilorðið að tölvunni hans og nánari upplýsingar í skjalinu „Ef ég dey“. En. Vonum það besta!
Stuttu síðar deyr hann.
Sagan segir frá ást sem fæðist, hversdagslífi og skelfilegu áfalli. Ung kona fær það á heilann að hún eigi sök á dauða manns síns, hún hafi farið of geyst, hún stendur frammi fyrir óbærilegri sorg og svo þeirri óhjákvæmilegu staðreynd að lífið heldur áfram.
Þetta er fyrsta skáldsaga Carolinu Setterwall, sem vakti mikla athygli þegar hún kom út í Svíþjóð árið 2018 og er væntanleg í rúmlega 30 löndum.

Leiðin út í heim
1.290 kr.Palli vaknar í rúminu sínu. Hann er einn í herberginu og þar er undarlega kyrrt og hljótt. Hann sest upp. Fötin hans liggja snyrtilega samanbrotin á stólkoll við bláan rúmgaflinn. Undan rúminu skaga uppreimaðir skór. Maðurinn veit að hann dreymdi eitthvað en man ekki hvað það var.
Palli er einn í heiminum en þó ekki því hér eru að lágmarki tveir. Heimurinn innra með manneskjunni og heimurinn fyrir utan hana. Falli heimurinn hið ytra snurðulaust saman við innri heim er maðurinn einn í einum heimi. Það er mikil og dapurleg einsemd. Sé munur á heimunum en ekki milligengt er maðurinn í öðrum heimi.
Höfundur bregður á leik með fræga barnabók Jens Sigsgaard um Palla sem var einn í heiminum en veltir um leið upp tilvistarlegum spurningum.
Leiðin út í heim er fimmta skáldsaga Hermanns Stefánssonar rithöfundar sem hlotið hefur verðskuldaða athygli fyrir nýbreytni og frumlega hugsun í skáldskap. Eftir Hermann hafa einnig komið út ljóð, leikrit og skáldfræðilegir textar.

Föðurráð
5.190 kr.Bubba Morthens þekkja allir og saga hans hefur verið sögð og skráð en Bubbi er ávallt í samtímanum og viðfangsefnin sífellt ný – og þó sígild. Hér yrkir hann um lífsreyndan föður sem fylgist með ungum dætrum á leið út í lífið, þann ólgusjó sem hann hefur sjálfur siglt, en ráð hans og orð fá ekki alltaf hljómgrunn.
Föðurráð fjallar um ugginn sem býr í brjóstinu en líka ástina og fögnuðinn yfir framrás lífsins, nýjum degi, nýrri veröld.

Flaumgosar
5.190 kr.Flaumgosar er tíunda ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur.
Hér tekst Sigurbjörg Þrastardóttir á við drauma, angist og undrun fólks í flaumi tímans og veitir fínstillta innsýn í íslenska þjóðarsál. Ljóðin bera skýrt handbragð skáldsins, margslungið myndmál og beitta kímni.

Skýin eru skuggar – ljóðaúrval
4.590 kr.Nóbelsskáldið Jon Fosse byrjaði snemma að yrkja, að sögn fyrir fermingu, og eitt af því fyrsta sem hann setti á blað var ljóð um hafið, dauðann og ástina. Síðan hefur hann orðið einn af mikilvægustu rithöfundum samtímans og ber þar hæst prósaverk og leikrit, en ljóðlistin hefur þó alla tíð fylgt honum og er mikilvægur hluti af höfundarverkinu í heild.
Þetta ljóðaúrval spannar fjóra áratugi á ferli skáldsins og veitir góða innsýn í þá veröld sem verk hans snúast um.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði.


