


Fimm ljóð
5.190 kr.Engin sjoppa er betri
en pylsan sem hún selur.
Segir hún.
Og í þessum sjoppum
er alls staðar seld
sama pylsan.
Alltaf með engu, svarar hann,
og alltaf með öllu.
Eiríkur Örn Norðdahl (f. 1978) er ötull og framsækinn höfundur, búsettur á Ísafirði, og einn af upphafsmönnum skáldahópsins Nýhil. Auk ljóða hefur hann sent frá sér leikrit, ritgerðir, þýðingar og níu skáldsögur. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Náttúrulögmálin og Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Illsku en sú bók var líka tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Fimm ljóð er áttunda ljóðabók Eiríks Arnar en átta ár eru liðin frá því að sú síðasta, Óratorrek, kom út.


Stúlka með maga: skáldættarsaga
1.290 kr.„Svo kemur afsökun hans í víðari skilningi. Hann segir að hann eigi þetta máski skilið fyrir að vera að fikta við það sem honum hafi ekki komið við, en það sé nú svona, maður sé skapaður með þessari löngun eða nautn, sem er líka sterkasta aflið yfir manni af öllum nautnum, eða að minnsta kosti sé það þannig hjá honum.“
Í Stúlku með maga fær tregi höfundar rödd Erlu Þórdísar Jónsdóttur. Í frásögn hennar lifna þau dánu, þegar ættarmein og leyndarmál koma úr glatkistunni. Dómur í yfirrétti, skipskaði, heimsstyrjaldir, afleiðingar sýfiliss og hversdagsleikinn blár af fjarlægð fléttast saman af skáldlegri hugkvæmni.
Stúlka með maga – skáldættarsaga byggð á pappírum úr járnskápnum er sjálfstætt framhald af Stúlku með fingur sem út kom 1999. Fyrir bókina hlaut höfundur Fjöruverðlaunin árið 2014.

Eignatal
4.590 kr.Francesca Cricelli er brasilískt skáld, þýðandi og fræðimaður. Hún hefur sent frá sér fjórar ljóðabækur og hér birtist sú nýjasta frá 2024. Um árabil hefur Francesca verið búsett á Íslandi og ljóð hennar bera þess ótvíræð merki. Þau eru fjölbreytt og forvitnileg, einlæg og margslungin í senn.
Pedro Gunnlaugur Garcia íslenskaði.


Upp á Sigurhæðir – saga Matthíasar Jochumssonar
1.290 kr.Matthías Jochumsson var tilfinningaríkur eldhugi, framsýnn, réttsýnn, dáður og elskaður af þjóð sinni en stundum líka fyrirlitinn og jafnvel hataður.
Sem prestur, ritstjóri og þjóðskáld setti hann sterkan svip á íslenska menningu samtíðar sinnar og hafði djúp áhrif á alla sem til hans þekktu, svo opinskár og einlægur sem hann var. Þórunn byggir á fjöldamörgum heimildum, innlendum sem erlendum, bréfum og öðrum persónulegum gögnum sem koma hér í fyrsta skipti fyrir almennings sjónir.
Upp á sigurhæðir er rituð af innsæi og skáldlegum þrótti þar sem rödd Þórunnar kallast með eftirminnilegum hætti á við líf og list þjóðskáldsins.

Skáldalíf: ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri
1.990 kr.Eiga þeir nokkuð sameiginlegt, heimsmaðurinn Gunnar Gunnarsson og heimalningurinn Þórbergur Þórðarson? Annar skrifaði bækur á dönsku sem þýddar voru á fjölmörg tungumál; bækur hins voru vel varðveitt leyndarmál á fátalaðri tungu landsmanna. Annar spurði stórra spurninga um tilvist mannsins; hinn var annálaður húmoristi og ólíkindatól.
En þeir voru báðir íslenskir bændasynir, nánast jafnaldra, og þá dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og þjóðarinnar. Þeir tóku trú á erlenda stríðsherra, hvorn af sinni stjórnmálastefnu og fór sú trú illa með þá. En báðir höfðu afgerandi áhrif á þróun íslenskra bókmennta.
Halldór Guðmundsson dregur upp einstæða mynd af þessum tveim rithöfundum í samhliða ævisögum þeirra. Hér segir frá æsku og uppvexti, erfiðum sveltiárum og örlagaríkum ástarsamböndum, þrá eftir sveitinni, heimsreisum og endurkomu. Með því að láta þá varpa sterku ljósi hvorn á annan fæst mynd af hvorum um sig sem aldrei hefur áður sést.
Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2006.

Lífsjátning
1.290 kr.Lífsjátning – endurminningar Guðmundu Elíasdóttur söngkonu markaði tímamót í íslenskri ævisagnagerð og efldi til muna virðingu fyrir ævisögum, ekki síst kvenna.
Bókin hlaut einróma lof gagnrýnenda og var tilnefnd af Íslands hálfu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1983.
Með nýjum formála höfundar.

Ru
990 kr.Á frönsku þýðir orðið ru lítill lækur, eða í óeiginlegri merkingu eitthvað sem rennur á borð við tár eða blóð. Á víetnömsku þýðir orðið vögguvísa eða sú sem svæfir og huggar.
Árið er 1968 og stríð geisar í Víetnam. Fjöldi fólks freistar þess að flýja land í von um betra líf. Þar á meðal er ellefu ára stúlka sem flýr yfirstéttarlíf í Saigon, með viðkomu í malasískum flóttamannabúðum, alla leið til Kanada. Þar verður hún bátaflóttamaður í smábæ og þarf að laga sig að nýjum lifnaðarháttum og nýju tungumáli.
Inn í söguna fléttast örlög fleiri Víetnama, í Saigon og í Kanada, bæði á stríðs- og friðartímum.
Höfundurinn, Kim Thúy, var líkt og sögupersóna verksins ein af bátafólkinu svonefnda og er meðal frægustu höfunda Kanada í dag. Ru hefur verið þýdd á fjölda tungumála og unnið til margra verðlauna.


Fullorðið fólk
1.290 kr.Fullorðið fók er saga um afbrýðisemi og skömm þannig að lesandinn fyllist sælublöndnum hryllingi. Ida er arkitekt á fertugsaldri, einstæð og barnslaus sem þráir að eignast fjölskyldu og persóna Idu lýsir blátt áfram skelfilegu sálarangri þess öfundsama. Saga um útslitin fjölskyldubönd, eigingirni, og skömmina sem fylgir ástlausri tilvist.
Ida er arkitekt á fertugsaldri, einstæð og barnslaus en þráir að eignast fjölskyldu. Hún er á leið í sumarparadís æsku sinnar, þar sem til stendur að fagna 65 ára afmæli móður hennar. Í sumarbústaðnum bíður litla systir hennar, Marta, ásamt kærasta sínum og bónusbarni. Þetta hefði geta orðið gott frí ef ekki hefði verið fyrir gleðifréttirnar sem Marta færir. 

Hátíð merkingarleysunnar
1.290 kr.Hátíð merkingarleysunnar er ætlað að varpa ljósi á grafalvarleg viðfangsefni án þess að segja eitt einasta orð af alvöru. Lesendur Milans Kundera kannast við alvöruleysið sem einkennir skáldsögur hans. Í Ódauðleikanum rölta Goethe og Hemingway hlið við hlið gegnum hvern kaflann af öðrum, spjalla saman og gantast. Og í Með hægð segir Vera, eiginkona höfundarins: „Þú hefur oft sagt að þig langaði að skrifa skáldsögu þar sem ekki væri að finna eitt einasta alvarlegt orð … ég ætla bara að vara þig við: passaðu þig: óvinir þínir bíða þín.“
Í stað þess að passa sig lætur Kundera þennan draum sinn loks rætast í skáldsögu sem segja má að sé undraverð samantekt allra fyrri verka hans. Kostuleg samantekt. Kostulegur eftirmáli. Hlátur innblásinn af samtímanum sem er fyndinn vegna þess að hann hefur misst allt skopskyn. Hverju er við að bæta? Engu. Lesið!
Friðrik Rafnsson þýddi.

Út í vitann
990 kr.Út í vitann, fimmta skáldsaga breska rithöfundarins Virginiu Woolf, er jafnan talin einn af hátindum nútímabókmennta.
Í bókinni er skyggnst inn í líf fjölskyldu og gesta hennar í sumarleyfi á skosku Suðureyjunum. Frú Ramsey gnæfir yfir alla með persónu sinni og stýrir fólkinu í kringum sig á sinn ómótstæðilega hátt — hinum sérkennilega og þurftarfreka eiginmanni, barnahópnum, elskhugunum, gamla rithöfundinum viðskotailla, listmálaranum sjálfstæða, klunnalega unga menntamanninum. En allt á sinn stað og stund — og næsta ferð út í vitann er undir öðrum formerkjum.
Fáar skáldsögur búa yfir þeim mætti að breyta lífi lesenda sinna — en Út í vitann þykir vera ein þeirra.
Herdís Hreiðarsdóttir þýddi og skrifaði eftirmála.
Virginia Woolf (1882–1941) er einn af fremstu rithöfundum 20. aldar. Meðal helstu skáldsagna hennar eru Út í vitann, Frú Dalloway og Orlando. Hún tilheyrði frægum bókmennta- og listahópi sem kenndur var við Bloomsbury í London.

Silas Marner
990 kr.George Eliot er einn helsti skáldsagnahöfundur Englendinga á 19. öld. Skáldverk hennar spanna vítt svið þjóðfélagsins. Lýsingar hennar á ensku sveitalífi eru í senn raunsæjar og spegla umbrot á sviði trúmála, stjórnmála og tilfinningalífs.
Innsýn hennar í mannlegt eðli og lýsingar á innri átökum sögupersóna sinna og flóknum og stundum þversagnakenndum viðbrögðum þeirra við vandamálum þeim sem þær standa frammi fyrir voru nýmæli í skáldsagnaritun og vísuðu fram til skáldsagnagerðar nútímans.
Silas Marner ber þessi einkenni í ríkum mæli. Sagan er fyrir löngu talin sígilt verk og í fremstu röð skáldverka síns tíma. Í Silas Marner speglast sammannleg umbrot og átök í lífi einstaklinga jafnt sem samfélagsins sjálfs en jafnframt einkennist sagan af sérstökum þokka og hlýju sem bregður notalegum blæ yfir fólk og sögusvið. Sagt hefur verið að í sögu þessari megi kenna ýmsa þætti í lífi skáldkonunnar sjálfrar.
Á tímum Napóleonsstríðanna birtist vefarinn Silas Marner í þorpinu Raveloe, fulltrúi fornra og undarlegra hátta. Honum er tekið með tortryggni af lítt veraldarvönum íbúum staðarins. Silas heldur sig til hliðar við samfélagið enda hefur hann orðið fyrir þungum raunum og miklu ranglæti þar sem hann áður bjó. Hann bindur engin tengsl við nágranna sína en gætir einskis annars en vinnu sinnar og að draga saman fé. Dag einn er öllum fjársjóði hans stolið. Þótt ógæfan virðist mikil í fyrstu verður þessi atburður honum til láns þegar frá líður. Síðan ber gæfan á dyr í gervi lítillar stúlku sem hann gengur í foreldra stað. Þá kemur í ljós að örlög ýmissa, sem meira mega sín í samfélaginu, eru órjúfanlega bundin þessum hlédræga, fáskiptna manni.
Eitt af meistaraverkum heimsbókmenntanna í vandaðri þýðingu Atla Magnússonar.




Hundagerðið
990 kr.Í almenningsgarði í Helsinki situr kona á bekk og þykist lesa bók meðan hún fylgist með hamingjusamri kjarnafjölskyldu viðra hundinn sinn. Óvænt sest önnur kona á bekkinn, kona sem hún þekkir mætavel úr sínu fyrra lífi í Úkraínu – lífi þar sem allt var mögulegt en ekkert sjálfsagt.
Í Hundagerðinu tvinnast líf allslauss innflytjanda í Helsinki saman við sögu Úkraínu eftir fall Sovétríkjanna; í umróti sem fylgdi sjálfstæði landsins reyndi hver að bjarga sjálfum sér og þegar spillingin heima fyrir mætti vestrænni græðgi urðu konurnar á bekknum á milli. Í valdabaráttu auðugra fjölskyldna varð líf þeirra einskis vert, frjósemin það eina sem þær höfðu að selja.
Sofi Oksanen er einstaklega glögg á mannlega tilveru og í þessari áhrifamiklu og spennandi sögu er stungið á viðkvæmum kýlum samfélagsins í beittum texta og vel byggðri frásögn. Hundagerðið er fimmta bók Sofi Oksanen sem kemur út á íslensku.
Erla E. Völudóttir þýddi úr finnsku.


Jón úr Vör – Ljóðasafn
8.990 kr.Heildarútgáfa af ljóðum Jóns úr Vör. Skáldið Jón úr Vör (1917-2000) kvaddi sér hljóðs ungur að árum og setti nýjan svip á íslenska ljóðagerð um miðbik 20. aldar. Tvítugur gaf hann út fyrstu ljóðabók sína, Ég ber að dyrum, en með tímamótaverkinu Þorpinu (1946) varð hann þjóðkunnur. Eftir það sendi hann frá sér mörg verk og síðasta ljóðabókin, Gott er að lifa (1984), var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Hann var helsti forkólfur raunsæis, undanfari atómskáldanna og áhrifaskáldið þegar horft er til ljóða þeirra sem síðar komu fram á sjónarsviðið. Ljóðasafnið hefur að geyma öll útgefin ljóð Jóns úr Vör. Ferill hans spannaði hálfa öld og bækurnar urðu 12 talsins. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson ritar greinargóðan inngang um ævi og störf skáldsins.

