
Aðventa
990 kr.Aðventa ljómar af þeim dimma og bjarta eldi sem kviknar af neistafluginu þegar veruleika og skáldskap er slengt saman, því að aðalpersónan Benedikt og leit hans að kindum uppi á öræfum í grimmasta mánuði íslensks vetrar eiga rætur sínar í veruleikanum.
Engin bók Gunnars hefur farið jafn víða um lönd og Aðventa. Sagan er einföld á yfirborðinu, ekki flókin þegar því sleppir, heldur djúp og frjósöm. Stíll Gunnars er hvergi jafn látlaus og blátt áfram fallegur eins og í Aðventu.
Verk Gunnars Gunnarssonar (1889-1975) nutu fádæma vinsælda á síðustu öld. Bækur hans voru þýddar á tungur stórþjóða um leið og þær komu út.
Jón Kalman Stefánsson ritar formála.



Eldarnir
1.290 kr.Skáldin mega hjala um ástina, en ég þekki hana, hef séð hana að verki. Hún er ekkert annað en náttúruhamfarir.
Jarðskjálftar skekja Reykjanesskaga, eldfjöllin eru vöknuð til lífsins eftir 800 ára hlé. Enginn þekkir þau betur en eldfjallafræðingurinn Anna Arnardóttir, forstöðumaður Jarðvísindastofnunar, sem þarf að takast á við stærsta verkefni ferilsins við stjórn almannavarna. En áferðarfallegt og hamingjuríkt líf hennar lætur ekki lengur að stjórn.
Eldarnir eru þriðja skáldsaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur. Fyrri bækur hennar, Eyland og Hið heilaga orð, hafa vakið verðskuldaða athygli og verið þýddar á fjölda tungumála.


Tól
1.290 kr.Kvikmyndagerðarkonan Villa Dúadóttir situr fyrir svörum á heimildamyndahátíð í Stokkhólmi en spurningarnar vefjast fyrir henni. Nákvæmlega hvernig tengdist hún hvalveiðimanninum Dimma, sem myndin hennar fjallar um? Hvers vegna vildi hún segja sögu hans? Er yfirleitt viðeigandi að hún geri það? Og hvað með Amalíu, sem hún klippti út úr myndinni?
Líkt og í fyrri verkum Kristínar Eiríksdóttur virðist allt blasa við en ekkert er sem sýnist. Frásögnin heldur lesandanum föngnum, nærgætin og miskunnarlaus í senn.



Stóri skjálfti
1.290 kr.Blóðbragð í munninum. Blaut lærin nuddast saman, ég hef migið á mig í krampanum. Þetta er ekki að gerast. Hvar er hann? Verkurinn í enninu ágerist, eitthvað þrýstir á æðarnar, skall ég á höfuðið? Hljóp hann út í umferðina? Þá væri kominn sjúkrabíll. Eða hvað?
Saga rankar við sér eftir flogakast á gangstétt við Miklubrautina og þriggja ára sonur hennar er á bak og burt. Það síðasta sem hún man er tveggja hæða strætisvagn sem vegfarandi efast um að hún hafi í raun og veru séð. Næstu daga drottnar efinn yfir huga hennar. Hvað gerðist fyrir flogið? Hverju getur hún treyst? Og hvernig getur hún botnað nokkuð í tilfinningum sínum þegar minnið er svona gloppótt?
Skáldsögur Auðar Jónsdóttur hafa vakið athygli hér heima og erlendis fyrir fágæta blöndu af nístandi einlægni og húmor. Stóri skjálfti er áleitin og spennandi saga sem ber öll bestu einkenni höfundar síns.

Skot
1.290 kr.Ung íslensk kona, Margrét, er að vinna um nokkurra mánaða skeið í Rotterdam í Hollandi. Dag nokkurn hittir hún Arno, austrænan og heillandi karlmann, og fellur samstundis kylliflöt fyrir honum. En kynni þeirra verða endaslepp, því örfáum klukkustundum eftir fyrsta og síðasta ástarfund þeirra er hann skotinn á færi úti á götu.
Unga konan stendur ein eftir með barn Arnos undir belti og hugann fullan af spurningum. Hver skaut Arno? Hvers vegna? Hver var hann, þessi yndislegi maður? Með dyggri aðstoð kynjafuglsins og ættarfylgjunnar Bokka hefst hún handa við að raða saman brotum héðan og þaðan og kemst að niðurstöðu sem hana óraði ekki fyrir.
Þetta er spennandi og listavel skrifuð saga eftir höfund skáldsögunnar Borg sem kom út fyrir nokkrum árum og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.


