
Leit mín að framlífi
2.990 kr.Elínborg Lárusdóttir hefur um áratuga skeið verið einn helzti merkisberi spiritismans á Íslandi og þeim tíma haft náið samstarf við marga forystumenn sálarrannsóknarmanna. Hún hefur skrifað bækur um miðlana Hafstein Björnsson, Andrés Böðvarsson og Kristínu Kristjánsson, auk annarra bóka um dulræn efni. Þessi bók hennar, um eigin reynslu á langri ævi, er e.t.v. persónulegust allra skrifa hennar um þetta „mikilvægasta mál í heimi“. Oft hefur það borið við, að hinir látnu vitja hennar og biðja hana fyrir skilaboð til ástvina sinna. „Hinir látnu koma og tala við mig, eins og maður talar við mann. Þetta er ótrúlegt og furðar mig ekki þótt einhver, sem einhverntíma les þetta, rengi það . . . . finnst mér skylda mín að segja allan sannleikann í þessu efni, eins og ég skynja hina dularfullu atburði, sem ég nú orðið hef sjálf mikla og margs konar reynslu af“, segir á einum stað í bókinni. – Trúarvissa og staðföst sannfæring Elínborgar Lárusdóttur um framlíf að jarðvist lokinni, mun óefað veita mörgum huggun og styrk er efinn gerist áleitinn.








Jónas Hallgrímsson – Ævisaga
1.990 kr.„Listaskáldið góða“ er sú einkunn sem þjóðin hefur gefið skáldinu Jónasi. Þjóðin hefur löngum séð fyrir sér mynd af viðkvæmum ljúflingi sem elskaði blómin og eina stúlku sem hann fékk ekki að eiga. Þessi mynd hefur vakið upp andstæðu sína: af beiskum drykkjumanni og auðnuleysingja sem orti fáein kvæði. Hvorug myndin er rétt, eins og Páll Valsson leiðir í ljós í þessu mikla verki um ævi og störf Jónasar Hallgrímssonar – þótt báðar feli í sér sannleikskorn. Jónas var ekki einungis ástsælasta skáld Íslendinga fyrr og síðar heldur líka innblásinn og umdeildur baráttumaður fyrir hvers kyns þjóðþrifamálum og fyrsti eiginlegi náttúrufræðingur okkar.
Á síðum þessarar bókar þar sem saman fer sannferðug og traust fræðimennska og fjörleg framsetning kviknar samtími Jónasar og fjöldi litríkra persóna kemur við sögu. Við sjáum Jónas með augum samtímamanna hans sem margir höfðu horn í síðu hans – og vinanna sem trúðu á hann. Rakin er sagan á bak við byltingarritið Fjölni, við kynnumst þrotlausum rannsóknum vísindamannsins Jónasar og farið er í saumana á fjölmörgum kvæðum hans, ástsælum jafnt sem minna þekktum. Höfundur leiðir margt nýtt í ljós um ástamál og einkahagi skáldsins og dregur upp heilsteypta mynd af lífi og starfi margbrotins manns.
Páll Valsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1999 fyrir þessa bók um Jónas Hallgrímsson.



