
Að borða Búdda
1.290 kr.Þegar Rauði her Maos Zedong flúði inn á hásléttu Tíbets í kínverska borgarastríðinu voru hermennirnir svo hungraðir að þeir rændu klaustrin í bænum Ngaba og víðar og borðuðu trúarlegar styttur úr byggmjöli og smjöri – og álitu að þeir væru að leggja sér sjálfan Búdda til munns. Róstur og skærur í héruðunum umhverfis Ngaba leiddu til þess að íbúarnir þar urðu eitt aðalhreyfiaflið í tíbesku andspyrnunni sem náði hámarki með sjálfsíkveikjum á götum úti á 21. öldinni.
Í Að borða Búdda varpar Barbara Demick ljósi á menningu sem hefur lengi verið rómantíseruð af Vesturlandabúum sem andleg og friðsamleg. Hún sýnir hvað það þýðir raunverulega að vera Tíbetbúi í nútímanum, reyna að varðveita menningu sína, trú og tungumál fyrir óstöðvandi ofurvaldi, gripdeildum þess og viðvarandi kúgun.
„Kínverjar hafa þegar skipað nefnd sem á að velja næsta Dalai Lama. Ef við tökum ekki slaginn, þá verða þeir á undan okkur. Þeir finna einhvern sætan, lítinn, tíbeskan dreng sem þeir geta haft fulla stjórn á.“
Barbara Demick (f. 1959) er margverðlaunaður bandarískur blaðamaður, þekkt fyrir greinar sínar um mannréttindamál og efnahagsog samfélagslegt umrót í Austur-Evrópu og Asíu. Í Að borða Búdda fjallar Demick um þær afdrifaríku breytingar sem orðið hafa á tíbesku samfélagi frá innrás Kínverja í landið um miðja síðustu öld. Á íslensku hefur áður komið út eftir hana metsölubókin Engan þarf að öfunda: Daglegt líf í Norður-Kóreu.

Harmur englanna
1.290 kr.Tíminn er stundum bölvað kvikindi, færir okkur allt til þess eins að taka það burt aftur. Það eru þrjár vikur síðan strákurinn kom í Plássið með stórhættulegan skáldskap á bakinu og vegalengdin milli Bárðar og lífsins eykst miskunnarlaust með hverjum degi. Jens landpóstur er kominn í Plássið, rétt slapp undan norðanvindinum þótt komið væri vor. Saman fara þeir strákurinn yfir að Vetrarströndinni, það eru apríllok og snjókoman tengir saman himin og jörð, þurrkar út áttirnar og landslagið. Hafi djöfullinn skapað eitthvað í þessum heimi, fyrir utan peningana, þá er það skafrenningur uppi á fjöllu

Fiskarnir hafa enga fætur
1.290 kr.Þetta er sviðið: Austfirsk fjöll og Keflavík sem kölluð hefur verið svartasti staður landsins.
Hér er sögð saga ættar allt frá byrjun tuttugustu aldar og fram til okkar daga. Sagan teygir sig frá Norðfirði til Keflavíkur, hún nær yfir allt landið, yfir fjöllin sem eru fornar rósir færðar guðum og hraunið sem lítur stundum út eins og blótsyrði djöfulsins.
Þetta er saga fólks sem elskar og þjáist, sem leitar og flýr, saga um sársauka og söknuð, ofbeldi og kvótalaust haf. Saga um Kanaskip, Bítlana og Pink Floyd, um bjarta og dimma daga á Norðfirði þar sem kona breytist í lifandi múmíu.

Guli kafbáturinn
1.990 kr.Rithöfundur á miðjum aldri hefur komið sér fyrir í almenningsgarði í London. Hann á brýnt erindi við Paul McCartney, sem situr þar undir tré, en fortíðin truflar hann í sífellu og sækir að honum í líki gamals Trabants með rauðu þaki. Í bílnum sitja faðir hans, Guð með vodkaflöskuna, og Johnny Cash með gítarinn í aftursætinu, og fleiri bætast í hópinn; Sesselja gamla og Guðmundur á fjórðu hæðinni, Jesús og mamma hans, heill kirkjugarður af dánu fólki, Benjamín ökukennari og Örn Örlygsson, sem grefur upp 5000 ára gömul ljóð á súmerskum leirtöflum. Þetta er skáldsaga um listina, dauðann og þó miklu frekar um lífið, undursamlegan lækningamátt ímyndunaraflsins og Bítlana.

Himnaríki og helvíti
1.290 kr.Sagan gerist fyrir meira en hundrað árum, fyrir vestan, inni í firði, á milli hárra fjalla, eiginlega á botni heimsins, þar sem sjórinn verður stundum svo gæfur að það er hægt að fara niður í fjöru til að strjúka honum.
Strákurinn og Bárður róa um nótt á sexæringi út á víðáttur Djúpsins að leggja lóðir. Þar bíða þeir fram á brothættan morgun eftir fiskinum sem hefur synt óbreyttur um hafið í 120 milljón ár. Þótt peysurnar séu vel þæfðar smýgur heimskautavindur auðveldlega í gegn. Það er stutt á milli lífs og dauða, eiginlega bara ein flík, einn stakkur.

Saga Ástu
1.290 kr.Þetta er saga Ástu.
Foreldrar hennar völdu nafnið meðan hún var enn í móðurkviði. Nú liggur Sigvaldi faðir hennar á steyptri stétt – af hverju liggur hann þar?
Lenti hann á fylliríi?
Saga fjölskyldunnar rennur um huga Sigvalda. Ást í ólíkum myndum, íslensk sveit, skáldskapur og menntunarþrá, börnin sem fólk fær að hafa hjá sér og þau sem aðrir ala upp.
Þetta er saga Ástu. Öll fæðumst við nafnlaus en erum mjög fljótlega nefnd svo það verði ögn erfiðara fyrir dauðann að sækja okkur.

Birtan á fjöllunum
990 kr.„Stundum er eins og allt það liðna verði að ljóði. Eins og minningarnar séu í ljóðum þar til reynt er að koma þeim í orð: þá breytast þær í sögu.“
Birtan á fjöllunum er bráðfyndin og listilega skrifuð saga, um sérkennilegt sambýli nokkura sveitunga í dal vestur á landi. Jón Kalman skrifar um kunnuglegar persónur, sem skáldskapurinn gæðir sínum sérstaka ljóma. Textinn er ljóðrænn og skemmtilegur og einlægni Jóns Kalmans gerir sögur hans einstaklega heillandi.
Skurðir í rigningunni , Sumarið bakvið brekkuna og Birtan á fjöllunum mynda þríleik sagna sem gerast í sama dalnum.

Sumarið bakvið Brekkuna
990 kr.„Maður verður að beygja af þjóðveginum. Ekki æða áfram eftir malbikuðum leiðum, heldur beygja…“
Þannig hefst saga Jóns Kalmans Stefánssonar. Jón Kalman skrifar um hið hversdagslega líf á töfrandi hátt. Hér er ekki fjallað um hversdagsmanneskjur eða fólk í alfaraleið, heldur stórbrotna einstaklinga sem láta sér fátt fyrir brjósti brenna. Sagan er dramatísk og þó er írónían aldrei langt undan.
Sumarið bakvið brekkuna er miðhlutinn í þríleik sagna sem gerast í söu sveitinni; fyrst er Skurðir í rigningunni og síðust Birtan á fjöllunum.
Jón Kalman Stefánsson var tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir þessa bók.

Ýmislegt um risafurur og tímann
990 kr.„Amma og afi. Tvö orð sem geta hughreyst mann eins og trúarbrögð, eins og risafura.“
Ég er tíu ára og allt leikur í lyndi. Borgirnar breyta ekki um nöfn meðan ég sef, járntjaldið heldur heiminum saman, ósonlagið kemst aldrei á forsíður blaða. Og nú hafa örlögin úthlutað mér löngu útlensku sumri í húsi afa og ömmu. Ævintýrin suða í loftinu, Tarzan og Léttfeti á næsta leiti. En það er kónguló undir rúminu og einhvers staðar í hverfinu leitar fáklædd kona að lyklinum að hliði himnaríkis.

Eitthvað á stærð við alheiminn
1.290 kr.Tíminn líður ekki í eilífðinni, þar verður tillitslaust afl hans að engu. Hér lýkur ættarsögunni sem hefst í bókinni Fiskarnir hafa enga fætur (2013) og teygir sig frá Norðfirði forðum til Keflavíkur dagsins í dag, með viðkomu á Miðnesheiðinni.
Hér er sagt frá ástinni, sem er í senn fórn og jafnvægislist, frá lífi og dauða, krepptum hnefa, Elvis Presley sem kann að opna hjörtun og stjörnum himinsins sem hverja í eldi sólarinnar.

Smartís
1.290 kr.Í Reykjavík er unglingsstúlka að reyna að átta sig á framtíðinni. Í heiminum geisar kalt stríð og heimsendir virðist jafn raunverulegur og ný peysa úr Ping Pong við Laugaveg. Til að verða gjaldgengur í veröldinni þarf að vera annaðhvort eða, velja á milli þess að krókna eða stikna. En það er ekki það sem hún hefur í huga …
Í Smartís segir Gerður Kristný sögu sem gerist á níunda áratug liðinnar aldar. Meitlaður stíll, húmor og frásagnargleði njóta sín til fullnustu í texta sem miðlar horfnum tíma og sterkum tilfinningum.

Bátur með segli og allt
1.290 kr.Gerður Kristný hlaut bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness 2004 fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt.
Skáldsagan fjallar um Oddfríði sem er óráðin stúlka á þrítugsaldri og stendur á krossgötum þegar hún fær tækifæri til að gerast blaðamaður. Ritstjóri dagblaðs vill fá hana til að ráða sig hjá samkeppnisaðilanum og komast að hvað þar er í gangi. Oddfríður slær til en uppgötvar að hún er ekki ein um að leika tveimur skjöldum Skyndilega er hún komin í þær aðstæður að hún hefur engan til að treysta á nema sjálfa sig og eigið hyggjuvit til þess að fleyta sér í gegnum boðaföllin.
Í umsögn dómnefndar um verðlaunahandritið segir meðal annars: Bátur með segli og allt er bráðskemmtileg og spennandi saga um efni sem snertir kviku okkar allra. Á meistaralegan hátt er skyggnst inn í líf ungrar konu sem lifað hefur í tilfinningalegri útlegð frá sínum nánustu og frá fyrstu tíð vanist því að engum sé að treysta – allra síst fjölskyldunni. Af fádæma öryggi er dregin upp mynd af sorg og einsemd þess sem svíkur vegna þess að honum finnst hann hafa verið svikinn.

Hestvík
1.290 kr.Ísinn í sjoppunni við Valhöll hlaut að bragðast guðdómlega. Þar sem fólki var áður drekkt eins og kettlingum í poka eða það sundurlimað fyrir að stela tvinna var nú boðið upp á pönnukökur með þeyttum rjóma. Síðan var hægt að kasta peningi ofan í gjá og óska sér heppni og hamingju.
Það er liðið á sumar og lyngilmurinn í Grafningnum fyllir vitin. Frá sumarbústöðunum sjást Nesjaey og Sandey stinga kryppum sínum upp úr vatninu og stundum siglir þar bátur. Fólk er hingað komið til að vera í friði með minningar sínar og leyndarmál. Kvöldin eru orðin dimm og erfitt að finna þá sem týnast.
Gerður Kristný er höfundur á þriðja tugar bóka. Hestvík er þriðja skáldsaga hennar fyrir fullorðna.







Einar ríki – Fagur fiskur í sjó
2.990 kr.Einar ríki
II. bindi
Fagur fiskur í sjó
Þórbergur Þórðarson skráði

Hin feiga skepna
1.290 kr.Girnd og dauðleiki eru helstu viðfangsefni þessarar bókar. David Kepesh, andstæðingur hjónabands og talsmaður frjálsra ásta, er á sjötugsaldri þegar hann fellur fyrir 24 ára stúlku af kúbverskum ættum og allt fer á annan endann í lífi hans. Þetta er kröftugt uppgjör við kynlífsdýrkun Vesturlanda, við hömlur og hömluleysi, samkennd og einstaklingshyggju. Philip Roth er almennt viðurkenndur sem einn fremsti núlifandi rithöfundur Bandaríkjanna.

Vernon G. Little
1.290 kr.Vernon G. Little er 15 ára drengur sem búsettur er í bandarískum smábæ og á allt annað en auðvelt með að fóta sig í tilverunni. Hann lumar líka á allskyns mismerkilegum leyndarmálum, eins og kemur á daginn þegar yfirvöld og fjölmiðlar fá áhuga á honum í framhaldi af blóðugum fjöldamorðum í skólanum hans. Fyrr en varir er Vernon flæktur í þéttan lygavef sem torvelt reynist að losna úr.
D.B.C Pierre hlaut, flestum að óvörum, Bookerverðlaunin fyrir þessa frumraun sína á sviði skáldskapar árið 2003. Síðan þá hefur bókin verið þýdd á fjölda tungumála og hvarvetna hlotið frábærar viðtökur. Hún er gegnsýrð af kolsvörtum húmor og nístandi kaldhæðni, en birtir jafnframt nýstárlega sýn á veruleika almennings á Vesturlöndum.
