
Dauðinn er barningur
3.590 kr.Þrjú systkini flytja lík föður sín til greftrunar í heimabæ hans Anabia í Aleppohéraði. Ferðalagið ætti undir venjulegum kringumstæðum að taka um fimm klukkustundi en það er ekkert venjulegt við ástandið í stríðshrjáðu Sýrlandi. Og ekki auðveldar þátttaka föður þeirra í andspyrnunni þeim að komast í gegnum eftilitsstöðvar, því án réttra pappíra liggur beinast við að handtaka líkið.
Magnað verk um hnignun samfélags í löngu stríði eftir Khaled Khalifa, þekktasta samtímahöfund Sýrlands. Dauðinn er barningur hefur verið þýdd á 12 tungumál og tilnefnd til virtra bókmenntaverðlauna.
Þýðandi er Elísa Björg Þorsteinsdóttir.

Dagbók frá Gaza
4.990 kr.Menningarmálaráðherra palestínskra stjórnvalda var að synda í sjónum þegar sprengjum tók að rigna yfir Gaza. Í stað þess að halda heim á Vesturbakkann ákváðu hann og sonur hans á unglingsaldri að halda kyrru fyrir, enda óraði þá ekki fyrir því sem koma skyldi. Með dagbókarskrifum sínum veitir Atef Abu Saif nístandi innsýn í baráttu Palestínumanna við að halda í lífi.
Palestínski rithöfundurinn Atef Abu Saif (f. 1973) hefur meðal annars skrifað skáldsögur, smásögur og bók um stjórnmál. Brot úr Dagbók frá Gaza hafa verið birt reglulega í vestrænum fjölmiðlum frá upphafi árása Ísraelshers á Gaza haustið 2023, og eru meðal mikilvægustu vitnisburða sem þaðan berast.

Á nóttunni er allt blóð svart
3.890 kr.Þegar Alfa Ndiaye treystir sér ekki til að veita æskuvini sínum Mademba Diop náðarhöggið þar sem hann liggur illa særður milli skotgrafa í fyrri heimstyrjöldinni brestur eitthvað innra með honum og hefndarþorsti heltekur hann. Í fyrstu dást félagarnir að hugrekki Alfa en þegar voðaverkunum linnir ekki hættir þeim að lítast á blikuna.
Fransk-senegalski rithöfundurinn David Diop varpar ljósi á fáránleika skotgrafahernaðarins sem einkenndi fyrri heimstyrjöldina, þar sem um tvö hundruð þúsund fótgönguliðar frá Vestur – Afríku létu lífið fyrir Frakkland. Afrísku hermennirnir gengu undir nafninu Chocolats vegna húðlitarins og var þeim ætlað að vekja skelfingu hjá óvininum sem mannætur og villimenn vopnaðir sveðjum.

Allt sundrast
3.590 kr.Allt sundrast kom fyrst út árið 1958 og er talin höfuðrit afrískra bókmennta. Bókin var sú fyrsta í ritröð Heinemanns African Writers Series sem hefur átt mikinn þátt í að vekja athygli á afrískum bókmenntum í hinum vestræna heimi. Hún hefur verið þýdd á 58 tungumál og selst í yfir 20 milljónum eintaka.
Allt sundrast segir sögu hins óttalausa Igbo-stríðsmanns Okonkwos í upphafi nýlendutímans þegar ágengir Evrópumenn ógna heimi ættflokkanna á svæðinu. Skáldsagan fagnar í ár 60 ára útgáfuafmæli og er útgáfa hennar á íslensku löngu tímabær. Hún markar upphafið á því þegar rithöfundar Afríkulanda hófu að segja sína sögu sjálfir en fram að því hafði hún verið skráð af vestrænu fólki.
Chinua Achebe (1930–2013) var einn merkasti rithöfundur Nígeríu og er oft talinn faðir afrískra nútímabókmennta. Hann er þekktastur fyrir „Afríska þríleikinn“ sem samanstendur af skáldsögunum Things Fall Apart (Allt sundrast), Arrow of God og No Longer at Ease, sem segja sögu þriggja kynslóða frá upphafi nýlendutímans í Nígeríu til aukinnar þéttbýlismyndunar og hnignunar hefðbundinnar menningar. Hann skrifaði fjölmargar skáldsögur, ljóð, smásögur, ritgerðir og barnabækur.
Achebe hafði umsjón með útgáfu afrískra skáldverka í Ritröð afrískra höfunda hjá Heinemann-útgáfunni og starfaði sem háskólaprófessor í Bandaríkjunum. Chinua Achebe var gerður heiðursdoktor í yfir 30 háskólum víða um heim. Honum voru einnig veitt þjóðarverðlaun Nígeríu, sem eru æðsta viðurkenning landsins, auk þess sem hann hlaut alþjóðlegu Man Booker-verðlaunin árið 2007 fyrir stórkostlegt ævistarf.

Allt sem við misstum í eldinum
3.890 kr.Dáleiðandi smásögur eftir argentíska rithöfundinn Mariönu Enriquez, eina athyglisverðustu bókmenntarödd Rómönsku-Ameríku, sem vísa í sögulegan og pólitískan veruleika Argentínu. Magnaðar sögur sem hafa vakið athygli víða um heim og verið þýddar á 28 tungumál.
Ungt fólk í nútímanum, ímyndunarafl á barmi sjúkleika, ofbeltisvofur herstjórnanna, svartigaldur, norður-argentínsk hjátrú, stéttaskipting og spilling, ástarsambönd, lágstéttarhverfi, jaðarsetning og staða kvenna. Myrkur og oftar en ekki óþægilegur heimur.

Akam, ég og Annika
4.590 kr.Hrafnhildur neyðist til að flytja til Þýskalands með fjölskyldu sinni þegar stjúpfaðir hennar fær þar vinnu. Nýi skólinn er mjög strangur og hún saknar pabba síns og ömmu, en aðallega bestu vinkonu sinnar. Þegar hún kynnist hinum krökkunum í skólanum renna hins vegar á hana tvær grímur. Vissulega er erfitt að vera nýja stelpan í bekknum, mállaus og vinalaus, en það virðist vera til verra hlutskipti. Hrafnhildur þarf á öllu sínu hugrekki að halda þegar hún tekst á við áskoranir sem hana hefði ekki einu sinni grunað að væru til. Hverjum getur hún eiginlega treyst? Af hverju vill Annika endilega vera vinkona hennar – og í hvaða vandræðum er Akam?






