
Þrenna
5.190 kr.Bókin Þrenna samanstendur af bókunum Ár og sprænur; hulda ráðgátan, Ranimosk og Litlu sögurnar í hálfa samhenginu. Í bókunum koma meðal annars fram Penni Gúm, sem fann Penny Lane á You Tube, og Háloftamígur. Þar að auki er að finna prósa í hugleiðingaformi sem hverfast um vangaveltur höfundar um málefni líðandi stundar, texta sem ekki urðu að sjálfstæðum bókum ásamt endurminningum sem dansa á línu raunveruleika og skáldskapar.
Verk Einars Guðmundssonar tengjast framúrstefnuhreyfingum í myndlist fremur en því sem var efst á baugi í íslenskum bókmenntum. Sá tilraunaandi sem ríkir í verkum hans er vandfundinn í verkum annarra skáldsagnahöfunda. Eftir Einar liggja yfir 20 bækur, og eru margar þeirra orðnar efirsóttar meðal safnara. Meðal fyrri bóka Einars eru Harry the Caveman (1970), Lablaða hérgula (1975), Flóttinn til lífsins (1976) og Án titils (1978).
Bókin er gefin út í 300 tölusettum eintökum.




Rúmmálsreikningur II
4.190 kr.Rúmmálsreikningur II er annað bindi af sjö í skáldsögu Solvej Balle um Töru Selter sem situr föst í nóvemberdegi.
„Mig langar út úr nóvember og inn í heim með árstíðum. Mig langar í snjó og hélað gras, kannski fáeina daga með frosthörkum, ekki endilega frostavetur eða háa skafla, bara vetur eins og ég þekki þá, kalda daga og garða með fölnuðum stráum og hvítri slikju, nætur með köldum stjörnuhimni sem tekur kannski endrum og sinnum með sér snjókomu.“
Höfundurinn hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022 fyrir fyrstu þrjú bindin.
„Þessi þrjú fyrstu bindi mynda þegar samhangandi heild sem hver nýr hluti eykur við á nýja og ófyrirséða vegu, og ögrar um leið hugmyndum okkar um listaverkið sem snyrtilega og afmarkaða einingu.“
Úr umsögn dómnefndar um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Þýðandi er Steinunn Stefánsdóttir

Drottningarnar í Garðinum
4.190 kr.Hópur kynlífsverkakvenna er á næturrölti í Sarmiento-garðinum í Córdoba, Argentínu. Þær heyra barnsgrát í nóttinni. Encarna frænka, leiðtogi þeirra, ryður sér leið í gegnum skógarþykknið og finnur barn, sem hún tekur að sér, eins og hún hefur tekið margar útskúfaðar konur að sér, þar á meðal Camilu. Í bleika húsinu hennar Encörnu frænku finnst skjól fyrir daglegum ógnum, sjúkdómum og ofbeldi af hálfu kúnna, lögregluþjóna og ástmanna. Mállaus kona umbreytist í fugl, hauslaus maður flýr stríð og Camila berst fyrir að ráða lífi sínu og kyngervi sjálf. Raunveruleikinn er sveipaður töfrum drungalegs ævintýris. Drottningarnar í garðinum hefur verið þýdd á ótal tungumál og unnið til margra verðlauna. Höfundurinn Camila Sosa Villada er einnig leikkona og baráttukona.



Veðurfregnir og jarðarfarir
5.590 kr.Veðurfregnir og jarðarfarir er skáldsaga þriggja kynslóða sem gerist á mismunandi stöðum: á Íslandi, í Frakklandi og Póllandi. Veðurfræðingurinn Lena, sem er aðalpersóna ferðast um tíma og rúm í leit að sátt við lífið og fortíðardrauga. Íslenskar veður- og náttúrulýsingar eru aðalhrynjandi sögunnar og í þeim endurspeglast tilfinningar og ástarmál veðurfræðingsins. Hugleiðingar um dauðann og missi slá mikilvægan tón í frásögninni líkt og samskipti milli mæðgna, vinkvenna, systkina.

Uppljómun í eðalplómutrénu
3.590 kr.Fjölskylda Bahar flýr Teheran í kjölfar ofsókna í byltingunni árið 1979 og sest að fyrir utan afskekkt þorp í von um að geta lifað í friði.
Enginn fær þó komist undan brjálæðinu sem ríður yfir landið og snertir bæði lifandi og látna, aldna og unga. Mögnuð írönsk saga um mátt ímyndunarafsins gagnvart grimmd og miskunnarleysi. Persneskt töfraraunsæi. Fjórtánda bókin í þýðingaröð Angústúru.
Íranski rithöfundurinn Shokoofeh Azar (f. 1972) starfaði sem blaðamaður í heimalandinu en eftir ítrekaðar fangelsanir sá hún sig tilneydda til að flýja land og fékk pólitískt hæli í Ástralíu árið 2011. Uppljómun í eðalplómutrénu er fyrsta skáldsaga höfundar og hlaut Azar fyrir hana tilnefningu til alþjóðlegu Booker-verðlaunanna 2020.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi.

Sakfelling
3.590 kr.Sjö sögur frá Norður-Kóreu sem lýsa lífi fólks í landi einræðis og einangrunar í stjórnartíð Kim Jong-Il.
Eftirlitsmaður í verksmiðju neyðist til að velja á milli þess að sýna gömlum vini eða Flokknum hollustu; kona sveltir sjálfa sig til að eiginmaður hennar, fyrirvinnan, fái nóg að borða til að halda starfskröftum sínum; ljós rennur upp fyrir dyggum Flokksmnni þegar sonur hans afhjúpar raunveruleika þeirra sem leikhús fáránleikans. Einstaklega fallega skrifaðar sögur, samdar af næmni fyrir mannlegri tilveru.
Bandi, sem þýðir eldfluga, er dulnefni norðurkóresks rithöfundar sem starfar á vegum Rithöfundarsambands Norður-Kóreu en á árunum 1989-1995 skrifaði hann í leyni sögur og ljóð þar sem hann gagnrýndi stjórnarfarið í ríkinu. Árið 2013 tókst að smygla sögunum úr landi og birtast sjö þeirra í þessari bók. Rétturinn að henni hefur verið seldur til 20 landa.
Þýðandi Ingunn Ásdísardóttir.

Litla land
3.590 kr.Gabríel er tíu ára og lifir áhyggjulausu lífi í úthverfi Bújúmbúra, í Afríkuríkinu Búrúndí. Allt hverfist um vinina og þeirra uppátæki í botnlanganum sem þeir hafa gert að ríki sínu. En þegar borgarastríð skellur á í landinu, og þjóðarmorð er framið í nágrannaríkinu Rúanda, breytist allt. Falleg saga um vináttu og sakleysi æskunnar, en líka átakanlegur vitnisburður um þau eyðandi áhrif sem stríð og ofbeldi hafa á líf og samfélög manna.
Litla land er fyrsta skáldsaga tónlistarmannsins Gaëls Faye (f. 1982) og endurspeglar uppvöxt hans í Búrúndí. Bókin sló í gegn þegar hún kom út í Frakklandi árið 2016, hefur selst þar í yfir 800 þúsund eintökum, hlotið viðurkenningar og verðlaun og verið þýdd á 30 tungumál. Einstök saga sem nú hefur verið kvikmynduð.

Saga af svartri geit
3.990 kr.Dagsgömul, agnarsmá geit kemst óvænt í hendur fátæks, aldraðs bónda sem ásamt konu sinni fórnar öllu til að koma huðnukiðinu á legg. Það reynist erfitt í hörðum heimi þar sem fátækt, kúgun og uppskerubrestur eru veruleiki manna og dýra. Heillandi saga lítillar geitar.
Saga af geit og samfélagi, stétt og kærleika. Einnig saga af því hvernig lítið kraftaverk getur steypt venjulegum manneskjum í glötun. Perumal Murugan (f. 1966) er fyrsti tamílski rithöfundurinn sem gefinn er út á íslensku. Hann hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín.

Skuggavíddin
3.990 kr.Í einræðisríki Pinochets í Chile kemur órólegur karlmaður inn á ritstjórnarskrifstofu dagblaðs á vegum stjórnarandstæðinga í landinu. Hann er öryggissveitarmaður. Ég vil segja frá því sem ég hef gert, segir hann, og blaðakonan kveikir á upptökutæki til að hlýða á vitnisburð sem opnar dyr inn í áður óþekkta vídd.
Nona Fernández (f. 1971) virkjar ímyndunaraflið til að komast á staði sem hvorki finnast í minningum né skjölum. Hún tvinnar saman eigin reynslu og sannsögulega atburði og útkoman er áhrifamikil og grípandi. Ein besta bók sem skrifuð hefur verið um þetta átakanlega tímabil í sögu Chile.

Heaven
3.890 kr.Sögumaðurinn er fjórtán ára. Hann hefur lengi mátt þola einelti jafnaldra sinna. Dag einn berst honum óvænt bréf frá bekkjarsystur sinni. Það er upphafið að vináttu byggðri á sameiginlegri reynslu þeirra. En hvers virði er vinátta sem á sér rætur í ótta og sársauka? Og hefur þjáningin merkingu? Magnað verk frá einum áhugaverðasta höfundi Japan.
Mieko Kawakami kom eins og ferskur andblær inn í fremur karllæga bókmenntahefð Japan með sinni fyrstu skáldsögu árið 2008. Síðan þá hefur hún unnið til fjölmargra virtra bókmenntaverðlauna og bækur hennar verið þýddar á yfir 30 tungumál.

Kramp
3.890 kr.Hin sjö ára M fylgir föður sínum D í söluferðir til smábæja í Chile með byggingavörur frá framleiðandanum Kramp á tímum Pinochet-harðstjórnarnarinnar. Saklaust barnið heillast af heimi farandsölumannanna og gerir sér aðeins óljósa grein fyrir þeirri pólitísku spennu sem kraumar undir niðri í samfélaginu.
Chileski rithöfundurinn María Jóse Ferrada (f. 1977) fangar í ljúfsárri frásögn óvenjulegt feðginasamband og hverfulleika lífsins frá sjónarhóli barns í heimi sem hún heldur sig þekkja. Saga sem er í senn nostalgísk, hættuleg og gull af gleði og undrun.




Tíkin
3.590 kr.Damaris þráir það heitast að verða móðir en þrátt fyrir töfradrykki, smyrsl og helgiathafnir geta þau Rogelio ekki eignast barn. Þegar henni býðst að taka að sér tíkarhvolp grípur hún tækifærið feginshendi en tíkin lætur ekki temja sig frekar en náttúran.
Áhrifamikil skáldsaga eftir kólumbíska rithöfundinn Pilar Quintana (f. 1972) sem gerist í litlu þorpi við kólumbísku Kyrrahafsströndina, þar sem samfélagið endurspeglar óblíð náttúruöflin. Tíkin hlaut hin virtu kólumbísku bókmenntaverðlaun Biblioteca de Narrativa. Útgáfurétturinn hefur verið seldur til 14 tungumálasvæða.

Kona í hvarfpunkti
3.590 kr.Firdaus hefur verið dæmd til dauða fyrir morð. Hún segir sögu sína nóttina fyrir aftökuna.
Egypsk, femínísk klassík sem afhjúpar undirokun kvenna í samfélögum Austurlanda nær eftir höfund sem hefur verið á dauðalistum íslamskra öfgahópa. Mergjuð skáldsaga.
Með eftirmála eftir Maríönnu Clöru Lúthersdóttur.
Nawal El Saadawi (f. 1931) er egypskur rithöfundur, læknir og baráttukona fyrir mannréttindum. Hún er einn áhrifamesti feminíski hugsuður arabaheimsins, hefur skrifað um stöðu kvenna í íslömskum samfélögum og gagnrýnt feðraveldið, trúarbrögð og kapítalisma fyrir kerfisbundna kúgunkvenna um allan heim. Kona í hvarfpunkti, sem byggð er á sannri sögu, fékkst upphaflega ekki útgefin í heimalandi höfundar og kom fyrst út í Líbanon árið 1975. Bókin hefur komið út á 22 tungumálum.

Horses
4.590 kr.The Icelandic horse has endured much during its millennium of service to a hard people in a cold land. Blazing trails through lava fields, shuttling between far-flung fjords, starved, drowned and even brought back from the dead. Here we see Iceland’s hardiest helper from every angle, the same beast who first set hoof on Iceland’s shores in the 9th century, through stories free from all the hype and schmaltz of the tourist brochures.
With their first book, Birds, Hjörleifur Hjartarson and Rán Flygenring dazzled us with Iceland’s fascinating feathered friends. Now they’re back in the saddle with their unique take on Iceland’s iconic equine.

Pálmavínsdrykkjumaðurinn
3.890 kr.Þegar tappari pálmavínsdrykkjumanns fellur óvænt frá leggur drykkjumaðurinn í leiðangur til að hafa uppi á honum í Dauðramannaþorpinu. En leiðin þangað er alls ekki greið og ýmsar goðsögulegar verur tefja för hans. Ævintýraleg frásögn í anda nígerískra munnmælasagna.
Þekktasta verk nígeríska rithöfundarins Amos Tutuola (1920-1997) er að öllum líkindum fyrsta afríska skáldsagan á ensku til að koma út utan heimalandsins, árið 1952. Verkið var harðlega gagnrýnt í Nígeríu því málið á sögunni þótti ýta undir þá mynd af Afríku að álfan væri vanþróuð. Nú er Pálmavínsdrykkjumaðurinn talinn meðal höfuðverka afrískra bókmennta.

Sendiboðinn
3.590 kr.Japan hefur um langa hríð verið lokað vegna ónefndra náttúruhamfara af mannavöldum. Eldra fólkið lifir lengi við hestaheilsu og annast um börnin sem eru viðkvæm og gömul fyrir aldur fram. Mumei býr með Yoshiro, fjörgömlum langafa sínum. Drengurinn er veikburða og með hitasótt en hann er klókur og alveg laus við sjálfsvorkunn og bölsýni. Yoshiro einbeitir sér að því að fæða og klæða Mumei, útvalinn sendiboða, þjakaður af samviskubiti vegna gjörða sinnar kynslóðar og afleiðinga þeirra.
Margverðlaunuð skáldsaga eftir japanska rithöfundinn Yoko Tawada, en áður hefur komið út á íslensku bókin Etýður í snjó eftir sama höfund. Þrátt fyrir að Sendiboðinn sé eins konar dómsdagsspá, þá er hér um að ræða hrífandi og gáskafulla skáldsögu.
