



Jónas Hallgrímsson – Ævisaga
1.990 kr.„Listaskáldið góða“ er sú einkunn sem þjóðin hefur gefið skáldinu Jónasi. Þjóðin hefur löngum séð fyrir sér mynd af viðkvæmum ljúflingi sem elskaði blómin og eina stúlku sem hann fékk ekki að eiga. Þessi mynd hefur vakið upp andstæðu sína: af beiskum drykkjumanni og auðnuleysingja sem orti fáein kvæði. Hvorug myndin er rétt, eins og Páll Valsson leiðir í ljós í þessu mikla verki um ævi og störf Jónasar Hallgrímssonar – þótt báðar feli í sér sannleikskorn. Jónas var ekki einungis ástsælasta skáld Íslendinga fyrr og síðar heldur líka innblásinn og umdeildur baráttumaður fyrir hvers kyns þjóðþrifamálum og fyrsti eiginlegi náttúrufræðingur okkar.
Á síðum þessarar bókar þar sem saman fer sannferðug og traust fræðimennska og fjörleg framsetning kviknar samtími Jónasar og fjöldi litríkra persóna kemur við sögu. Við sjáum Jónas með augum samtímamanna hans sem margir höfðu horn í síðu hans – og vinanna sem trúðu á hann. Rakin er sagan á bak við byltingarritið Fjölni, við kynnumst þrotlausum rannsóknum vísindamannsins Jónasar og farið er í saumana á fjölmörgum kvæðum hans, ástsælum jafnt sem minna þekktum. Höfundur leiðir margt nýtt í ljós um ástamál og einkahagi skáldsins og dregur upp heilsteypta mynd af lífi og starfi margbrotins manns.
Páll Valsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1999 fyrir þessa bók um Jónas Hallgrímsson.






101 dagur í Bagdag
990 kr.Åsne var í Bagdad þegar fyrstu sprengjurnar féllu á borgina og þar til yfir lauk var hún í hringiðu atburða og flutti fréttir af vettvangi. Í bókinni lýsir hún því sem á daga hennar dreif, en á tíu ára ferli sínum sem stríðsfréttamaður segist Åsne aldrei hafa unnið við erfiðari aðstæður en í Írak. Hún dregur upp áhrifamiklar myndir úr stríði sem segja mikla sögu af lífi venjulegs fólks við hrikalegar aðstæður.
„Þetta er bók um ferð blaðamanns, stríð og fólk í stríði. Í hundrað og einn dag, frá því í janúar og fram í apríl 2003, reyndi ég að miðla því sem ég upplifði í Bagdad … Áður en stríðið braust út þurfti að kljást við grundvallarvanda: Enginn sagði orð. Írakarnir töluðu undir rós og af miklum barnaskap – af hræðslu við að segja eitthvað vitlaust eða láta uppi hvað þeir voru að hugsa.“
Åsne Seierstad er heimsþekktur stríðsfréttaritari. Sérstaklega hefur raunsæ umfjöllun hennar um ástandið í Afganistan og Írak eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001 vakið mikla athygli. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar og öðlaðist heimsfrægð fyrir metsölubókina, Bóksalann í Kabúl. Bók hennar, 101 dagur í Bagdad, hefur hlotið frábærar viðtökur og er af mörgum talin áhrifamesta lýsing á Íraksstríðinu sem völ er á.


