

Stormur
1.290 kr.Eyvindur Jónsson Stormur; gustmikill sagnamaður en lítill iðjumaður, er í forgrunni þessarar nýju og kraftmiklu samtímasögu. Að Eyvindi Stormi safnast alls konar lið; drykkjumenn, hippar, bissnessmenn, bókaútgefendur, landeyður og íslenskir námsmenn erlendis. Og fyrir eina jólavertíðina vantar bókaforlag litríkan höfund og vinunum verður hugsað til Storms …
Rétt eins og fyrri verkum tekst Einari frábærlega vel í þessari nýju sögu að lýsa tíðaranda og hugmyndum, um leið og hann skemmtir lesendum með svipmiklum persónum og kostulegum uppákomum.

Aldrei nema kona
1.290 kr.Aldrei nema kona er heimildaskáldsaga sem fylgir þremur ættliðum kvenna í Skagafirði á átjándu og nítjándu öld. Þetta eru fátækar konur og lífsbaráttan er hörð en með þrautseigju og æðruleysi tekst þeim að komast af þrátt fyrir hart árferði og harðneskjulegt samfélag.
Höfundurinn Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir var kennari í nær 40 ár. Í þessari sögu rekur hún æviferil langmæðgna sinna í Skagafirði og byggir þar á heimildum úr kirkjubókum, manntölum, æviskrám, dómabókum og ýmsum heimildum öðrum. Sögutíminn spannar meira en hundrað ár, frá miðri átjándu öld fram yfir miðja hina nítjándu.

Karitas án titils
1.290 kr.Karitas án titils er dramatísk og áhrifamikil örlagasaga ungrar stúlku í upphafi 20. aldar, saga um drauma og þrár, óvænta hamingju, óbærilega sorg og miklar ástríður. Um leið er af einstöku innsæi brugðið upp mynd af lífi og hlutskipti kvenna fyrr og síðar.
Karitas Jónsdóttir elst upp í stórum hópi föðurlausra systkina. Móðir þeirra vill koma þeim öllum til mennta og þau þurfa að leggja hart að sér. En Karitas er margt til lista lagt og hana dreymir um öðruvísi tilveru. Fyrir tilviljun kynnist hún óvenjulegri konu með trönur og upp frá því tekur líf hennar að hverfast æ meir um tvö máttugustu öfl tilverunnar, listina og ástina.

Konur
990 kr.Konur er fimmta skáldsaga Steinars Braga og vakti mikla eftirtekt þegar hún kom út. Sagan segir frá ungri íslenskri listakonu sem snýr heim til Íslands eftir nokkurra ára dvöl í Bandaríkjunum og reynir að raða saman brotunum í lífi sínu. Lánið virðist leika við hana þegar bankamaður, einn íslensku útrásarvíkinganna, býður henni af örlæti að dvelja endurgjaldslaust í glæsilegri þakíbúð í háhýsi við Sæbraut meðan hún kemur sér fyrir. En smám saman fær hún á tilfinninguna að verið sé að leiða hana í gildru …
Konum var fádæma vel tekið af gagnrýnendum og lesendum og hún var tilnefnd til Menningarverðlauna DV í bókmenntum.




Gargantúi og Pantagrúll
3.990 kr.Gargantúi og Pantagrúll er eitt þekktasta skáldverk sem ritað hefur verið á franska tungu fyrr og síðar. Þetta er flokkur fimm skemmtisagna eftir munkinn, lækninn, húmoristann og mannvininn François Rabelais (1484-1553), en fyrir þetta verk hefur Rabelais löngum verið settur á stall með klassískum höfundum á borð við Shakespeare, Dante og Cervantes. Hugmyndaflugið og frásagnargleðin er slík að lesandinn sogast inn í frásögnina og lendir með persónunum í ótrúlegustu ævintýrum, tekur þátt í spaklegum vangaveltum um aðskiljanlegustu málefni og skemmtir sér konunglega. Hann kynnist þar fjölda skrautlegra persóna, m.a. risahjónunum Grandgussa og Gargamelu og syni þeirra, átvaglinu Pantagrúl, raunum Panúrgs í kvennamálum og ferðalögum hans til furðulegra staða. En að baki glettninni býr þekking, viska og snörp ádeila höfundar sem var fjölfróðari en flestir samtímamenn hans. Ádeila hans á valdapot, menntasnobb, vanahugsun og helgislepju hverskonar kom illa við kaunin á samtímamönnum hans, einkum valda- mönnum kóngs og kirkju. Allar götur síðan hafa menn skipst í tvö horn í afstöðunni til verka Rabelais. Enda eru verk hans háskaleg fyrir þá sem ekkert skopskyn hafa. Fyrir alla aðra eru þau veisla.



