




Bjargræði
1.290 kr.Látra-Björg (1716-1784), einhver stórbrotnasti karakter Íslandssögunnar, kraftaskáld á tímum þegar kvæði hafa sannarlega áhrif á veruleikann og koma góðu eða illu til leiðar, sægarpur hinn mesti og fiskin með eindæmum, grálynd og ögrandi galdrakerling og hin versta grýla sem menn bæði óttuðust og virtu, húskona og eigin húsbóndi við svaðalegar aðstæður á Látrum, flökkukona í móðuharðindunum, brennd af háskalegum ástum samkvæmt þjóðtrúnni.
Látra-Björg var sérkennilegt, stórbrotið og kraftmikið skáld og furðu nútímalegt, lét engan eiga neitt inni hjá sér, hitti alltaf í mark í samskiptum við valdsmenn og kyssti ekki vöndinn. Í þessari bók er Björg Einarsdóttir komin til Reykjavíkur í ókunnum erindagjörðum við ókunnugan mann og þótt hún sé fædd fyrir 300 árum hefur hún aldrei verið nær okkur. Hvað vill hún? Hverra erinda gengur hún? Hver er sagan á bakvið goðsögnina um Látra-Björgu?
Bókina prýðir fjöldi kvæða eftir Látra-Björgu.
Hermann Stefánsson er höfundur fjölda bóka og vakti mikla athygli fyrir síðustu skáldsögu sína, Leiðina út í heim, sem tilnefnd var til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut einróma lof gagnrýnenda.





Dáin heimsveldi
1.290 kr.Dag einn birtist á himni risavaxinn, svartur hlutur. Úkraínski geimfarinn Pi er fyrstur á vettvang og hverfur inn um dyr á hlið fyrirbærisins. Áratug síðar snýr hann aftur en er fámáll um reynslu sína.
Við upphaf 22. aldar lifir fólk í fátækt eftir heimsstyrjaldir og hrun lífkerfa jarðarinnar. Íslenska þjóðin er varla til lengur nema sem hugmynd en við logndauðar strendur landsins lóna snekkjur og á hálendinu er geimlyfta sem flytur vörur í borgir ríka fólksins á braut um jörðu.
Emil, lítt þekktur textamaður af íslenskum ættum, er útvalinn til að fara upp með lyftunni og taka viðtöl við Pi um það sem gerðist inni í fyrirbærinu. Verkið reynist vera snúið, ekkert er eins og það sýnist og í órafjarlægð frá jörðinni saknar hann Sögu, konu sinnar. Það eina sem hann vildi gera var að bjarga framtíð þeirra – en er það of seint?

Feigðarflan
1.290 kr.Skáldið Egill Grímsson hefur tekið ákvörðun um að stytta sér aldur. Framkvæmdin vefst þó fyrir honum og í leit að stund og stað ferðast hann á tveimur sólarhringum um líf sitt, land og íslenska samtímamenningu. Yfir öllu vokir kynleg feigð, eins og sveitir jafnt sem sjávarpláss riði til falls, og á köflum er engu líkara en íslenska þjóðin sé vegalaus eftir valdatöku jeppakynslóðarinnar.
Um þetta hrikalega landslag, sem þó er fullt af litríku fólki og spaugilegum uppákomum, ferðast lesandinn með laskaðan áttavita söguhetjunnar sér til halds og trausts.
Rúnar Helgi Vignisson hefur hér skrifað gráglettna sögu um grafalvarlegt málefni. En á meðan lesandinn veltir fyrir sér hvort hann eigi að hlæja eða gráta með persónum sögunnar, er eins víst að með honum vakni ýmsar spurningar um drifkraft manneskjunnar, um böndin á milli okkar og um sjálfa lífsgleðina.
Feigðarflan er tileinkað öllum þeim sem ekki eiga jeppa.

