






Kalt er annars blóð
1.290 kr.Í Kalt er annars blóð er glæpasagnaformið fléttað glæsilega saman við íslenska sagnahefð og íslensk örlög í nútíð og fortíð eins og Þórunni Jörlu einni er lagið. Í kuldalegri Reykjavíkurborg flögrar krummi um og fylgist með viðburðum sem draga munu dilk á eftir sér; hann sér margt sem mannleg augu sjá ekki – peningar skipta um hendur, kettir eru keyrðir niður, hús brennd og menn skotnir eins og skepnur.
Þegar Ása finnur af tilviljun lík í malarhaugi norðan heiða ber margt fyrir augu sem áður hefur verið hulið – hvað rekur fólk til að ryðja öðrum úr vegi og hvað gerist þegar hömlurnar hverfa ein af annarri?
Kalt er annars blóð, sem sækir efnivið m.a. í Njálu, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2007.


Reyfari
1.290 kr.Fátt er venjulegt við þessa bók. Reyfari – (Pulp) heitir hún án þess að vera það að öðru leyti en því að hún er mjög spennandi. Hún er undirheimasaga úr stórborg, Los Angeles, eftir hálfgildings utangarðsmann sem sendi frá sér á þriðja tug bóka, ljóða og skáldsagna sem flestar hafa orðið heimsfrægar. Hún er tileinkuð vondum pennum og þó er höfundur með betri pennum en ófagurt er orðbragðið. Flestar persónur eru ógeðfelldar, miklar í eigingirni sinni, þröngsýni og miskunnarleysi. Það á þó ekki við um allar persónurnar, síður en svo, og niðurstaðan verður ógleymanleg saga, jafnvel fögur á köflum.
„Besta bók sem ég hef lesið á árinu – Pulp (Reyfari) eftir Bukowski,” segir Hallgrímur Helgason rithöfundur í viðtali við Mannlíf nóvember 1995.
Charles Bukowski hefur tvo síðustu áratugi verið einn af þekktustu höfundum Bandaríkjanna. Reyfari er hans síðasta saga, hann rétt náði að ljúka við hana fyrir andlát sitt 1994. Margar af skáldsögum hans hafa verið kvikmyndaðar og er Barfly þekktust þeirra mynda.
„Einhverntíma las ég það álit á Bukowski að hann væri einhver gróf eftirlíking af Henry Miller. Ekkert er fjær sanni, Bukowski er einfaldlega miklu betri höfundur, fyndnari og beinskeyttari, og laus við væmni og snobb sem oft loddi við Henry Miller.”
Einar Kárason rithöfundur Pressunni 24. mars 1994.Bókina þýddi Gunnar Smári Egilsson.



Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant
990 kr.Eleanor Oliphant lifir einföldu lífi: Hún fer í vinnuna, alltaf eins klædd, borðar alltaf sama hádegismatinn, kaupir tvær vodkaflöskur fyrir hverja helgi og drekkur þær. Samstarfsfólkið telur hana stórskrítna en það er allt í himnalagi hjá henni, hún er ánægð með lífið og saknar einskis. Eða alls.
Eitthvað hefur komið fyrir hana, eitthvað sem skýrir hegðun hennar, örin í andliti hennar, múrana sem hún hefur reist í kringum sig. En hvað er það? Og svo gerist atvik sem brýtur upp hversdagsleikann, neyðir hana til að horfast í augu við allt sem hún hefur afneitað og færir henni ný tengsl við lífið.
Gail Honeyman er skoskur rithöfundur sem stundaði háskólanám í Glasgow og Oxford. Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant er fyrsta skáldsaga hennar og var tilnefnd til virtra bókmenntaverðlauna og seld til fjölmargra landa áður en hún kom út.



Þrenna
5.190 kr.Bókin Þrenna samanstendur af bókunum Ár og sprænur; hulda ráðgátan, Ranimosk og Litlu sögurnar í hálfa samhenginu. Í bókunum koma meðal annars fram Penni Gúm, sem fann Penny Lane á You Tube, og Háloftamígur. Þar að auki er að finna prósa í hugleiðingaformi sem hverfast um vangaveltur höfundar um málefni líðandi stundar, texta sem ekki urðu að sjálfstæðum bókum ásamt endurminningum sem dansa á línu raunveruleika og skáldskapar.
Verk Einars Guðmundssonar tengjast framúrstefnuhreyfingum í myndlist fremur en því sem var efst á baugi í íslenskum bókmenntum. Sá tilraunaandi sem ríkir í verkum hans er vandfundinn í verkum annarra skáldsagnahöfunda. Eftir Einar liggja yfir 20 bækur, og eru margar þeirra orðnar efirsóttar meðal safnara. Meðal fyrri bóka Einars eru Harry the Caveman (1970), Lablaða hérgula (1975), Flóttinn til lífsins (1976) og Án titils (1978).
Bókin er gefin út í 300 tölusettum eintökum.



Rúmmálsreikningur II
4.190 kr.Rúmmálsreikningur II er annað bindi af sjö í skáldsögu Solvej Balle um Töru Selter sem situr föst í nóvemberdegi.
„Mig langar út úr nóvember og inn í heim með árstíðum. Mig langar í snjó og hélað gras, kannski fáeina daga með frosthörkum, ekki endilega frostavetur eða háa skafla, bara vetur eins og ég þekki þá, kalda daga og garða með fölnuðum stráum og hvítri slikju, nætur með köldum stjörnuhimni sem tekur kannski endrum og sinnum með sér snjókomu.“
Höfundurinn hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022 fyrir fyrstu þrjú bindin.
„Þessi þrjú fyrstu bindi mynda þegar samhangandi heild sem hver nýr hluti eykur við á nýja og ófyrirséða vegu, og ögrar um leið hugmyndum okkar um listaverkið sem snyrtilega og afmarkaða einingu.“
Úr umsögn dómnefndar um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Þýðandi er Steinunn Stefánsdóttir

Drottningarnar í Garðinum
4.190 kr.Hópur kynlífsverkakvenna er á næturrölti í Sarmiento-garðinum í Córdoba, Argentínu. Þær heyra barnsgrát í nóttinni. Encarna frænka, leiðtogi þeirra, ryður sér leið í gegnum skógarþykknið og finnur barn, sem hún tekur að sér, eins og hún hefur tekið margar útskúfaðar konur að sér, þar á meðal Camilu. Í bleika húsinu hennar Encörnu frænku finnst skjól fyrir daglegum ógnum, sjúkdómum og ofbeldi af hálfu kúnna, lögregluþjóna og ástmanna. Mállaus kona umbreytist í fugl, hauslaus maður flýr stríð og Camila berst fyrir að ráða lífi sínu og kyngervi sjálf. Raunveruleikinn er sveipaður töfrum drungalegs ævintýris. Drottningarnar í garðinum hefur verið þýdd á ótal tungumál og unnið til margra verðlauna. Höfundurinn Camila Sosa Villada er einnig leikkona og baráttukona.



Veðurfregnir og jarðarfarir
5.590 kr.Veðurfregnir og jarðarfarir er skáldsaga þriggja kynslóða sem gerist á mismunandi stöðum: á Íslandi, í Frakklandi og Póllandi. Veðurfræðingurinn Lena, sem er aðalpersóna ferðast um tíma og rúm í leit að sátt við lífið og fortíðardrauga. Íslenskar veður- og náttúrulýsingar eru aðalhrynjandi sögunnar og í þeim endurspeglast tilfinningar og ástarmál veðurfræðingsins. Hugleiðingar um dauðann og missi slá mikilvægan tón í frásögninni líkt og samskipti milli mæðgna, vinkvenna, systkina.

Uppljómun í eðalplómutrénu
3.590 kr.Fjölskylda Bahar flýr Teheran í kjölfar ofsókna í byltingunni árið 1979 og sest að fyrir utan afskekkt þorp í von um að geta lifað í friði.
Enginn fær þó komist undan brjálæðinu sem ríður yfir landið og snertir bæði lifandi og látna, aldna og unga. Mögnuð írönsk saga um mátt ímyndunarafsins gagnvart grimmd og miskunnarleysi. Persneskt töfraraunsæi. Fjórtánda bókin í þýðingaröð Angústúru.
Íranski rithöfundurinn Shokoofeh Azar (f. 1972) starfaði sem blaðamaður í heimalandinu en eftir ítrekaðar fangelsanir sá hún sig tilneydda til að flýja land og fékk pólitískt hæli í Ástralíu árið 2011. Uppljómun í eðalplómutrénu er fyrsta skáldsaga höfundar og hlaut Azar fyrir hana tilnefningu til alþjóðlegu Booker-verðlaunanna 2020.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi.

Sakfelling
3.590 kr.Sjö sögur frá Norður-Kóreu sem lýsa lífi fólks í landi einræðis og einangrunar í stjórnartíð Kim Jong-Il.
Eftirlitsmaður í verksmiðju neyðist til að velja á milli þess að sýna gömlum vini eða Flokknum hollustu; kona sveltir sjálfa sig til að eiginmaður hennar, fyrirvinnan, fái nóg að borða til að halda starfskröftum sínum; ljós rennur upp fyrir dyggum Flokksmnni þegar sonur hans afhjúpar raunveruleika þeirra sem leikhús fáránleikans. Einstaklega fallega skrifaðar sögur, samdar af næmni fyrir mannlegri tilveru.
Bandi, sem þýðir eldfluga, er dulnefni norðurkóresks rithöfundar sem starfar á vegum Rithöfundarsambands Norður-Kóreu en á árunum 1989-1995 skrifaði hann í leyni sögur og ljóð þar sem hann gagnrýndi stjórnarfarið í ríkinu. Árið 2013 tókst að smygla sögunum úr landi og birtast sjö þeirra í þessari bók. Rétturinn að henni hefur verið seldur til 20 landa.
Þýðandi Ingunn Ásdísardóttir.
