


Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant
990 kr.Eleanor Oliphant lifir einföldu lífi: Hún fer í vinnuna, alltaf eins klædd, borðar alltaf sama hádegismatinn, kaupir tvær vodkaflöskur fyrir hverja helgi og drekkur þær. Samstarfsfólkið telur hana stórskrítna en það er allt í himnalagi hjá henni, hún er ánægð með lífið og saknar einskis. Eða alls.
Eitthvað hefur komið fyrir hana, eitthvað sem skýrir hegðun hennar, örin í andliti hennar, múrana sem hún hefur reist í kringum sig. En hvað er það? Og svo gerist atvik sem brýtur upp hversdagsleikann, neyðir hana til að horfast í augu við allt sem hún hefur afneitað og færir henni ný tengsl við lífið.
Gail Honeyman er skoskur rithöfundur sem stundaði háskólanám í Glasgow og Oxford. Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant er fyrsta skáldsaga hennar og var tilnefnd til virtra bókmenntaverðlauna og seld til fjölmargra landa áður en hún kom út.













Bjargræði
1.290 kr.Látra-Björg (1716-1784), einhver stórbrotnasti karakter Íslandssögunnar, kraftaskáld á tímum þegar kvæði hafa sannarlega áhrif á veruleikann og koma góðu eða illu til leiðar, sægarpur hinn mesti og fiskin með eindæmum, grálynd og ögrandi galdrakerling og hin versta grýla sem menn bæði óttuðust og virtu, húskona og eigin húsbóndi við svaðalegar aðstæður á Látrum, flökkukona í móðuharðindunum, brennd af háskalegum ástum samkvæmt þjóðtrúnni.
Látra-Björg var sérkennilegt, stórbrotið og kraftmikið skáld og furðu nútímalegt, lét engan eiga neitt inni hjá sér, hitti alltaf í mark í samskiptum við valdsmenn og kyssti ekki vöndinn. Í þessari bók er Björg Einarsdóttir komin til Reykjavíkur í ókunnum erindagjörðum við ókunnugan mann og þótt hún sé fædd fyrir 300 árum hefur hún aldrei verið nær okkur. Hvað vill hún? Hverra erinda gengur hún? Hver er sagan á bakvið goðsögnina um Látra-Björgu?
Bókina prýðir fjöldi kvæða eftir Látra-Björgu.
Hermann Stefánsson er höfundur fjölda bóka og vakti mikla athygli fyrir síðustu skáldsögu sína, Leiðina út í heim, sem tilnefnd var til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut einróma lof gagnrýnenda.





Dáin heimsveldi
1.990 kr.Dag einn birtist á himni risavaxinn, svartur hlutur. Úkraínski geimfarinn Pi er fyrstur á vettvang og hverfur inn um dyr á hlið fyrirbærisins. Áratug síðar snýr hann aftur en er fámáll um reynslu sína.
Við upphaf 22. aldar lifir fólk í fátækt eftir heimsstyrjaldir og hrun lífkerfa jarðarinnar. Íslenska þjóðin er varla til lengur nema sem hugmynd en við logndauðar strendur landsins lóna snekkjur og á hálendinu er geimlyfta sem flytur vörur í borgir ríka fólksins á braut um jörðu.
Emil, lítt þekktur textamaður af íslenskum ættum, er útvalinn til að fara upp með lyftunni og taka viðtöl við Pi um það sem gerðist inni í fyrirbærinu. Verkið reynist vera snúið, ekkert er eins og það sýnist og í órafjarlægð frá jörðinni saknar hann Sögu, konu sinnar. Það eina sem hann vildi gera var að bjarga framtíð þeirra – en er það of seint?


Skáldið og ástin
1.290 kr.Litla stúlka – þú getur kveikt í sígarettunni minni með augunum!
Þetta voru fyrstu orðin sem Halldór Laxness sagði við Ingibjörgu Einarsdóttur, á Þingvöllum sumarið 1924 – og stúlkan lét heillast af rithöfundinum orðfima. Smám saman varð til ástarsamband og þegar Halldór hélt til dvalar í Ameríku um mitt ár 1927 mátti heita að þau væru trúlofuð. Bréfin lýsa ótrúlegum metnaði Halldórs og vinnusemi, en líka kvíða hans og áhyggjum og um leið þróun ástar þeirra Ingu sem leiddi til þess að þau giftu sig þann 1. maí 1930; hjónabandið hélst í tíu ár.
Á þessum árum, sem jafnframt eru afkastamesti tími Halldórs sem rithöfundar, skrifar hann Ingu næstum 180 bréf. Um þau segir í inngangi:
„Lesendur þekkja það sem hann birti opinberlega en hér má lesa skrif hans sem ekki var ritstýrt fyrir opinberan vettvang; metnaður hans nakinn, dugnaður hans og sjálfsagi, listræn viðhorf og pólitískar hugsjónir, og alltaf í bakgrunni ástarsamband sem sveiflast milli stríðni og einlægni, afbrýðisemi og þrár, trúnaðar og hálfsannleika, eins og ástarsambönd gera.“
Einar Laxness, sonur Halldórs og Ingu, og Halldór Guðmundsson önnuðust útgáfuna.

