

Vince Vaughn í skýjunum
990 kr.Á internetinu geta allir orðið stjörnur. Áður óþekkt fólk er á allra vörum einn daginn en öllum gleymt þann næsta. Verðum við kannski öll heimsfræg í 15 mínútur eftir allt saman?
Sara og Þórir – menntaskólastelpa sem vinnur í sundlaug og háttprúður Lottókynnir í sjónvarpinu – eru með öllu óviðbúin frægðinni þegar hún steypist yfir þau. Hann verður alræmdur á Íslandi, hún alþjóðleg stjarna. Hvernig bregðast þau við?
Halldór Armand Ásgeirsson (f. 1986) er ný rödd í íslenskum bókmenntum. Leikrit hans Vakt var sýnt í Norðurpólnum 2010 við góðar undirtektir og í ár fékk hann nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta fyrir sögurnar í þessari bók.







Mæður geimfara
1.290 kr.Pálsteinn var fimmtíuogeins og alla þá daga sem hann hafði lifað eftir að hann fullorðnaðist hafði hann dreymt um að verða vitni að glæp …
Hér er á ferðinni litríkt sagnasafn um tilraunir manneskjunnar til að svífa – og nagandi vitneskjuna um þyngdaraflið sem sigrar alltaf.
Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar ljóð, leiktexta og prósa og er margkunn heima og erlendis fyrir einstakan og ísmeygilegan stíl. Hún á að baki fjölmargar ljóðabækur, tvær skáldsögur og margvísleg önnur verk. Sigurbjörg hlaut tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bókina Blysfarir.




Nóttin sem öllu breytti: snjóflóðið á Flateyri
1.290 kr.Allir sem muna snjóflóðið á Flateyri 1995 vita hversu gríðarþungt höggið var. Öll þjóðin var harmi slegin. En vitaskuld var áfallið mest og þyngst fyrir Vestfirðinga, Flateyringa – fólkið sem missti heimili sín, ættingja og vini, glataði í senn fortíð sinni og þeirri framtíð sem hefði átt að bíða.
Sóley Eiríksdóttir var ellefu ára gömul, ein heima með systur sinni og vini hennar, nóttina afdrifaríku sem flóðið féll og splundraði húsinu þeirra og mörgum húsum í grennd. Klukkustundum saman lá hún undir snjófarginu meðan örvæntingarfullt björgunarfólk hamaðist við leit í öngþveitinu sem ríkti í þorpinu. Sóley var heppin; hún lifði af. Ekki systir hennar og nítján aðrir.
Hér segir Sóley sögu sína og fólksins síns, sem jafnframt er saga byggðarinnar á Flateyri fyrir og eftir flóð, átakanleg saga en um leið lærdómsrík. Sóley skrifar bókina í samstarfi við Helgu Guðrúnu Johnson.

Ríkisfang: Ekkert
1.290 kr.Haustið 2008 flúðu átta fjölskyldur skelfilegar aðstæður í Al Waleed-flóttamannabúðunum og fengu hæli á Akranesi. Allt voru þetta einstæðar mæður með börn, af palestínsku bergi brotnar en höfðu alið allan sinn aldur í Írak. En hvað rak þær á flótta?
Sigríður Víðis kynntist konunum og sögu þeirra og fjallar hér af yfirsýn og þekkingu um landlausa Palestínumenn, innrásina í Írak, flóttamannabúðir í einskismannslandi og leiðina löngu á Skagann. Í forgrunni eru tvær þeirra kvenna sem hingað komu: Ayda sem varð að skilja elsta barnið sitt eftir í Írak og Lína sem flúði ásamt þremur ungum börnum og fann hamingjuna á ný á Íslandi.
Ríkisfang: Ekkert er einstök frásögn um pólitísk átök undangenginna áratuga í Mið-Austurlöndum og fólkið sem lifir og hrærist í skugga þeirra.
Vegabréf: Íslenskt
1.290 kr.Í Vegabréf: Íslenskt ferðast Sigríður Víðis Jónsdóttir með lesendum um heiminn, heimsækir til að mynda brunadeild á sjúkrahúsi í Afganistan, dvelur í völundarhúsi í Sýrlandi, hittir börn í gullnámu í Búrkína Fasó og kynnist flóttafólki í Suður-Súdan. Í Eþíópíu búa geimverur á Hilton-hótelinu og í Mjanmar hvíslar fólk um stjórnvöld.
Í gegnum frásagnir af fólki á hverjum stað miðlar Sigríður heimssögunni af einstakri næmni og virðingu og minnir okkur á að þrátt fyrir að höf og eyðimerkur skilji okkur að búum við öll undir sama himni, sömu sól.

Aksturslag innfæddra
1.990 kr.Í þessari bók birtast sjö smásögur sem allar eru sprottnar úr raunveruleikanum. Við sögu kemur fjölbreyttur hópur fólks sem lesendur kannast hugsanlega við. Sögurnar segja frá stuttum tímabilum eða einstökum viðburðum í lífi sögupersóna, eða lýsa jafnvel heilli ævi.
Hér er greint frá atburðum sem gætu virst hversdagslegir og smávægilegir við fyrstu sýn en ef lesið er á milli línanna endurspegla þeir stærri og flóknari hliðar tilverunnar.
Þórdís Gísladóttir hefur þýtt og skrifað fjölda barna- og unglingabóka, ljóðabækur, sjónvarpshandrit og skáldsögu fyrir fullorðna. Hún hefur getið sér orð fyrir að skrifa leikandi léttan texta sem einkennist af orðfimi og húmor og varpar nýstárlegu ljósi á hvunndaginn og samtímann. Verk hennar höfða til fjölbreytts hóps lesenda á öllum aldri.
Þórdís hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010 fyrir fyrstu ljóðabók sína, Leyndarmál annarra, og hefur síðan hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga fyrir frumsamin og þýdd verk.








Reyfari
1.290 kr.Fátt er venjulegt við þessa bók. Reyfari – (Pulp) heitir hún án þess að vera það að öðru leyti en því að hún er mjög spennandi. Hún er undirheimasaga úr stórborg, Los Angeles, eftir hálfgildings utangarðsmann sem sendi frá sér á þriðja tug bóka, ljóða og skáldsagna sem flestar hafa orðið heimsfrægar. Hún er tileinkuð vondum pennum og þó er höfundur með betri pennum en ófagurt er orðbragðið. Flestar persónur eru ógeðfelldar, miklar í eigingirni sinni, þröngsýni og miskunnarleysi. Það á þó ekki við um allar persónurnar, síður en svo, og niðurstaðan verður ógleymanleg saga, jafnvel fögur á köflum.
„Besta bók sem ég hef lesið á árinu – Pulp (Reyfari) eftir Bukowski,” segir Hallgrímur Helgason rithöfundur í viðtali við Mannlíf nóvember 1995.
Charles Bukowski hefur tvo síðustu áratugi verið einn af þekktustu höfundum Bandaríkjanna. Reyfari er hans síðasta saga, hann rétt náði að ljúka við hana fyrir andlát sitt 1994. Margar af skáldsögum hans hafa verið kvikmyndaðar og er Barfly þekktust þeirra mynda.
„Einhverntíma las ég það álit á Bukowski að hann væri einhver gróf eftirlíking af Henry Miller. Ekkert er fjær sanni, Bukowski er einfaldlega miklu betri höfundur, fyndnari og beinskeyttari, og laus við væmni og snobb sem oft loddi við Henry Miller.”
Einar Kárason rithöfundur Pressunni 24. mars 1994.Bókina þýddi Gunnar Smári Egilsson.
