



Upp á Sigurhæðir – saga Matthíasar Jochumssonar
1.290 kr.Matthías Jochumsson var tilfinningaríkur eldhugi, framsýnn, réttsýnn, dáður og elskaður af þjóð sinni en stundum líka fyrirlitinn og jafnvel hataður.
Sem prestur, ritstjóri og þjóðskáld setti hann sterkan svip á íslenska menningu samtíðar sinnar og hafði djúp áhrif á alla sem til hans þekktu, svo opinskár og einlægur sem hann var. Þórunn byggir á fjöldamörgum heimildum, innlendum sem erlendum, bréfum og öðrum persónulegum gögnum sem koma hér í fyrsta skipti fyrir almennings sjónir.
Upp á sigurhæðir er rituð af innsæi og skáldlegum þrótti þar sem rödd Þórunnar kallast með eftirminnilegum hætti á við líf og list þjóðskáldsins.


Skáldalíf: ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri
1.990 kr.Eiga þeir nokkuð sameiginlegt, heimsmaðurinn Gunnar Gunnarsson og heimalningurinn Þórbergur Þórðarson? Annar skrifaði bækur á dönsku sem þýddar voru á fjölmörg tungumál; bækur hins voru vel varðveitt leyndarmál á fátalaðri tungu landsmanna. Annar spurði stórra spurninga um tilvist mannsins; hinn var annálaður húmoristi og ólíkindatól.
En þeir voru báðir íslenskir bændasynir, nánast jafnaldra, og þá dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og þjóðarinnar. Þeir tóku trú á erlenda stríðsherra, hvorn af sinni stjórnmálastefnu og fór sú trú illa með þá. En báðir höfðu afgerandi áhrif á þróun íslenskra bókmennta.
Halldór Guðmundsson dregur upp einstæða mynd af þessum tveim rithöfundum í samhliða ævisögum þeirra. Hér segir frá æsku og uppvexti, erfiðum sveltiárum og örlagaríkum ástarsamböndum, þrá eftir sveitinni, heimsreisum og endurkomu. Með því að láta þá varpa sterku ljósi hvorn á annan fæst mynd af hvorum um sig sem aldrei hefur áður sést.
Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2006.

Ru
990 kr.Á frönsku þýðir orðið ru lítill lækur, eða í óeiginlegri merkingu eitthvað sem rennur á borð við tár eða blóð. Á víetnömsku þýðir orðið vögguvísa eða sú sem svæfir og huggar.
Árið er 1968 og stríð geisar í Víetnam. Fjöldi fólks freistar þess að flýja land í von um betra líf. Þar á meðal er ellefu ára stúlka sem flýr yfirstéttarlíf í Saigon, með viðkomu í malasískum flóttamannabúðum, alla leið til Kanada. Þar verður hún bátaflóttamaður í smábæ og þarf að laga sig að nýjum lifnaðarháttum og nýju tungumáli.
Inn í söguna fléttast örlög fleiri Víetnama, í Saigon og í Kanada, bæði á stríðs- og friðartímum.
Höfundurinn, Kim Thúy, var líkt og sögupersóna verksins ein af bátafólkinu svonefnda og er meðal frægustu höfunda Kanada í dag. Ru hefur verið þýdd á fjölda tungumála og unnið til margra verðlauna.


Fullorðið fólk
1.290 kr.Fullorðið fók er saga um afbrýðisemi og skömm þannig að lesandinn fyllist sælublöndnum hryllingi. Ida er arkitekt á fertugsaldri, einstæð og barnslaus sem þráir að eignast fjölskyldu og persóna Idu lýsir blátt áfram skelfilegu sálarangri þess öfundsama. Saga um útslitin fjölskyldubönd, eigingirni, og skömmina sem fylgir ástlausri tilvist.
Ida er arkitekt á fertugsaldri, einstæð og barnslaus en þráir að eignast fjölskyldu. Hún er á leið í sumarparadís æsku sinnar, þar sem til stendur að fagna 65 ára afmæli móður hennar. Í sumarbústaðnum bíður litla systir hennar, Marta, ásamt kærasta sínum og bónusbarni. Þetta hefði geta orðið gott frí ef ekki hefði verið fyrir gleðifréttirnar sem Marta færir. 

Hátíð merkingarleysunnar
1.290 kr.Hátíð merkingarleysunnar er ætlað að varpa ljósi á grafalvarleg viðfangsefni án þess að segja eitt einasta orð af alvöru. Lesendur Milans Kundera kannast við alvöruleysið sem einkennir skáldsögur hans. Í Ódauðleikanum rölta Goethe og Hemingway hlið við hlið gegnum hvern kaflann af öðrum, spjalla saman og gantast. Og í Með hægð segir Vera, eiginkona höfundarins: „Þú hefur oft sagt að þig langaði að skrifa skáldsögu þar sem ekki væri að finna eitt einasta alvarlegt orð … ég ætla bara að vara þig við: passaðu þig: óvinir þínir bíða þín.“
Í stað þess að passa sig lætur Kundera þennan draum sinn loks rætast í skáldsögu sem segja má að sé undraverð samantekt allra fyrri verka hans. Kostuleg samantekt. Kostulegur eftirmáli. Hlátur innblásinn af samtímanum sem er fyndinn vegna þess að hann hefur misst allt skopskyn. Hverju er við að bæta? Engu. Lesið!
Friðrik Rafnsson þýddi.

Út í vitann
990 kr.Út í vitann, fimmta skáldsaga breska rithöfundarins Virginiu Woolf, er jafnan talin einn af hátindum nútímabókmennta.
Í bókinni er skyggnst inn í líf fjölskyldu og gesta hennar í sumarleyfi á skosku Suðureyjunum. Frú Ramsey gnæfir yfir alla með persónu sinni og stýrir fólkinu í kringum sig á sinn ómótstæðilega hátt — hinum sérkennilega og þurftarfreka eiginmanni, barnahópnum, elskhugunum, gamla rithöfundinum viðskotailla, listmálaranum sjálfstæða, klunnalega unga menntamanninum. En allt á sinn stað og stund — og næsta ferð út í vitann er undir öðrum formerkjum.
Fáar skáldsögur búa yfir þeim mætti að breyta lífi lesenda sinna — en Út í vitann þykir vera ein þeirra.
Herdís Hreiðarsdóttir þýddi og skrifaði eftirmála.
Virginia Woolf (1882–1941) er einn af fremstu rithöfundum 20. aldar. Meðal helstu skáldsagna hennar eru Út í vitann, Frú Dalloway og Orlando. Hún tilheyrði frægum bókmennta- og listahópi sem kenndur var við Bloomsbury í London.
