





Diplómati deyr
4.690 kr.Hópur kanadískra diplómata verður veðurtepptur í opinberri heimsókn í Vestmannaeyjum, þar á meðal sendiherra Kanada á Íslandi og eiginkona hans. Á meðan óveðrið geisar úti fyrir snæða gestirnir saman hátíðarkvöldverð – en svo hnígur aðstoðarsendiherrann niður fyrir framan viðstadda. Fljótlega kemur í ljós að um morð er að ræða og ýmsir liggja undir grun: athafnamaðurinn sem svífst einskis í samningum, meistarakokkurinn sem reiðir fram dýrindis máltíðir úr nærumhverfinu og dularfulla myndlistarkonan sem er að opna sýningu á byggðasafni bæjarins … svo nokkrir séu nefndir. En sendiherrafrúin er hvergi bangin og ákveður að komast til botns í málinu upp á eigin spýtur.
Diplómati deyr er fyrsta skáldsaga Elizu Reid, spennandi og listilega fléttuð glæpasaga þar sem leyndarmálin eru afhjúpuð hvert af öðru.
Magnea J. Matthíasdóttir þýddi.





Ótrúlega skynugar skepnur
4.690 kr.Tova Sullivan er nýorðin ekkja og farin að vinna við ræstingar í Sædýrasafni Sowell Bay. Það hefur alltaf átt vel við hana að hafa nóg fyrir stafni, ekki síst þegar erfiðleikar steðja að. Eins og þegar Eric, átján ára gamall sonur hennar, hvarf á dularfullan hátt þrjátíu árum fyrr.
Sædýrasafnið er fullt af furðuskepnum en sú sem vekur mesta athygli Tovu er geðstirður kyrrahafskolkrabbi að nafni Marcellus. Smám saman myndast sérstæð vinátta með ræstingakonunni og kolkrabbanum, sem reynist luma á dýrmætum upplýsingum um hvarf Erics. En tíminn til að miðla þeim er að renna út.
Ótrúlega skynugar skepnur er hnyttin og heillandi saga um uppgjör við fortíðina sem farið hefur sigurför um heiminn; hún hefur verið þýdd á yfir þrjátíu tungumál og selst í meira en tveimur milljónum eintaka.
Nanna Brynhildur Þórsdóttir þýddi.


Kleifarvatn
1.290 kr.Þegar vatnsborð Kleifarvatns lækkar í kjölfar jarðskjálfta finnst beinagrind af manni í sandinum sem vatnið huldi áður. Við hana er bundið fjarskiptatæki með rússneskri áletrun. Lögreglan er kölluð til og rannsókn málsins leiðir þau Erlend, Elínborgu og Sigurð Óla áratugi aftur í tímann, á vit fólks sem dreymdi um réttátara þjóðfélag og heitra tilfinninga sem lutu í lægra haldi fyrir köldu stríði.
Bækur Arnaldar Indriðasonar hafa notið gríðarlegra vinsælda og verið þaulsætnar á metsölulistum hér heima og erlendis. Arnaldur hlaut tilnefiningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2004 fyrir Kleifarvatn. Bókin fékk bresku Barry-verðlaunin árið 2004 og hún hlaut einnig Le Prix du Polar Européen, bókmenntaverðlaun franska tímaritsins Le Point.

Ilmreyr
1.290 kr.Ilmreyr er kveðja frá dóttur til móður en um leið óður til formæðra og -feðra sem háðu sitt lífsstríð við úthafsölduna vestur á fjörðum og áttu líka glímutök við brimöldur hjartans – þær sömu og fylgt hafa mannkyninu frá upphafi vega og gera enn.
Í bókinni vefast sjálfsævisöguleg efnistök saman við sagnfræði, þjóðfræði, skáldskap og skemmtun. Hér segir frá samskiptum og samspili kynja og kynslóða, ástum, bernskubrekum, hversdagslífi, ævintýrum og mögnuðum örlögum.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir lærði íslensku, þjóðfræði og heimspeki við Háskóla Íslands og lauk þaðan doktorsprófi árið 2000. Ilmreyr er áttunda bók hennar en bókin Lífsgrös og leyndir dómar var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019.

Sæluríkið
1.290 kr.Sæluríkið er mögnuð og áleitin glæpasaga um brostna drauma, hugsjónir á villigötum og kalda grimmd – og fólk sem á stórra harma að hefna.
Við Hafravatn finnst ferðamaður látinn með áverka á höfði. Þegar ljóst verður að hann er í raun íslenskur og kom við sögu hjá lögreglunni þegar félagi hans hvarf nokkrum áratugum fyrr fer Konráð að grufla í samhengi hlutanna. Hans eigin fortíð blandast þar inn; umtalað morðmál frá áttunda áratugnum veldur uppnámi innan lögreglunnar og fornvinur hans, Leó, er farinn í felur. Um leið leitar tíðarandi kalda stríðsins á huga Konráðs, andrúmsloft samfélags í fjötrum sem litaðist af heift og flokkadráttum.
Arnaldur Indriðason er vinsælasti höfundur landsins, bæði heima og á erlendri grund. Sæluríkið er 27. skáldsaga hans. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir bækur sínar sem hafa verið þýddar á tugi tungumála og selst í nær tuttugu milljónum eintaka um heim allan.









