
Diplómati deyr (notuð)
1.990 kr.Hópur kanadískra diplómata verður veðurtepptur í opinberri heimsókn í Vestmannaeyjum, þar á meðal sendiherra Kanada á Íslandi og eiginkona hans. Á meðan óveðrið geisar úti fyrir snæða gestirnir saman hátíðarkvöldverð – en svo hnígur aðstoðarsendiherrann niður fyrir framan viðstadda. Fljótlega kemur í ljós að um morð er að ræða og ýmsir liggja undir grun: athafnamaðurinn sem svífst einskis í samningum, meistarakokkurinn sem reiðir fram dýrindis máltíðir úr nærumhverfinu og dularfulla myndlistarkonan sem er að opna sýningu á byggðasafni bæjarins … svo nokkrir séu nefndir. En sendiherrafrúin er hvergi bangin og ákveður að komast til botns í málinu upp á eigin spýtur.
Diplómati deyr er fyrsta skáldsaga Elizu Reid, spennandi og listilega fléttuð glæpasaga þar sem leyndarmálin eru afhjúpuð hvert af öðru.
Magnea J. Matthíasdóttir þýddi.


Andlit
1.290 kr.Andlit er skálduð en þó sönn saga. Hér segir Bjarni Bjarnason frá litríkri æsku á áttunda áratugnum, hvernig hann elur sig að mestu upp sjálfur, þvælist milli staða innanlands og utan og kynnist ótrúlegasta fólki; slöngukonu sem þjónað hefur heimsfrægum leikara, amerískum gúrú sem nærist á íslenskum sálum, Kleópötru sem hefur áhuga á lifnaðarháttum neðanjarðarskálda, sænskum lögreglumönnum sem finnast draumar grunsamlegir, taugatrekktum flugfreyjum og draugum af ýmsu tagi.
Þetta er saga full af húmor, trega og hlýju en umfram allt einstök lýsing á sérkennilegu lífshlaupi.
Bjarni Bjarnason hefur hlotið Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hér sýnir hann á sér nýja hlið með léttleikandi verki sem á köflum er lygilegra en nokkur skáldsaga.


Ég skal hjálpa þér: Saga Auriar
1.990 kr.Auri Hinriksson á að baki merkilegan lífsferil en hún er þekktust fyrir að hafa aðstoðað fólk ættleitt frá Srí Lanka að finna líffræðilega foreldra sína og fjölskyldu. Auri er fædd í Colombo á Srí Lanka en flutti fertug til Ísafjarðar með eiginmanni sínum, Þóri Hinrikssyni, og fimm ára syni.
Í þessari áhugaverðu ævisögu, sem rituð er af Herdísi Magneu Hübner, segir Auri frá uppruna sínum, vinnu fyrir stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem leiddi hjónin saman og frá lífi víða um lönd en auk Íslands og Srí Lanka, bjó fjölskyldan um tíma á Indlandi, Barein og í Íran. Saga Auriar er einstök frásögn af kjarkmikilli konu sem lætur ekki brjóta sig niður, heldur rís alltaf upp og blómstrar mitt í mótlætinu.

Flóra
5.990 kr.Flóra geymir myndir af flestöllum tegundum íslenskra blómplantna og byrkninga, alls um 460. Hér er megináherslan á að sýna plönturnar sjálfar, fegurð þeirra og sérkenni, fremur en vistfræði, útbreiðslu og flokkunarfræði – því hlutverki gegna fjölmörg önnur verk. Langflestar myndanna eru gerðar eftir lifandi eintökum en annars byggt á bestu heimildum sem völ er á til að gefa sem sannferðugasta mynd af hverri tegund auk þess sem ýmis einkenni eru dregin fram.
Myndir listamannsins Jóns Baldurs Hlíðberg af íslenskri náttúru, dýrum og foldarskarti, eru löngu kunnar hér á landi auk þess að hafa birst víða erlendis og hlotið þar margháttaða viðurkenningu.
Fátt jafnast á við að njóta skrúðs og fjölbreytileika blómanna í náttúrunni sjálfri en þegar því verður ekki við komið er gott að geta notið þeirra í myndasafni eins og því sem hér birtist.

Rósa og Björk
4.690 kr.Hvað varð um Rósu og Björk, yngri systur lögreglukonunnar Hildar, sem hurfu fyrir vestan árið 1994? Í öll þau ár sem liðin eru hefur ekkert til þeirra spurst en nú er Hildur loks komin á spor sem gæti leitt hana áleiðis að lausn gátunnar. Það þarf samt kjark til að horfast í augu við fortíðina …
Lögreglulífið á Ísafirði er líka allt annað en rólegt og lítill tími til að sinna öðru. Einn af máttarstólpum bæjarins, athafnamaður sem situr í sveitarstjórn, er skotinn til bana uppi í fjalli og Hildur og félagar eru ráðþrota. Hinn myrti var umdeildur, tókst á við pólitíska andstæðinga og einkalífið var skrautlegt svo að ýmsir gætu hafa viljað hann feigan. Og um götur Reykjavíkur reikar manneskja sem á harma að hefna.
Satu Rämö hefur slegið í gegn með bókunum um hina vestfirsku Hildi. Satu er finnsk en hefur búið lengi á Íslandi. Glæpasögur hennar hafa selst í bílförmum í Finnlandi, Þýskalandi og víðar. Sú fyrsta, Hildur, varð metsölubók hér heima – Rósa og Björk er æsispennandi framhald.
Erla Elíasdóttir Völudóttir þýddi.

Vandratað í veröldinni
1.290 kr.Franzisca Gunnarsdóttir segir frá bernskuárum á Skriðuklaustri hjá afa sínum Gunnari Gunnarssyni, rithöfundi og fjölskyldu



Höll minninganna
1.290 kr.Höll minninganna er mögnuð skáldsaga um Íslending sem hvarf að heiman um dimma nótt frá fjölskyldu sinni og vinum og endaði sem einkaþjónn hjá bandaríska auðkýfingnum William Randolph Hearst eftir fyrri heimsstyrjöld. Hvers vegna yfirgaf hann konu sína og börn, blómlegt fyrirtæki og trausta stöðu í Reykjavík? Hvernig lenti hann í höll Hearsts blaðakóngs við Kyrrahafið?
Höll minninganna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er ógleymanleg frásögn um mannleg örlög, ást og aðskilnað, einsemd og söknuð. Stíllinn er fágaður, persónurnar ljóslifandi og sagan heldur lesanda föngnum frá upphafi til loka.
Ólafur Jóhann hefur notið fádæma vinsælda fyrir skáldverk sín. Í Höll minninganna kemur hann að lesandanum úr óvæntri átt og vakti sagan athygli heima og erlendis.













