• Spegill þjóðar

    Spegill þjóðar

    Gunnar er enda einn áhrifamesti ljósmyndari okkar og margar fréttamynda hans hafa mótað hugmyndir okkar um sögu lands og þjóðar. Ferillinn spannar hálfa öld, frá því hann hóf störf á Tímanum 16 ára árið 1966. Síðar var hann á Vísi, DV og Fréttablaðinu. Og fjölmörg augnablikin sem Gunnar festi á filmu eru greypt í þjóðarsálina.
    Gunnar velur hér á annað hundrað minnisstæðustu mynda sinna og Sigmundur Ernir Rúnarsson skráir söguna á bakvið hverja þeirra – úr verður einstakt og áhrifamikið sjónarspil; fréttaviðburðir, stjórnmál, íþróttir, náttúra, listir og skemmtanir, innlend og útlend stórmenni og okkar minnstu bræður og systur – allt á þetta sína fulltrúa í myndasafni GVA.
    14.690 kr.
    Setja í körfu
  • Vélhundurinn Depill

    Vélhundurinn Depill

    Vélhundurinn Depill er fjórða sagan í verðlaunaflokknum um Pétur og Stefaníu, alveg skuggalega skemmtileg og ætluð lesendum á aldrinum 6–10 ára. Bókin er ríkulega myndskreytt og með sérvöldu auðlæsilegu letri.

    Nornin, vinkona Péturs og Stefaníu, hefur misst hann Lubba sinn og er alveg óhuggandi. Í ofanálag er eitthvað óhugnanlegt á seyði í garðinum sem virðist tengjast gröf Lubba. Hver er að róta í moldinni? Það skyldi þó ekki vera að ljúfi hundurinn Lubbi sé genginn aftur – hauslaus í ofanálag?
    5.590 kr.
    Setja í körfu
  • Piparmeyjar: Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi

    Piparmeyjar: Fröken Thora og saga einhleypra kvenna á Íslandi

    Hvaða augum leit fólk piparmeyjar og hvaða augum litu þær sig sjálfar? Höfðu þær eitthvert raunverulegt val í lífinu? Og hvað með ástina?

    Þetta fróðlega og aðgengilega skrifaða sagnfræðirit byggir á metnaðarfullri rannsókn á ævi og kjörum einhleypra, íslenskra kvenna á umbrotatímum í kvennasögunni þar sem sjónum er bæði beint að einstökum konum og samfélaginu öllu. Í aðalhlutverki er einstætt safn einkabréfa Reykjavíkurstúlkunnar Thoru Friðriksson.

    Bréf Thoru veita einstæða og heillandi innsýn í líf skarpgreindrar konu með stóra drauma sem hún fékk ekki tækifæri til að láta rætast fyrr en á miðjum aldri, eftir að hún var búin að rækja skyldur sínar við stórfjölskylduna. Einnig bregða skrif hennar upp ljóslifandi mynd af hálfdanska smábænum Reykjavík skömmu fyrir aldamótin 1900, þar sem betri borgararnir drukku chocolade og champagne, brugðu sér á skauta á Tjörninni og tipluðu á spariskónum yfir moldarflagið fyrir framan nýbyggt Alþingishúsið.

    9.390 kr.
    Setja í körfu
  • Alfa

    Alfa

    Hröð og viðburðarík spennusaga úr nálægri framtíð.

    Árið 2052 hefur Alfa stýrt samfélaginu í aldarfjórðung – gervigreind sem leysir úr öllum málum á sem bestan hátt fyrir alla – og sjö manna teymi situr í Ráðuneytinu og hefur umsjón með að allt gangi smurt.

    Á heimili Sabínu og Mekkínar er stór dagur runninn upp. Júlíus sonur þeirra er að verða sextán ára og vígist þar með inn í heim fullorðinna. Þá fær hann grædda í sig örflögu til að tengjast Alfa beint og fær um leið að vita hvað honum er ætlað að fást við í framtíðinni.

    Birkir bróðir Sabínu er uppreisnarseggur sem vill ekki lúta stjórn Alfa og þarf því að draga fram lífið án allra nútímaþæginda. Þegar hann lætur lífið við undarlegar aðstæður verður ljóst að eitthvað býr undir – einhver olli dauða hans, en hver? Og var það kannski systir hans sem átti að deyja?

    Lilja Sigurðardóttir er í essinu sínu í þessari snörpu og hressilegu sögu þar sem hún dregur upp litríkar persónur og kitlandi söguheim, frábrugðinn veröldinni sem við þekkjum. Flest er breytt – en breytingarnar eru ekki að allra skapi.

    8.690 kr.
    Setja í körfu
  • Staðreyndirnar

    Staðreyndirnar

    Við erum ekki á leiðinni í neitt 1984-dæmi, skilurðu. Við erum ekki að fara að banna fólki að segja eitt né neitt. Og við ætlum ekki að fara að þurrka út allar óþægilegar staðreyndir, breyta sögunni jafnóðum og einhverjir hagsmunir krefjast þess.

    Eftir hneykslið með hjartað er úti um framtíð Steins í stjórnmálum. Honum er því boðin staða hjá nýstofnaðri Upplýsingastofu og falið að leiða þróun opinbers staðreyndagrunns, vitvélar sem á að gegna lykilhlutverki í baráttu stjórnvalda gegn upplýsingaóreiðu. Verkefnið lofar góðu þar til háskólanemi ber upp eldfima spurningu við vélina um áhrif nasisma á stjórnarfar á Íslandi.

    Staðreyndirnar er hárbeitt satíra um ólík tilbrigði við þögn, um uppgjöf andspænis voðaverkum, uppgjör sem aldrei fer fram og þolinmæði þeirra afla sem enn bíða þess í ofvæni að lýðræðis- og frelsisbylgju síðustu áttatíu ára ljúki. Skáldsaga um vélrænt vit, mannasiði og nasista.

    8.690 kr.
    Setja í körfu
  • Lausaletur

    Lausaletur

    Regnið steypist yfir borgina og fáir eru á ferli. Það hefur ekki sést gestur á prentsafninu vikum saman. Björn og Írena drekka kaffi, endurraða í safnbúðinni og dytta að vélunum. Nágrannakötturinn kemur inn úr rigningunni, það er hápunktur dagsins. Þau spjalla og drekka kaffi, hundsa draugaganginn í prentvélunum og bæla niður langanir og eftirsjá, einsemd og ótta. Þessi heimsfaraldur er allt öðruvísi en sá síðasti. Írena hugsar um eiginkonuna sem sjúkdómurinn hrifsaði, Björn hefur á tilfinningunni að þetta hafi allt gerst áður. Nú kemur nágrannakötturinn inn úr rigningunni. Einhvers staðar þarna úti er óvæntur gestur á leiðinni, einmitt í dag, þegar borgin stendur á heljarþröm.

    Lausaletur er magnþrungin skáldsaga um vinnuhjónaband, heimsendi og prentsögu.

    Þórdís Helgadóttir hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, meðal annars tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna og Maístjörnunnar.

    8.690 kr.
    Setja í körfu
  • Móðurást: Sólmánuður

    Móðurást: Sólmánuður

    Ekkert lát er á veðurblíðunni í Bræðratungu síðsumarið 1878 og sólargeislarnir hleypa fjöri í bæði menn og skepnur. Systurnar Oddný og Setselja, önnur nýfermd og hin ófermd, eru óðum að uppgötva sjálfar sig og máta við hlutverkið sem þeim er ætlað. En þegar það hlutverk verður stúlku um megn, er gott að eiga síðbuxur í felum undir steini.

    Einstakir hversdagstöfrar leika um skáldaða frásögn Kristínar Ómarsdóttur af uppvexti langömmu sinnar í Biskupstungum á ofanverðri nítjándu öld. Móðurást: Sólmánuður er þriðja bókin í röðinni, en sú fyrsta, Móðurást: Oddný, hlaut Fjöruverðlaunin og önnur bókin, Móðurást: Draumþing, fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin.

    6.990 kr.
    Setja í körfu
  • Fjallkirkjan

    Fjallkirkjan

    Fjallkirkjan – sagnabálkurinn um Ugga Greipsson – er höfuðverk Gunnars Gunnarssonar og eitt af meistaraverkum norrænna nútímabókmennta. Þýðing Halldórs Laxness birtist upphaflega á íslensku fyrir rúmlega hálfri öld og hefur verið ófáanleg um langt skeið. Gunnar Gunnarsson yngri myndskreytti Fjallkirkjuna, en margar af myndum hans við söguna birtast nú á bók í fyrsta sinn.

    „Hugblærinn er hrifvaldur þessarar bókar frá upphafi til enda. Og þessum blæ, sem sífelt skiftir lit eftir efninu, er í bókinni ætlað hlutverk sem önnur áhrifabrögð gegna í venjulegri sagnagerð, þeirri sem bókvísi mundi kalla sígilda. Þetta hugarástand sem höfundur er í sjálfur, og vekur um leið í hverjum næmum lesanda, ber einkenni þess sem á voru máli mundi vera kent við seið og töfur: „fögur var sú kveðandi að heyra.“

    Hinn einstæði hæfileiki skáldsins til að ljá dauðu sem kviku sinn sérstaka andblæ, mér er nær að segja andrúmsloft, er leyndardómur þessa skáldskapar og um leið svar við því, hverju sæti að slíkur höfundur varð höfuðskáld.“

    Halldór Laxness

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Hvítt haf

    Hvítt haf

    Hvítt haf lýsir á meistaralegan hátt örlagaríkum tíma í sögu Noregs. Bókin er sjálfstætt framhald sögunnar Hin ósýnilegu sem hefur hlotið mikið lof.

    Árið 1944 hafa Þjóðverjar hertekið Noreg. Ingrid snýr aftur til æskustöðva sinna á Barrey sem hefur verið auð og yfirgefin. Hún býr sig undir kulda og einsemd vetrarins því hún þekkir eyjalífið. Fljótlega kemst hún þó að því að hún er ekki ein á eyjunni og á óvæntan hátt kemur ástin inn í líf hennar nokkrar kaldar vetrarvikur.

    Roy Jacobsen hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars tvisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Árið 2017 hlaut hann, fyrstur norskra rithöfunda, tilnefningu til alþjóðlegu Man Booker-verðlaunanna fyrir Hin ósýnilegu, en sú bók hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og kom út á íslensku 2019.

    Jón St. Kristjánsson þýddi.

    990 kr.
    Setja í körfu
  • Hin ósýnilegu

    Hin ósýnilegu

    Hin ósýnilegu er sterk og áhrifamikil saga um horfinn veruleika, hugdirfsku og fagra en óblíða náttúru.

    Ingrid elst upp á lítilli eyju við strönd Norður-Noregs snemma á síðustu öld. Heimur hennar er Barrey og fjölskyldan – foreldrar hennar, afi og frænka, litli frændinn, húsdýrin, fuglarnir, fiskarnir, stormar, ís og sjór. Einangruð veröld þar sem gestir gægjast þó af og til inn. Lífsbaráttan er hörð en fólkið á sínar vonir og framtíðardrauma. Faðirinn vill koma upp bryggju til að tengja eyna við umheiminn en náttúruöflin eru á öðru máli. Og svo taka óblíð örlögin í taumana og Ingrid þarf að berjast til að bjarga eynni sem hún hélt að hún gæti yfirgefið.

    Norski rithöfundurinn Roy Jacobsen hefur tvívegis hlotið tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir verk sín. Hin ósýnilegu var tilnefnd til alþjóðlegu Man Bookerverðlaunanna 2017, fyrst norskra bóka, og hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál.

    Jón St. Kristjánsson þýddi.

    990 kr.
    Setja í körfu
  • Sjáumst í ágúst

    Sjáumst í ágúst

    Anna Magdalena Bach situr ein á hótelbarnum og virðir fyrir sér karlmenn. Hún hefur verið hamingjusamlega gift í 27 ár og átt farsælt líf með manni og börnum í borginni handan við sundið. En þann 16. ágúst ár hvert tekur hún ferjuna út í eyna þar sem móðir hennar er jörðuð og finnur sér elskhuga til einnar nætur. Aðeins einnar nætur.

    Kólumbíumaðurinn Gabriel García Márquez (1927–2014) var um árabil einn virtasti og ástsælasti höfundur heims og hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1982. Sjáumst í ágúst var ófrágengin af hálfu höfundarins þegar hann lést en nú, áratug síðar, var ákveðið að gefa bókina út. Synir hans skrifa stuttan formála og ritstjóri eftirmála þar sem sú ákvörðun er skýrð og rökstudd. Sagan talar sínu máli.

    Jón Hallur Stefánsson þýddi.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Hroki og hleypidómar

    Hroki og hleypidómar

    „Það er kunnara en frá þurfi að segja að piparsvein í góðum efnum hlýtur að vanta eiginkonu,“ segir í frægum upphafsorðum þessarar bókar. Þegar ungur og vel stæður karlmaður flytur í héraðið fara sveitungarnir undir eins að orða hann við stúlku fallegustu heimasætuna í sveitinni. Sú saga hefði fljótlega endað vel ef vinur hans, auðugur piparsveinn úr öðru héraði, hefði ekki farið að skipta sér af þessum ráðagerðum. Í hroka sínum þykir honum stúlkan ekki af nógu góðum ættum fyrir vin sinn og vekur með því heiftarlega hleypidóma systur hennar sem verður honum verðugur andstæðingur.

    Hroki og hleypidómar eftir breska rithöfundinn Jane Austen kom í fyrsta skipti út árið 1813 og er einhver frægasta ástarsaga sem skrifuð hefur verið. Fjörug, ögrandi og fyndin leiðir skáldkonan persónur sínar út á dansgólf sögunnar þar sem þær stíga sín þokkafullu spor, ganga frá einum dansfélaga til annars, hring eftir hring, sem smám saman þrengist utan um söguhetjurnar.

    Silja Aðalsteinsdóttir þýddi söguna og skrifaði eftirmála um Jane Austen og umhverfið sem sagan er sprottin úr.

    3.990 kr.
    Setja í körfu
  • Réttarhöldin

    Réttarhöldin

    Réttarhöldin eftir Franz Kafka hafa að geyma eitt frægasta sakamál aldarinnar. Helsta einkenni þess máls er að sakborningnum, bankamanninum Jósef K., er ekki ljóst hvað honum er gefið að sök. Hann leitar sífellt skýringa á því sem er að gerast og það er engu líkara en hann þurfi að elta uppi glæpinn, dómarana og örlög sín.

    Réttarhöldin komu fyrst út árið 1925, að höfundi látnum, og marka tímamót í nútímabókmenntum. Þessi saga er jafn fersk og áleitin nú og þegar hún kom fyrst út fyrir sjötíu árum, því enn getur sérhver lesandi séð sjálfan sig í grátbroslegum samskiptum Jósefs K. við hinn annarlega heim réttvísi og valds.

    Franz Kafka (1883-1924) var þýskumælandi gyðingur, fæddur í Prag, þar sem hann nam lögfræði og starfaði lengstaf á skrifstofu tryggingafyrirtækis, þótt hugurinn væri löngum bundinn ritlistinni. Helstu verk hans, auk Réttarhaldanna, eru Ameríka, Höllin og Hamskiptin.

    Þýðing Ástráðs Eysteinssonar og Eysteins Þorvaldssonar á Réttarhöldunum kom fyrst út hjá Menningarsjóði árið 1983 en birtist hér í endurskoðaðri gerð, auk þess sem þeir hafa nú þýtt sex kafla sem höfundur lauk ekki við en segja þó sína sögu.

    3.990 kr.
    Setja í körfu
  • Dans jaðrakansins

    Dans jaðrakansins

    Dans jaðrakansins er önnur ljóðabók Guðmundar Andra en sú fyrri, Hæg breytileg átt, kom út 2016. Hér er ort af einlægni, visku og kímni um náttúruna, mannfólkið, orðin og eilífðina – björt og myndrík ljóð sem kveikja ótal hugsanir og kenndir, opna dyr og nýja heima.

    5.190 kr.
    Setja í körfu
  • Ósmann

    Ósmann

    Um aldamótin 1900 voru mörg stórfljót landsins enn óbrúuð og fólk reiddi sig víða á ferjumenn til þess að komast yfir illfær og óútreiknanleg fallvötnin. Einn þeirra var Jón Ósmann sem flutti menn og skepnur yfir Héraðsvötn um fjögurra áratuga skeið. Jón var tröll að burðum, stórtækur sel- og fiskveiðimaður, guðsmaður, drykkjumaður og annálað skáld. En öðru fremur var hann mannvinur með meyrt hjarta sem sá lengra en nef hans náði. Örlögin fóru óblíðum höndum um þennan einstaka karakter og hann lést fyrir aldur fram.

    Ósmann er skáldsaga byggð á ævi Jóns Magnússonar, ferjumanns í Skagafirði. Frásögnin er feiknavel skrifuð, hjartnæm og heillandi – sannkallaður yndislestur. 

    Joachim B. Schmidt (1981) er fæddur og uppalinn í Sviss en hefur búið á Íslandi í nær tvo áratugi. Hann skrifaði sig inn í hjörtu lesenda með bókum sínum um Kalmann á Raufarhöfn en þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála og báðar hlotið ýmsar tilnefningar og verðlaun.

    Bjarni Jónsson þýddi.
    8.690 kr.
    Setja í körfu
  • Útreiðartúrinn

    Útreiðartúrinn

    Útreiðartúrinn er áhrifarík samtímasaga með djúpar rætur í fortíðinni. Þetta er saga af flóknu feðgasambandi og af vináttu sem ekki er öll þar sem hún er séð; ljúfsárt og heillandi ferðalag um gamlar og nýjar slóðir.

    Sævar er myndskreytir og nýfluttur með fjölskyldu sína út á Álftanes, þar sem hann sækir myndefni sitt í lífríki fjörunnar. Hann kann strax vel við sig í kyrrðinni og náttúrufegurðinni en Pétur, sonur hans á unglingsaldri, er ósáttur við breytinguna og lengur að sætta sig við nýtt umhverfi. Pétur er mátulega búinn að eignast vini og farinn að blómstra þegar hópur drengja gerir fólskulega árás á þá félagana að kvöldlagi og slasar besta vin hans.

    Lögreglan tekur í kjölfarið við rannsókn málsins en lítið gengur að upplýsa það. Sævar er bugaður af áhyggjum af syni sínum en árásin rifjar auk þess bæði upp tregablandna sumardvöl Sævars sjálfs hjá afa sínum og ömmu á nesinu á níunda áratugnum og morðmál frá 19. öld sem forfaðir hans var flæktur í. Þá skýtur skyndilega upp kollinum á netinu myndband af árás drengjanna og málið tekur óvænta og óhugnanlega vendingu.

    8.690 kr.
    Setja í körfu
  • Drungabrim í dauðum sjó

    Drungabrim í dauðum sjó

    Hallgrímur Helgason, okkar þróttmikla þjóðskáld, hefur tekið saman kvæðasafn – safn háttbundinna ljóða sinna frá síðustu kvartöld. Hér mætast hið persónulega og pólitíska, innileiki og ádeila, mýkt og harka í skáldskap sem kviknar jafnt af barneignum og jarðarförum sem og bankahruni og þjóðarmorði. Skáldið bruggar seið úr hefðum fortíðar og kenndum samtíðar og blandar ýmist með húmor eða trega. Bókin er ríkulega myndlýst af Hallgrími sjálfum.

    8.690 kr.
    Setja í körfu
  • Ferðabíó herra Saitos (notuð)

    Ferðabíó herra Saitos (notuð)

    „Ég var getin á dansgólfi í Buenos Aires árið 1927.“

    Þannig hefst saga Litu sem fæðist og elst upp í nunnuklaustri ásamt kornungri móður sinni sem hefur lítinn áhuga á barnauppeldi en elskar tangó og fallega skó. Líf mæðgnanna tekur óvænta stefnu þegar þær þurfa að flýja heimkynni sín og enda óvænt á afskekktri eyju undan ströndum Kanada þar sem þær fá inni á sjómannaheimilinu Betlehem. Smám saman kynnast þær samfélagi eyjarinnar og þar eignast Lita vinkonu í fyrsta skipti, hina heyrnarlausu Oonu McGregor. En þegar herra Saito mætir til eyjarinnar með ferðabíóið sitt opnast nýr ævintýraheimur fyrir Litu og ekkert verður eins og áður.

    Annette Bjergfeldt hefur hlotið afar góðar viðtökur fyrir Ferðabíó herra Saitos enda er hér á ferð heillandi saga með óvenjulegu sögusviði og eftirminnilegum persónum.

    Jón St. Kristjánsson þýddi.

    1.990 kr.
    Setja í körfu
  • Jeppar í lífi þjóðar

    Jeppar í lífi þjóðar

    Samgöngubylting varð á Íslandi um miðja síðustu öld þegar þúsundir Willys-jeppa streymdu að hliðum gömlu herjeppanna, og brátt renndu Landróverar og Rússa – jeppar í hlað. Síðar bættust við enn fleiri gerðir, Gipsy, Scout og Bronco, og loks fjölbreytt úrval japanskra jeppa. Jeppinn greiddi leiðir um klungur og torfærur, enda með drif á öllum hjólum, og færði ferðafrelsi jafnt að sumri sem vetri. 

    Jeppar í lífi þjóðar bregður lifandi ljósi á þennan merkilega en lítt kannaða kafla íslenskrar samgöngusögu í máli en þó aðallega 600 einstæðum ljósmyndum sem koma nú margar í fyrsta sinn fyrir almannasjónir. Þetta er ómissandi bók fyrir bílaáhugamanninn og raunar alla þá sem unna ferðum um úfið landið.

    Örn Sigurðsson hefur hlotið mikið lof fyrir bílabækur sínar sem eru orðnar átta talsins, þar á meðal metsölubækurnar Króm og hvítir hringir, Bílamenning og Bílar í lífi þjóðar.

    14.990 kr.
    Setja í körfu
  • Hvalbak

    Hvalbak

    Hvalbak er önnur ljóðabók Maó Alheimsdóttur. Skáldsaga hennar, Veðurfregnir og jarðarfarir, vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2024 en hún er fyrsta frumsamda sagan sem kemur út á íslensku eftir höfund sem lærði málið á fullorðinsaldri. Einstök ljóðabók þar sem greina má nýtt og ferskt sjónarhorn á íslenska náttúru og tungu.

    5.190 kr.
    Setja í körfu
  • Göngulag tímans

    Göngulag tímans

    Aðalpersóna þessarar bókar, John Franklin, er söguleg persóna sem á sinni tíð (1786-1847) var frægur sæfari og landkönnuður. Hann dreymir frá blautu barnsbeini um að komast á sjóinn en virðist þó illa til þess fallinn því hann er einkar hægur í tali og hugsun og öllum viðbrögðum og leggur annan mælikvarða á tímann en flestir í kringum hann. John kemst þó í sjóherinn er fram líða stundir, lendir í orustunum við Kaupmannahöfn og Trafalgar og virðir fyrir sér hraða og skelfilega framvindu átakanna með sinni sérstöku hægð. Síðar bíða hans og félaga hans ótrúlegar mannraunir í könnunarleiðöngrum á norðurhveli jarðar.

    Þessi líflega frásögn er öðrum þræði sjóferðasaga og þroskasaga en er ekki síður ógleymanleg athugun á eðli tímans og ægivaldi hraðans. Hún gefur lesandanum hlutdeild í þeirri einstæðu reynslu sem veitist hinum hægláta.

    Sten Nadolny er þýskur höfundur, fæddur árið 1942 og er búsettur í Berlín. Hann hefur skrifað nokkrar skáldsögur en langþekktust þeirra er Göngulag tímans sem þýdd hefur verið á fjölmörg tungumál.

    Arthur Björgvin Bollason þýddi bókina.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Torf, grjót og burnirót

    Torf, grjót og burnirót

    Una og Ormur eru í heimsókn hjá afa og ömmu þegar þau reka augun í gamla ljósmynd af íslenskum torfbæ. Afi fræðir þau um þessi gömlu hýbýli þjóðarinnar og í kjölfarið ákveða þau að sumarhúsið sem amma og afi ætla að reisa skuli verða torfbær.

    En hvernig á að byggja torfbæ? Sko, ALVÖRU torfbæ?

    Torf, grjót og burnirót leiðir lesendur um töfra torfsins og útskýrir hvernig torfbær er reistur, hvernig á að hlaða grjóti, stinga torf og finna burnirót úti í haga til að koma fyrir í vegghleðslunni, bænum til heilla.

    5.490 kr.
    Setja í körfu
  • Þegar mamma mín dó

    Þegar mamma mín dó

    Þegar mamma mín dó er einlæg lýsing höfundar á þeirri sáru reynslu að fylgja dauðvona móður sinni gegnum veikindi og sitja við hlið hennar við andlátið. Áhrifarík frásögnin er í senn persónuleg og opinská um þær sterku tilfinningar sem togast á þegar dauðinn knýr dyra; ást og umhyggju, samviskubit og vanmátt. Um leið er fjallað um það kerfi sem við höfum búið fólki sem á skammt eftir ólifað og álagið og ábyrgðina sem hvílir á aðstandendum við þær aðstæður.

    Sigrún Alba Sigurðardóttir hefur starfað við háskólakennslu og sýningarstjórn um árabil. Hún hefur áður sent frá sér fjölda bóka um listir, menningu og söguleg efni, seinast Snjóflygsur á næturhimni sem kom út árið 2022, en nýjasta bók hennar er skáldsagan Sumarblóm og heimsins grjót frá 2023.

    6.990 kr.
    Setja í körfu
  • Postulín

    Postulín

    Postulín er áhrifamikil ljóðabók um hamfarir, bæði þær sem ryðjast fram af slíku offorsi að þær setja mark sitt á allt samfélagið og þær persónulegu sem fæstir heyra nokkurn tímann af.

    Postulín er önnur ljóðabók Sunna Dísar Másdóttur en sú fyrri, Plómur, kom út árið 2022 og var tilnefnd til Maístjörnunnar. Ári síðar hlaut Sunna Ljóðstaf Jóns úr Vör. Fyrsta skáldaga hennar, Kul, kom út 2024. Ásamt höfundakollektífinu Svikaskáldum hefur Sunna gefið út fjórar ljóðabækur og skáldsöguna Olíu sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

    5.190 kr.
    Setja í körfu