
Jón Leifs: Líf í tónum
1.290 kr.Tónskáldið Jón Leifs var einn merkasti og óvenjulegasti listamaður okkar á 20. öld. Í miðri heimsstyrjöldinni fyrri sigldi hann til Þýskalands, aðeins sautján ára gamall, staðráðinn í að leggja tónlistina fyrir sig þótt ekki hefði hann nema óljósan grun um hvað í því fælist. Hann kvæntist konu af gyðingaættum en bjó þó í Þýskalandi fram til ársins 1944, fluttist þá til Svíþjóðar þar sem ný ást og stór harmur biðu hans, og þaðan aftur heim til Íslands – í annars konar stríð og á vit enn nýrrar ástar.
Saga hans er saga manns sem var of stór fyrir Ísland þess tíma – stórbrotinn metnaður hans og bjargföst trú á heilaga köllun í tónlistinni varð honum bæði gæfa og ógæfa. Jón var um margt langt á undan sinni samtíð, varð fyrstur Íslendinga til að stjórna fullskipaðri sinfóníuhljómsveit, hljóðritaði íslensk þjóðlög þegar þau voru einskis metin, stofnaði STEF og samdi tónlist sem mörgum þótti óþolandi hávaði en er nú talin með því merkasta sem gert hefur verið í íslenskri tónlist fyrr og síðar.
Árni Heimir Ingólfsson skráir lífshlaup Jóns Leifs í þessari dramatísku ævisögu og hefur velt við hverjum steini í leit sinni að heimildum um líf hans. Bók hans er einstakur lykill að lífi þessa umdeilda listamanns. Fjölda áður óbirtra ljósmynda er að finna í bókinni.
Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2009.

Kría siglir um Suðurhöf
1.290 kr.Kría siglir um Suðurhöf er einstök ferðasaga. Þorbjörn Magnússon og Unnur Jökulsdóttir sigldu skútu sinni Kríu frá Panamaskurðinum til Ástralíu, og voru ár á leiðinni. Á þessum tíma upplifðu þau ómælisvíðáttu Kyrrahafsins, sigldu vikum saman án þess að sjá annað en himin og haf, en höfðu líka viðkomu á ótal eyjum frá Galapagos til Fídji. Þorbjörn og Unnur voru samvistum við risaskjaldbökur og freygátufugla, höfðu félagsskap af höfrungum, selum og hákörlum, en kynntust líka merkilegri menningu frumbyggja og misvitrum nýlenduherrum. Þennan heim opna þau lesendum sínum í þessari heillandi bók, sem prýdd er fjölda litmynda úr ferðinni.
Kría siglir um Suðurhöf er sjálfstætt framhald bókarinnar Kjölfar Kríunnar sem út kom fyrir nokkrum árum við miklar vinsældir.

Kjölfar kríunnar
1.290 kr.Undir íslensku flaggi um heimsins höf
Saga um siglingar og skútulíf, langferð um heimsins höf, ævintýri á ókunnum slóðum, líf með framandi þjóðum – saga um draum sem rættist.
Unnur Jökulsdóttir og Þorbjörn Magnússon ákváðu að láta draum sinn verða að veruleika. Þau smíðuðu sér skútuna Kríu, og sigldu á henni um heimsins höf. Ferð sinni lýsa þau í þessari einstöku bók, sem prýdd er fjölda litmynda.
„Ferðasaga Unnar og Þorbjörns er ævintýri frá upphafi til enda. Hún er skemmti- lega skrifuð, stíllinn er þróttmikill og lifandi. Ef bækur hafa takt þá hefur þessi léttan og lifandi takt sem lætur hugann dansa en fyllir hann um leið af hugsunum og fróð- leik um fjarlægar slóðir og hluti sem maður hefur aldrei heyrt um.“
Bjarni Brynjólfsson í Mannlífi.
Alla mína stelpuspilatíð
1.290 kr.Hvert hafa spor hálfsextugrar stelpu legið?
Hvers vegna þræddi hún þessa leið en ekki hina?
Og hvert fór eiginlega tíminn?
Sigríður Kristín er frá Garði í Mývatnssveit, dóttir Jakobínu Sigurðardóttur rithöfundar og Þorgríms Starra Björgvinssonar bónda og hagyrðings, komin af Reykjahlíðar- og Skútustaðaætt og af kjarnafólki á Hornströndum. En hún naut þess ekki alltaf eins og hún segir hispurslaust frá í þessari ögrandi og „öðruvísi“ ævisögu. Auk þess að lýsa því hvernig var að alast upp í norðlenskri sveit á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, þar sem foreldrarnir voru kommar og húsfreyjan skrifaði bækur með „orðbragði“, dregur hún upp litríka mynd af ættmennum sínum, einkum konunum og þá fyrst og fremst móður sinni, veltir fyrir sér hlutskipti kynjanna í fortíð og nútíð – og dásamar þá tilviljun sem lífið er.

Vígroði
1.290 kr.Auður djúpúðga elur upp son sinn á eigin jörð á Katanesi. Hún hefur haldið sig fjarri Suðureyjum frá því að leiðir hennar og Ólafs hvíta Dyflinnarkonungs skildu af ótta við að Ketill flatnefur, faðir hennar, gefi hana manni á ný.
Að veturnóttum 865 kemur hún þó í föðurhús, til brúðkaups bróður síns og dóttur Ingólfs Arnarsonar. Þar spá dísirnar því að vígroða muni brátt slá á víkinga í Vesturhafi. Og víst horfir ófriðvænlega á norðanverðum Bretlandseyjum þar sem innfæddir veita norrænum mönnum æ meiri mótspyrnu og Orkneyjajarl ásælist aukin völd. Þá ræðst Dyflinnarkonungur inn í Péttland, öllum að óvörum, og leiðir þeirra Auðar liggja saman að nýju …
Vígroði er framhald af skáldsögunni Auður sem kom út 2009, naut geysilegra vinsælda og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Gratíana
1.290 kr.Langþráð framhald Hansdætra. Leiftrandi örlaga- og þroskasaga ungrar konu sem tekst á við sjálfa sig og viðteknar venjur í byrjun tuttugustu aldar.
Þær framtíðarvonir sem Gratíana bar í brjósti sér eru að engu orðnar eftir þrjú ár í Bótarbugt en Evlalía móðir hennar er óbuguð enn. Með kænsku hreyfir hún við lífshjólinu og markar nýja stefnu, ekki aðeins fyrir sjálfa sig, heldur ekki síst Gratíönu og Ásdísi. Glóð kvenréttinda lifir í hjarta Gratíönu en samhliða kvikna aðrir logar sem hún brennir sig á, skilur ekki til fulls og veit ekki hvort hún vill glæða eða slökkva.

Speglahúsið
1.990 kr.Miðaldra hárgreiðslukonan Rósa leggur skærin á hilluna, flytur austur í Mjóafjörð og kemur á fót óvenjulegri ferðaþjónustu. Meðan ferðamenn setja sig í spor Lísu, sem lá lömuð þar um miðja síðustu öld, bakar Rósa fyrir kaffihúsið og hugsar til ömmu sinnar sem sá um Lísu og heimilið.
Mögnuð saga frá höfundi Hansdætra.

Skálds saga
1.990 kr.Hvernig er að vera rithöfundur? Hvaðan kemur innblásturinn og þörfin til að skrifa? Hvernig komast hugmyndirnar síðan á blað – og bók?
Verðlaunahöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir hefur á löngum ferli samið fjölda skáldsagna, ort ófá ljóð og skrifað vinsælar sannsögur, en hér er hún á nýjum slóðum og segir frá sjálfri sér, viðhorfum sínum, aðferðum og aðstöðu við skriftir.
Hún sýnir inn í vinnuherbergin og hugarfylgsnin, flakkar um landið og heiminn og dregur upp myndir af harðri glímu sinni við form og stíl, persónur og sögusvið, ytri aðstæður og innri hindranir. Um leið lýsir hún umhverfi, lífsreynslu og atvikum sem hafa orðið henni kveikjur að skáldskap og hvatning til að halda út dagana og árin sem það tekur að komast á leiðarenda, ljúka verki – sem ekki er alltaf sjálfgefið að takist.
Allt þetta kryddar Steinunn með sínum einstaka húmor, þekkingu og ærslafullum stíl sem enginn leikur eftir, og býður lesendum til ógleymanlegrar veislu. Fyrir seinustu skáldsögu sína, Ból, fékk hún Íslensku bókmenntaverðlaunin.

Hvert orð er atvik
1.490 kr.Hvert orð er atvik eftir þjóðskáldið Þorstein frá Hamri er átjánda ljóðabók hans með frumbirtum ljóðum. Þorsteinn yrkir ljóð sem hitta fólk í hjartastað, stundum grimm og áreitin, í annan tíma ljúfsár og blíð. Hvert orð er atvik er bók sem vísar í senn til sögu og fortíðar og inn í samtíðina þar sem þessi heiti, hreini skáldskapur á brýnt erindi og krefst íhugunar og afstöðu.
Þorsteinn frá Hamri hefur fyrir löngu tryggt sér sess meðal fremstu ljóðskálda sem ort hafa á íslenska tungu. Allt frá því hann gaf út sína fyrstu ljóðabók, Í svörtum kufli (1958), aðeins tvítugur að aldri, hefur hann mótað og fágað ljóðstíl sinn, og oft er talið að honum hafi tekist sérlega vel að bræða saman hina gömlu ljóðahefð og stílbrögð nýrrar aldar, ljóðmál módernismans.

Ofvitinn
990 kr.Þey, þey! Fótatak upp stigann. Hver? Vill hún strax fara að byrja á dönskutímunum? Það er barið. Hrekk við.
Kom!
Og inn í herbergið kemur hávaxin stúlka, dökkhærð, hrokkinhærð, ívið kinnbeinahá, rjóð í andliti, fersk og sælleg, hvítar tennur, drifhvítar hendur, sindrandi eldsveipur í mynd hreinnar meyjar. Hún gengur einörðum skrefum inn gólfið og segir í dálítið háum ögrandi tón: Gott kvöld! Og um leið skýtur hún á móti mér tinnudökkum, leiftrandi augum. Guð í hæstum hæðum! Þvílíkt augnaráð! Þvílíkt líf í þessu andliti! Sú er nú ekki alveg laus við að hafa svolítið af sál. Hún hlýtur að hafa afar mikið vit á skáldskap. Skyldi hún vera með Millilandafrumvarpinu?Haustið 1909 hóf Þórbergur Þórðarson nám við Kennaraskólann. Lærifeðurnir ollu honum sárum vonbrigðum og reyndust ófærir um að leysa lífsgátuna. Þórbergur bjó í Bergshúsi á Skólavörðustíg við sult og seyru, en hélt huganum heiðum og leit til stjarna á síðkvöldum. Námi sínu, félögum í Bergshúsi, skáldagrillum, stúkustandi, fyrstu ástinni og þorpslífinu í Reykjavík þessara ára lýsir Þórbergur snilldarlega í Ofvitanum, sem er ein ástsælasta bók hans.


Jónas Hallgrímsson – Ævisaga (kilja)
1.290 kr.„Listaskáldið góða“ er sú einkunn sem þjóðin hefur gefið skáldinu Jónasi. Þjóðin hefur löngum séð fyrir sér mynd af viðkvæmum ljúflingi sem elskaði blómin og eina stúlku sem hann fékk ekki að eiga. Þessi mynd hefur vakið upp andstæðu sína: af beiskum drykkjumanni og auðnuleysingja sem orti fáein kvæði. Hvorug myndin er rétt, eins og Páll Valsson leiðir í ljós í þessu mikla verki um ævi og störf Jónasar Hallgrímssonar – þótt báðar feli í sér sannleikskorn. Jónas var ekki einungis ástsælasta skáld Íslendinga fyrr og síðar heldur líka innblásinn og umdeildur baráttumaður fyrir hvers kyns þjóðþrifamálum og fyrsti eiginlegi náttúrufræðingur okkar.
Á síðum þessarar bókar þar sem saman fer sannferðug og traust fræðimennska og fjörleg framsetning kviknar samtími Jónasar og fjöldi litríkra persóna kemur við sögu. Við sjáum Jónas með augum samtímamanna hans sem margir höfðu horn í síðu hans – og vinanna sem trúðu á hann. Rakin er sagan á bak við byltingarritið Fjölni, við kynnumst þrotlausum rannsóknum vísindamannsins Jónasar og farið er í saumana á fjölmörgum kvæðum hans, ástsælum jafnt sem minna þekktum. Höfundur leiðir margt nýtt í ljós um ástamál og einkahagi skáldsins og dregur upp heilsteypta mynd af lífi og starfi margbrotins manns.
Páll Valsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1999 fyrir þessa bók um Jónas Hallgrímsson.
„Grundvallarævisaga, verðskuldaður bautasteinn um einn helsta son Íslands … ástæða er til að fagna því að um svo merkilegan mann sé nú til ítarleg og skemmtileg ævisaga.“ – Ármann Jakobsson, DV
„Umfram allt er bókin skrifuð af greinilegri ást á viðfangsefninu og fyrir bragðið er frásögnin hvergi daufgerð en heldur athygli lesanda, auk þess sem textinn er auðlesinn og áhugaverður. Skemmtileg, vel sögð og byggist á vandaðri fræðilegri vinnu.“ – Skafti Þ. Halldórsson, Mbl.
„Skemmtileg bók. Þessi bók er skrifuð fyrir fólkið í landinu.“ – Súsanna Svavarsdóttir, Ísland í bítið.
