



Ráðgátan Henri Pick
990 kr.Délphine verður stjarna í franska útgáfuheiminum þegar hún uppgötvar handrit eftir óþekktan höfund, Henri Pick. Bókin verður metsölubók en ekkja höfundar, sem er nýlátinn, kannast ekki við að hann hafi skrifað annað en einstaka innkaupalista í lifanda lífi. Frægur bókmenntagagnrýnandi sem má muna fífil sinn fegurri sér sér leik á borði að fletta ofan af ráðgátunni og komast í kastljósið á ný.
Hugmyndarík og skemmtileg skáldsaga eftir rithöfundinn, kvikmyndagerðarmanninn og tónlistarmanninn David Foenkinos sem er margverðlaunaðaur metsöluhöfundur í Frakklandi.
Þýðandi Yrsa Þórðardóttir.

Högni
1.990 kr.Högni starfar á Framtíðarstofnun við að meta áhrif loftslagsbreytinga á umhverfi og skipulag Reykjavíkur. Í einkalífinu hefur aftur á móti hallað undan fæti eftir erfiðan skilnað. Hann leitar svölunar í faðmi kvenna á börum bæjarins – og skyndilega er Högni orðinn umdeildasti maður landsins og er knúinn til að horfast í augu við sjálfan sig.
Hárbeitt samtímasaga en um leið bráðfyndinn samfélagsspegill og geymir margslungnar og lifandi persónur.Auður Jónsdóttir er einn vinsælasti rithöfundur landsins og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín. World Literature Today útnefndi bók hennar, Skjálfta, eina af 75 athyglisverðustu þýðingum ársins árið 2022.

Óseldar bækur bóksala
4.390 kr.Bærinn Wigtown í Skotlandi er paradís bókaunnenda. Shaun Bythell er einn af bóksölunum í Wigtown. Búðin hans, The Bookshop, er stærsta fornbókabúð Skotlands í gömlu húsi með níu stórum herbergjum stúfullum af bókum.
Bækur Shauns um bókalífið í fornbókabúðinni hans hafa slegið í gegn víða um heim. Óseldar bækur bóksala er þriðja bókin eftir hann sem kemur út á íslensku en hinar tvær, Dagbók bóksala og Játningar bóksala, hafa fengið hinar bestu viðtökur.
Í þessum skemmtilegu bókum er brugðið upp lifandi myndum af mannlegum samskiptum í bókabúðinni, furðufuglunum sem þar reka inn nefið, skrýtna fólkinu sem vinnur þar, kettinum Kafteini og öllu amstrinu sem fylgir lífi fornbókasalans.
Snjólaug Bragadóttir íslenskaði.

heimkynni
4.590 kr.heimkynni er fjórða ljóðabók Þórðar Sævars. Bókin geymir m.a. Akureyrar-ljóð, myndljóð, póstkort og dagbókarskrif. Þórður Sævar hefur auk ljóðabókanna gefið út eitt smáprósasafn, íslenskað sex skáldverk eftir Richard Brautigan og búið endurminningar vesturfarans og alþýðulistamannsins Guðjóns R. Sigurðssonar til útgáfu.

Þegar við hættum að skilja heiminn
4.590 kr.Hér segir frá nokkrum af snjöllustu vísindamönnum 20. aldar, lífi þeirra, þráhyggju, hugarórum og rannsóknum, ásamt ófyrirséðum afleiðingum uppgötvana þeirra. Þegar Fritz Haber vann að framleiðslu hins öfluga skordýraeiturs Zyklon hvarflaði ekki að honum að nasistar myndu nota það nokkrum árum síðar til að drepa ættingja hans og milljónir annarra gyðinga í gasklefunum. Eðlis-og stjörnufræðingurinn Karl Schwarzschild varð fyrstur manna til að leysa jöfnur Einsteins um almennu afstæðiskenninguna en fylltist skelfingu þegar hann uppgötvaði óhugnaðinn sem hún sagði fyrir um. Skammtafræðin og óvissulögmál Heisenbergs kipptu stoðunum undan hefðbundinni eðlisfræði, umturnuðu heimsmyndinni og opnuðu dyr að svo örum tæknilegum breytingum að við erum hætt að skilja heiminn. 
Ljáðu mér rödd
6.390 kr.Ljáðu mér rödd er magnaður ljóðaþríleikur eftir eitt virtasta skáld Svía, Kjell Espmark, sem er Íslendingum að góðu kunnur.
Í bókinni eru ljóðabækurnar Vetrarbraut (2007), Innri víðátta (2014) og Fjöldi votta (2020) þar sem öll bestu höfundareinkenni Espmarks sem ljóðskálds njóta sín til fulls.
Njörður P. Njarðvík íslenskaði.

Spegillinn í speglinum
4.790 kr.Spegillinn í speglinum er ótrúlegt völundarhús draumsýna. Lesandinn hverfur inn í dularfullan frásagnarheim fullan af furðum og leyndardómum, súrrealískum myndum og heimpekilegum hugmyndum.
Hvað speglast í spegli sem speglast í spegli? Ef tveir lesendur lesa sömu bókina eru þeir samt ekki að lesa það sama. Því báðir sökkva þeir sér ofan í lesturinn – og bókin verður spegill sem lesandinn speglast í. Á sama hátt er lesandinn spegill sem bókin speglast í: Spegillinn í speglinum vísar lesandanum aftur til sjálfs sín.
Bókina prýða teikningar eftir föður höfundar, listmálarann Edgar Ende.
Sólveg Thoroddsen Jónsdóttir íslenskaði.
Þýski rithöfundurinn Michael Ende (1929-1995) varð frægur á sjöunda áratug síðustu aldar fyrir bækur sínar um „Jim Knopf“ og naut mikilla vinsælda næstu áratugi fyrir fjölbreyttar sögur fyrir börn og fullorðna sem bera vott um óbeislað hugarflug og mannúðlega heimssýn. Sérstakra vinsælda nutu Mómó og Sagan endalausa sem báðar hafa komið út í íslenskri þýðingu Jórunnar Sigurðardóttur. Spegillinn í speglinum (Der Spiegel im Spiegel), sem höfundurinn kallaði stundum „Söguna endalausa fyrir fullorðna“, er eitt af síðari verkum Michaels Ende og kom út árið 1984. Bókin þykir magnað listaverk og hefur verið þýdd á fjölda tungumála.

Hjálparsagnir hjartans
7.190 kr.Á blaðsíðum með sorgarrömmum lýsir sonur síðustu dögum móður sinnar og útför hennar á hinum ofurveraldlegu tímum í lok tuttugustu aldar. Í því tilfinningalega umróti sem fylgir vaknar rödd móðurinnar og í nýstárlegum umsnúningi syrgir móðirin látinn son sinn …
Mögnuð bók ungverska framúrstefnuhöfundarins Péters Esterházy um sorg og dauða, ástina og lífið, í íslenskri þýðingu Jónu Dóru Óskarsdóttur.
Péter Esterházy (1950-2016) er jafnan talinn mikilvægasti og áhrifamesti póstmóderníski rithöfundur Ungverjalands. Hann stundaði nám í stærðfræði en gaf út sína fyrstu bók árið 1976 og helgaði sig ritstörfum eftir það. Hjálparsagnir hjartans er fyrsta bókin sem kemur út eftir hann á íslensku. Meðal annarra verka hans má nefna stórvirkið Harmonia Caelestis (2000).
Jóna Dóra Óskarsdóttir (1956-) hefur þýtt bækur jöfnum höndum úr ensku, frönsku, spænsku, hollensku, ungversku og Norðurlandamálunum.

