
Upp á Sigurhæðir – saga Matthíasar Jochumssonar
1.290 kr.Matthías Jochumsson var tilfinningaríkur eldhugi, framsýnn, réttsýnn, dáður og elskaður af þjóð sinni en stundum líka fyrirlitinn og jafnvel hataður.
Sem prestur, ritstjóri og þjóðskáld setti hann sterkan svip á íslenska menningu samtíðar sinnar og hafði djúp áhrif á alla sem til hans þekktu, svo opinskár og einlægur sem hann var. Þórunn byggir á fjöldamörgum heimildum, innlendum sem erlendum, bréfum og öðrum persónulegum gögnum sem koma hér í fyrsta skipti fyrir almennings sjónir.
Upp á sigurhæðir er rituð af innsæi og skáldlegum þrótti þar sem rödd Þórunnar kallast með eftirminnilegum hætti á við líf og list þjóðskáldsins.

Skáldalíf: ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri
1.990 kr.Eiga þeir nokkuð sameiginlegt, heimsmaðurinn Gunnar Gunnarsson og heimalningurinn Þórbergur Þórðarson? Annar skrifaði bækur á dönsku sem þýddar voru á fjölmörg tungumál; bækur hins voru vel varðveitt leyndarmál á fátalaðri tungu landsmanna. Annar spurði stórra spurninga um tilvist mannsins; hinn var annálaður húmoristi og ólíkindatól.
En þeir voru báðir íslenskir bændasynir, nánast jafnaldra, og þá dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og þjóðarinnar. Þeir tóku trú á erlenda stríðsherra, hvorn af sinni stjórnmálastefnu og fór sú trú illa með þá. En báðir höfðu afgerandi áhrif á þróun íslenskra bókmennta.
Halldór Guðmundsson dregur upp einstæða mynd af þessum tveim rithöfundum í samhliða ævisögum þeirra. Hér segir frá æsku og uppvexti, erfiðum sveltiárum og örlagaríkum ástarsamböndum, þrá eftir sveitinni, heimsreisum og endurkomu. Með því að láta þá varpa sterku ljósi hvorn á annan fæst mynd af hvorum um sig sem aldrei hefur áður sést.
Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2006.

Hátíð merkingarleysunnar
1.290 kr.Hátíð merkingarleysunnar er ætlað að varpa ljósi á grafalvarleg viðfangsefni án þess að segja eitt einasta orð af alvöru. Lesendur Milans Kundera kannast við alvöruleysið sem einkennir skáldsögur hans. Í Ódauðleikanum rölta Goethe og Hemingway hlið við hlið gegnum hvern kaflann af öðrum, spjalla saman og gantast. Og í Með hægð segir Vera, eiginkona höfundarins: „Þú hefur oft sagt að þig langaði að skrifa skáldsögu þar sem ekki væri að finna eitt einasta alvarlegt orð … ég ætla bara að vara þig við: passaðu þig: óvinir þínir bíða þín.“
Í stað þess að passa sig lætur Kundera þennan draum sinn loks rætast í skáldsögu sem segja má að sé undraverð samantekt allra fyrri verka hans. Kostuleg samantekt. Kostulegur eftirmáli. Hlátur innblásinn af samtímanum sem er fyndinn vegna þess að hann hefur misst allt skopskyn. Hverju er við að bæta? Engu. Lesið!
Friðrik Rafnsson þýddi.









Troðningar
1.490 kr.Jón Hjartarson var um árabil leikari hjá Leikfélagi Reykjavíkur og hefur leikið ótal hlutverk á sviði, í sjónvarpi, útvarpi og kvikmyndum. Jón er höfundur fjölmargra leikrita og leikgerða fyrir börn og fullorðna, auk barna- og unglingabóka. Hann hefur einnig skrifað samtalsbækur og samið fjölda skemmtiþátta, pistla og söngtexta. Troðningar er fyrsta ljóðabók hans.


Vorhænan og aðrar sögur
1.290 kr.Með þessu smásagnasafni kemur Guðbergur Bergsson lesendum enn einu sinni í opna skjöldu með hugmyndaflugi og efnistökum.
Hér má lesa um ævintýralegan fund persónu við sitt innra líf, uppákomu sem Guðbergur hefur löngum gert óviðjafnanleg skil. Og um vorhænu sem ferðast í lest frá Portúgal til Spánar.
Guðbergur hefur sett mark sitt á íslenskar bókmenntir í fjóra áratugi og rutt nýjar brautir í íslenskri skáldsagnaritun. Bækur hans hafa komið út víða um heim og hlotið afburða viðtökur. Skáldsagan Svanurinn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1991 og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993.


Vertu úlfur
1.290 kr.„Ég var hamrammur, maður í úlfsham, vargur, útlagi. Kraftar mínir voru kraftar úlfsins… Orðið vargur hefur enda tvöfalda merkingu: Úlfur og guðlaus maður. Eða einfaldlega útlagi. Wargus esto.“
Þessi bók geymir magnaða frásögn af ferðalagi manns inn í heim stjórnleysis, heim sem sumir þekkja, margir óttast en allir ættu að leitast við að skilja betur. Saga Héðins Unnsteinssonar er öðrum þræði sigursaga en líka saga um baráttu við fordóma, kerfið og jafnvel tungumálið sjálft. Hvað er annars að vera heilbrigður? Hvernig losnar maður við „sjúk-dóm”?
Vertu úlfur er einlæg, gagnrýnin og hispurslaus frásögn af falli og upprisu manns sem eitt sinn var greindur með geðhvörf.
Héðinn hefur starfað á sviði geðheilbrigðismála í tvo áratugi, sem sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu og hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, auk þess sem hann hefur kennt, haldið fyrirlestra og skrifað fjölda greina um þessi mál.


Listamannalaun
1.290 kr.Þeir vissu að þeir yrðu einhverjum söguefni, þessir þremenningar sem voru vandræðabörn á atómöld, bóhemar sem hneyksluðu og hrifu; gæfuleysið féll þeim að síðum, þeir lifðu átakamiklu lífi innra með sér og hið ytra – og reyndu að láta penna og pensil ljúga úr sér hrollinn.
Ólafur Gunnarsson rithöfundur var góðvinur listamannanna Alfreðs Flóka, Dags Sigurðarsonar og Steinars Sigurjónssonar, umdeildra snillinga sem ólu aldur sinn á jaðri samfélagsins. Hann fer hér í sannkallaðan gúmsílúmstúr – eins og Flóki hefði sagt – um Reykjavík og Kaupmannahöfn áttunda og níunda áratugarins og lýsir af næmum skilningi, hreinskilni og óborganlegum húmor kynnum sínum af þeim og fjölmörgum öðrum ógleymanlegum persónum af því sögusviði: menningarpáfum, sveitamönnum, heimsfrægum rithöfundum, húsgagnasölum, barþjónum, mögulegum KGB-mönnum, ástkonum, skáldum og listamönnum.




Missir
2.990 kr.Bókin er gefin út í þúsund tölusettum og árituðum eintökum. Henni fylgir geisladiskur með upplestri höfundar á verkinu.


Mandla
4.690 kr.Mandla er spennuþrungin og úthugsuð hrollvekja um ógnirnar sem steðja að okkur, bæði innan líkamans og utan hans. Hún sver sig í ætt við fyrri nóvellur Hildar Knútsdóttur, Myrkrið milli stjarnanna og Urðarhvarf.
Þegar grindhoruð steingrá læða gerir sig heimakomna á hjúkrunarheimili tekur öldrunarlæknirinn Eva henni fagnandi. Hún veit að rannsóknir sýna að gæludýr hafa góð áhrif á vistmenn slíkra stofnana og berst fyrir því að kötturinn fái að vera um kyrrt. En fljótlega tekur hún eftir því að allir sem læðan Mandla tekur ástfóstri við látast skömmu síðar, jafnvel þótt þeir hafi verið við góða heilsu örfáum dögum áður. Getur verið að kötturinn geti spáð fyrir um andlát fólks? Og verður Mandla bústnari og sældarlegri í hvert sinn sem heimilismaður er fluttur í líkhúsið?
