
Hungurleikarnir
1.290 kr.Á rústum staðar sem eitt sinn hét Norður-Ameríka er ríkið Panem; höfuðborgin Kapítól umkringd tólf umdæmum sem hvert hefur sín sérkenni. Á hverju ári skipa yfirvöld í Kapítól umdæmunum að senda einn strák og eina stelpu að keppa á Hungurleikunum. Keppnin er sýnd í beinni útsendingu um allt land og reglurnar eru einfaldar – sá sigrar sem heldur lífi.
Katniss Everdeen er sextán ára og vekur athygli um allt Panem þegar hún býðst til að taka þátt í Hungurleikunum í stað systur sinnar. Með henni úr Tólfta umdæmi fer bakarasonurinn Peeta. Sjálf á Katniss ekki von á öðru en að hún gangi í opinn dauðann, en sjálfsbjargarviðleitni hennar er meiri en flestra annarra og Peeta leikur leikinn á alveg nýjan máta.
Hungurleikarnir er fyrsta bók í þríleik eftir Suzanne Collins. Bækurnar hafa notið gríðarlegra vinsælda undangengin ár, vermt efstu sæti metsölulista og hlotið bestu meðmæli ritdómara. Kvikmynd gerð eftir fyrstu sögunni verður frumsýnd vorið 2012.

Doris deyr
1.290 kr.Með Doris deyr kveður Kristín Eiríksdóttir sér hljóðs á eftirminnilegan hátt og smeygir sér af lipurð milli heims og orða. Hér getur að líta manneskjur í allri sinni fegurð og grimmd sem elska, reiðast, harma og vita að mennskan er ekki einungis brothætt heldur líka ósigrandi!
Kristín Eiríksdóttir er í hópi okkar athyglisverðustu ungu höfunda. Sögurnar í þessu fyrsta smásagnasafni hennar eru skrifaðar af næmi og ímyndunarafli og eru í senn vægðarlausar og ríkar af samúð.

Eldar kvikna
1.290 kr.Eftir að hafa sigrað í Hungurleikunum og skilað bæði sér og Peeta, félaga sínum úr Tólfta umdæmi, heim í heilu lagi ætti Katniss að vera himinlifandi. Hún flytur inn í Sigurþorp, þarf aldrei framar að óttast hungur og getur aftur farið á veiðar með æskuvininum Gale.
En ekkert er eins og það á að vera: Gale er gerbreyttur, Peeta snýr við henni baki og vaxandi ólga í Panem veldur áhyggjum. Í sigurvegaraferðinni verða Katniss og Peeta að kæfa allar uppreisnartilraunir í fæðingu – hvort sem þau kæra sig um það eða ekki – annars er miklu meira í húfi en nýfengið ríkidæmi og þægindi.
Eldar kvikna er önnur bókin í þríleik Suzanne Collins um Hungurleikana sem farið hefur sigurför um heiminn. Hér kemur hún lesendum á óvart hvað eftir annað svo engin leið er að leggja bókina frá sér fyrr en að lestri loknum.
Guðni Kolbeinsson þýddi.

Vertu úlfur
990 kr.„Ég var hamrammur, maður í úlfsham, vargur, útlagi. Kraftar mínir voru kraftar úlfsins… Orðið vargur hefur enda tvöfalda merkingu: Úlfur og guðlaus maður. Eða einfaldlega útlagi. Wargus esto.“
Þessi bók geymir magnaða frásögn af ferðalagi manns inn í heim stjórnleysis, heim sem sumir þekkja, margir óttast en allir ættu að leitast við að skilja betur. Saga Héðins Unnsteinssonar er öðrum þræði sigursaga en líka saga um baráttu við fordóma, kerfið og jafnvel tungumálið sjálft. Hvað er annars að vera heilbrigður? Hvernig losnar maður við „sjúk-dóm”?
Vertu úlfur er einlæg, gagnrýnin og hispurslaus frásögn af falli og upprisu manns sem eitt sinn var greindur með geðhvörf.
Héðinn hefur starfað á sviði geðheilbrigðismála í tvo áratugi, sem sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu og hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, auk þess sem hann hefur kennt, haldið fyrirlestra og skrifað fjölda greina um þessi mál.

Heilræði lásasmiðsins
1.290 kr.„Ég svaf hjá í Central Park.“
Þannig byrjar Elísabet Jökulsdóttir frásögnina af sambandi sínu við Algea, mann sem hún kynntist á ferðalagi í New York. Þetta er saga tveggja ólíkra einstaklinga sem mætast um stund, reyna að búa saman á Íslandi en hljóta svo að skilja. Hann er bandarískur, hún íslensk; hann er hattagerðarmaður og trommuleikari, hún er skáld; hann er stórborgarbúi, hún er náttúrubarn; hann er svartur og hún hvít.
Þau eru falleg saman en það er snúið að vera manneskja. Bæði eiga erfitt með að skilja á milli ímyndunar og veruleika. Og ástin opnar líka ýmis herbergi sálarlífsins sem hafa verið lokuð lengi…
HEILRÆÐI LÁSASMIÐSINS er einstök bók, skrifuð af einlægni og stílsnilld, brennandi löngun til að segja sögu – og ást.

Gestir (notuð)
1.990 kr.Ég opna Facebook og kíki á hverfissíðuna. Ég þarf ekki að skrolla lengi áður en ég kem að auglýsingunni. Þetta er mynd af kettinum sem liggur við hliðina á mér. Fyrir neðan hana stendur: EDIT ER TÝND!!
Þegar ókunnug læða tekur að venja komur sínar heim til viðskiptafræðingsins Unnar veit hún nákvæmlega hvernig hún á að leysa vandann. Innan skamms stendur eigandinn, ung og illa tilhöfð kona að nafni Ásta, á tröppunum hjá henni með ferðabúr. Daginn eftir birtist Edit þó aftur og gýtur agnarsmáum kettlingi í rúmi Unnar. Í kjölfarið tekst einlæg vinátta með Unni og Ástu og smám saman hleypa þær hvor annarri inn í sína myrkustu kima, áföll og ástarsambönd. Þegar ógn steðjar að standa þær saman – jafnvel þótt það kosti ósegjanlega glæpi.
Gestir er blóðugur spennutryllir eftir meistara hrollvekjunnar, Hildi Knútsdóttur, sem áður hefur sent frá sér nóvellurnar Myrkrið milli stjarnanna, Urðarhvarf og Möndlu. Hildur hefur jafnframt skrifað fjölda ungmennabóka og hlotið fyrir þær ýmsar viðurkenningar.


Sextíu kíló af kjaftshöggum
990 kr.Annað bindið í Sextíu kílóa sögu Hallgríms Helgasonar um síldarævintýrið á Segulfirði og fylgifiska þess.
Sagan hefst í Segulfirði, árið 1906. Áfram vindur furðuríku ferðalagi Íslendinga út úr myrkum torfgöngum inn í raflýstar stofur. Lesandinn er hrifinn með í dans á síldarpalli, í ólgandi takti sem dunar í huganum að lestri loknum því enn á ný hefur Hallgrími tekist að kveða dýran óð úr örlögum fátæks fólks við ysta haf.

Allt með kossi vekur
1.290 kr.Þegar Davíð fær send eftirlátin gögn Láka, sambýlismanns Elísabetar móður hans, vaknar hjá honum óslökkvandi löngun til þess að komast til botns í því sem gerðist haustið 2003. Hver var þáttur móður hans í örlögum vina hennar, Indi og Jóns? Hafði Elísabet eyðileggjandi áhrif á alla í kringum sig? Kallaði Kötlugosið fram illskuna í fólki? Bjó hinn eini sanni koss yfir óskilgreindum ógnarkrafti? Leit Davíðs að sannleikanum verður að ferðalagi inn í innstu sálarmyrkur og knýr hann að lokum til að takast á við erfiðar spurningar um tilvist sína.
Allt með kossi vekur er kraftmikil og hugmyndarík saga sem sver sig í ætt við fyrri bækur Guðrúnar Evu Mínervudóttur, þar sem frásögnin dansar á mörkum raunsæis og fantasíu. Guðrún Eva hlaut fyrir hana Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011.
Teikningar í bókinni eru eftir Sunnu Sigurðardóttur.

Stúlka með höfuð: Sjálfsævisaga
1.290 kr.Hann kenndi mér að halda mig á mottunni um leið og hann gerði mig reiða svo mig langaði að slíta af mér hlekki. Þar er spennan. Það sem gerir lífið spennandi. Að syndga og slíta af sér hlekki og taka út refsinguna. Þessi línudans á línunni voðalegu, að vilja vera á mörkunum og teygja þau út svo heimurinn skáni. Að bögglast við að vera hamingjusamur í heimi þar sem næstum ekkert má.
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir segir hér frá uppvexti sínum í Reykjavík rokksins og hippaáranna, þar sem erfiður skilnaður foreldranna varpaði skugga á gleðina, frá frjálsu stúdentalífi í Lundi og Mexíkó, kommúnum, ástmönnum og litríkum samferðamönnum. Opinská frásögnin er ofin trega og hamingju, léttleika og djúpum söknuði. Bókin er sjálfstætt framhald hinna marglofuðu Stúlku með fingur og Stúlku með maga, þar sem Þórunn notaði heimildir og skáldlega túlkun til að segja sögu móður sinnar og formæðra.





Skúli fógeti: Faðir Reykjavíkur – saga frá átjándu öld
1.290 kr.Skúli Magnússon, faðir Reykjavíkur, varð fyrstur Íslendinga fógeti landsmanna. Með það afl í farteskinu tókst honum að flytja vísi iðnbyltingarinnar til Íslands með stofnun Innréttinganna, þar sem hann var helsti drifkrafturinn.
En Skúli átti sér margar hliðar: hann var búðarstrákur, lífsglaður Hafnarstúdent, kornungur framagjarn embættismaður, kvennagull og svallari, sýslumaður Skagfirðinga og baráttumaður gegn valdi einokunarkaupmanna, áhrifamestur Íslendinga um hálfrar aldar skeið og í nánu vinfengi við valdamenn í Kaupmannahöfn – og lífsþreytt gamalmenni sem galt áður en lauk landskuldina af Viðey til fulls og endaði ævina þar í skjóli andstæðinga sinna. Allar þessar hliðar Skúla sýnir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir hér á sinn einstaka hátt og lýsir um leið samferðafólki hans og samtíð af innlifun.
Skúli fógeti er tuttugasta og fjórða bók höfundar. Þórunn hefur sent frá sér skáldsögur, ljóð og bækur um ýmis sagnfræðileg efni, æviminningar og fleira, meðal annars ævisögur Snorra á Húsafelli og Matthíasar Jochumssonar. Verk hennar hafa hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar.

Herörin og fleiri sögur
1.990 kr.Dauðvona lögfræðingur snæðir kjötsúpu með fyrrverandi eiginkonu sinni, AA-maður fer til að biðja gamlan bekkjarfélaga fyrirgefningar, húsgagnasmiður býður langveikri dóttur sinni í hvalaskoðun og átök leynifélaganna Rauðu rósarinnar og Svörtu handarinnar ná hámarki í blóðugum bardaga á Skólavörðuholti. Um þetta og margt fleira má lesa í tólf nýjum smásögum eftir Ólaf Gunnarsson. Stíllinn er knappur og oft launfyndinn, sögurnar ýmist bjartar eða dimmar, angurværar eða ærslafullar.
Ólafur Gunnarsson er einn virtasti höfundur þjóðarinnar. Hann hefur skrifað ljóð, smásögur og barnabækur en er þekktastur fyrir skáldsögur sínar. Ólafur hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Öxina og jörðina árið 2003.







Stúlka með maga: skáldættarsaga
1.290 kr.„Svo kemur afsökun hans í víðari skilningi. Hann segir að hann eigi þetta máski skilið fyrir að vera að fikta við það sem honum hafi ekki komið við, en það sé nú svona, maður sé skapaður með þessari löngun eða nautn, sem er líka sterkasta aflið yfir manni af öllum nautnum, eða að minnsta kosti sé það þannig hjá honum.“
Í Stúlku með maga fær tregi höfundar rödd Erlu Þórdísar Jónsdóttur. Í frásögn hennar lifna þau dánu, þegar ættarmein og leyndarmál koma úr glatkistunni. Dómur í yfirrétti, skipskaði, heimsstyrjaldir, afleiðingar sýfiliss og hversdagsleikinn blár af fjarlægð fléttast saman af skáldlegri hugkvæmni.
Stúlka með maga – skáldættarsaga byggð á pappírum úr járnskápnum er sjálfstætt framhald af Stúlku með fingur sem út kom 1999. Fyrir bókina hlaut höfundur Fjöruverðlaunin árið 2014.

