-
Stúlka með fálka
9.390 kr.Stúlka með fálka er sjálfstætt framhald bókanna Stúlku með fingur, Stúlku með maga og Stúlku með höfuð þar sem Þórunn Valdimarsdóttir sagnfræðingur og rithöfundur rekur eigin ættarsögu og ævi. Hér stendur stúlkan á sjötugu og lítur um öxl, sögutíminn frá miðjum níunda tug síðustu aldar til dagsins í dag. Staldrað er við ritverkin og atvik úr einkalífi, ferðalög, vini, fjölskyldu og aðra sem haft hafa áhrif á þennan einstaka höfund.
Þetta er samtímasaga full af visku og vangaveltum um lífið og tilveruna. Sem fyrr er Þórunn hispurslaus og opinská og hlífir sér hvergi – frásögnin er fyndin og gáskafull en um leið blandin trega og söknuði.
Þórunn Valdimarsdóttir er einn fjölhæfasti rithöfundur okkar, jafnvíg á skáldskap og fræði og hefur fengist við flestar greinar bókmennta. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín og meðal annars verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
-
Doris deyr
1.290 kr.Með Doris deyr kveður Kristín Eiríksdóttir sér hljóðs á eftirminnilegan hátt og smeygir sér af lipurð milli heims og orða. Hér getur að líta manneskjur í allri sinni fegurð og grimmd sem elska, reiðast, harma og vita að mennskan er ekki einungis brothætt heldur líka ósigrandi!
Kristín Eiríksdóttir er í hópi okkar athyglisverðustu ungu höfunda. Sögurnar í þessu fyrsta smásagnasafni hennar eru skrifaðar af næmi og ímyndunarafli og eru í senn vægðarlausar og ríkar af samúð.
-
Vertu úlfur
990 kr.„Ég var hamrammur, maður í úlfsham, vargur, útlagi. Kraftar mínir voru kraftar úlfsins… Orðið vargur hefur enda tvöfalda merkingu: Úlfur og guðlaus maður. Eða einfaldlega útlagi. Wargus esto.“
Þessi bók geymir magnaða frásögn af ferðalagi manns inn í heim stjórnleysis, heim sem sumir þekkja, margir óttast en allir ættu að leitast við að skilja betur. Saga Héðins Unnsteinssonar er öðrum þræði sigursaga en líka saga um baráttu við fordóma, kerfið og jafnvel tungumálið sjálft. Hvað er annars að vera heilbrigður? Hvernig losnar maður við „sjúk-dóm”?
Vertu úlfur er einlæg, gagnrýnin og hispurslaus frásögn af falli og upprisu manns sem eitt sinn var greindur með geðhvörf.
Héðinn hefur starfað á sviði geðheilbrigðismála í tvo áratugi, sem sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu og hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, auk þess sem hann hefur kennt, haldið fyrirlestra og skrifað fjölda greina um þessi mál.
-
Heilræði lásasmiðsins
1.290 kr.„Ég svaf hjá í Central Park.“
Þannig byrjar Elísabet Jökulsdóttir frásögnina af sambandi sínu við Algea, mann sem hún kynntist á ferðalagi í New York. Þetta er saga tveggja ólíkra einstaklinga sem mætast um stund, reyna að búa saman á Íslandi en hljóta svo að skilja. Hann er bandarískur, hún íslensk; hann er hattagerðarmaður og trommuleikari, hún er skáld; hann er stórborgarbúi, hún er náttúrubarn; hann er svartur og hún hvít.
Þau eru falleg saman en það er snúið að vera manneskja. Bæði eiga erfitt með að skilja á milli ímyndunar og veruleika. Og ástin opnar líka ýmis herbergi sálarlífsins sem hafa verið lokuð lengi…
HEILRÆÐI LÁSASMIÐSINS er einstök bók, skrifuð af einlægni og stílsnilld, brennandi löngun til að segja sögu – og ást.
-
Gestir (notuð)
1.990 kr.Ég opna Facebook og kíki á hverfissíðuna. Ég þarf ekki að skrolla lengi áður en ég kem að auglýsingunni. Þetta er mynd af kettinum sem liggur við hliðina á mér. Fyrir neðan hana stendur: EDIT ER TÝND!!
Þegar ókunnug læða tekur að venja komur sínar heim til viðskiptafræðingsins Unnar veit hún nákvæmlega hvernig hún á að leysa vandann. Innan skamms stendur eigandinn, ung og illa tilhöfð kona að nafni Ásta, á tröppunum hjá henni með ferðabúr. Daginn eftir birtist Edit þó aftur og gýtur agnarsmáum kettlingi í rúmi Unnar. Í kjölfarið tekst einlæg vinátta með Unni og Ástu og smám saman hleypa þær hvor annarri inn í sína myrkustu kima, áföll og ástarsambönd. Þegar ógn steðjar að standa þær saman – jafnvel þótt það kosti ósegjanlega glæpi.
Gestir er blóðugur spennutryllir eftir meistara hrollvekjunnar, Hildi Knútsdóttur, sem áður hefur sent frá sér nóvellurnar Myrkrið milli stjarnanna, Urðarhvarf og Möndlu. Hildur hefur jafnframt skrifað fjölda ungmennabóka og hlotið fyrir þær ýmsar viðurkenningar.
-
-
Sextíu kíló af kjaftshöggum
990 kr.Annað bindið í Sextíu kílóa sögu Hallgríms Helgasonar um síldarævintýrið á Segulfirði og fylgifiska þess.
Sagan hefst í Segulfirði, árið 1906. Áfram vindur furðuríku ferðalagi Íslendinga út úr myrkum torfgöngum inn í raflýstar stofur. Lesandinn er hrifinn með í dans á síldarpalli, í ólgandi takti sem dunar í huganum að lestri loknum því enn á ný hefur Hallgrími tekist að kveða dýran óð úr örlögum fátæks fólks við ysta haf.
-
Allt með kossi vekur
1.290 kr.Þegar Davíð fær send eftirlátin gögn Láka, sambýlismanns Elísabetar móður hans, vaknar hjá honum óslökkvandi löngun til þess að komast til botns í því sem gerðist haustið 2003. Hver var þáttur móður hans í örlögum vina hennar, Indi og Jóns? Hafði Elísabet eyðileggjandi áhrif á alla í kringum sig? Kallaði Kötlugosið fram illskuna í fólki? Bjó hinn eini sanni koss yfir óskilgreindum ógnarkrafti? Leit Davíðs að sannleikanum verður að ferðalagi inn í innstu sálarmyrkur og knýr hann að lokum til að takast á við erfiðar spurningar um tilvist sína.
Allt með kossi vekur er kraftmikil og hugmyndarík saga sem sver sig í ætt við fyrri bækur Guðrúnar Evu Mínervudóttur, þar sem frásögnin dansar á mörkum raunsæis og fantasíu. Guðrún Eva hlaut fyrir hana Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011.
Teikningar í bókinni eru eftir Sunnu Sigurðardóttur.
-
-
Herörin og fleiri sögur
1.990 kr.Dauðvona lögfræðingur snæðir kjötsúpu með fyrrverandi eiginkonu sinni, AA-maður fer til að biðja gamlan bekkjarfélaga fyrirgefningar, húsgagnasmiður býður langveikri dóttur sinni í hvalaskoðun og átök leynifélaganna Rauðu rósarinnar og Svörtu handarinnar ná hámarki í blóðugum bardaga á Skólavörðuholti. Um þetta og margt fleira má lesa í tólf nýjum smásögum eftir Ólaf Gunnarsson. Stíllinn er knappur og oft launfyndinn, sögurnar ýmist bjartar eða dimmar, angurværar eða ærslafullar.
Ólafur Gunnarsson er einn virtasti höfundur þjóðarinnar. Hann hefur skrifað ljóð, smásögur og barnabækur en er þekktastur fyrir skáldsögur sínar. Ólafur hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Öxina og jörðina árið 2003.
-
-
-
-
-
-
-
Upp á Sigurhæðir – saga Matthíasar Jochumssonar
1.290 kr.Matthías Jochumsson var tilfinningaríkur eldhugi, framsýnn, réttsýnn, dáður og elskaður af þjóð sinni en stundum líka fyrirlitinn og jafnvel hataður.
Sem prestur, ritstjóri og þjóðskáld setti hann sterkan svip á íslenska menningu samtíðar sinnar og hafði djúp áhrif á alla sem til hans þekktu, svo opinskár og einlægur sem hann var. Þórunn byggir á fjöldamörgum heimildum, innlendum sem erlendum, bréfum og öðrum persónulegum gögnum sem koma hér í fyrsta skipti fyrir almennings sjónir.
Upp á sigurhæðir er rituð af innsæi og skáldlegum þrótti þar sem rödd Þórunnar kallast með eftirminnilegum hætti á við líf og list þjóðskáldsins.
-
Skáldalíf: ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri
1.990 kr.Eiga þeir nokkuð sameiginlegt, heimsmaðurinn Gunnar Gunnarsson og heimalningurinn Þórbergur Þórðarson? Annar skrifaði bækur á dönsku sem þýddar voru á fjölmörg tungumál; bækur hins voru vel varðveitt leyndarmál á fátalaðri tungu landsmanna. Annar spurði stórra spurninga um tilvist mannsins; hinn var annálaður húmoristi og ólíkindatól.
En þeir voru báðir íslenskir bændasynir, nánast jafnaldra, og þá dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og þjóðarinnar. Þeir tóku trú á erlenda stríðsherra, hvorn af sinni stjórnmálastefnu og fór sú trú illa með þá. En báðir höfðu afgerandi áhrif á þróun íslenskra bókmennta.
Halldór Guðmundsson dregur upp einstæða mynd af þessum tveim rithöfundum í samhliða ævisögum þeirra. Hér segir frá æsku og uppvexti, erfiðum sveltiárum og örlagaríkum ástarsamböndum, þrá eftir sveitinni, heimsreisum og endurkomu. Með því að láta þá varpa sterku ljósi hvorn á annan fæst mynd af hvorum um sig sem aldrei hefur áður sést.
Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2006.
-
-
-
-
-