

Óbærilegur léttleiki tilverunnar
1.290 kr.Hvað gerir maður þegar fallega þjónustustustúlkan á hótelinu úti á landi stendur allt í einu á tröppunum hjá honum í borginni með hafurtask sitt og er bara komin…? Tómas er góður læknir og ennþá betri kvennamaður og ákveður að hleypa hinni ástföngnu Teresu inn í líf sitt. En framhaldið er ekki á hans valdi – þau eru leiksoppar sögunnar, fórnarlömb ytri afla eins og heimaland þeirra, Tékkóslóvakía. Örlög þess í greipum grannans í austri fléttast óviðráðanlega saman við örlög persóna bókarinnar. Samt er þetta engin harmsaga: Óbærilegur léttleiki tilverunnar er full af óvæntri gamansemi og lýsir samhengi stjórnmála, kynlífs og dauða með grátbroslegum hætti. Léttleiki frásagnarinnar og frelsi draumsins verður athvarf mannshugans andspænis óbærilegum lögmálum sögunnar.
Friðrik Rafnsson íslenskaði.



Hátíð merkingarleysunnar
1.290 kr.Hátíð merkingarleysunnar er ætlað að varpa ljósi á grafalvarleg viðfangsefni án þess að segja eitt einasta orð af alvöru. Lesendur Milans Kundera kannast við alvöruleysið sem einkennir skáldsögur hans. Í Ódauðleikanum rölta Goethe og Hemingway hlið við hlið gegnum hvern kaflann af öðrum, spjalla saman og gantast. Og í Með hægð segir Vera, eiginkona höfundarins: „Þú hefur oft sagt að þig langaði að skrifa skáldsögu þar sem ekki væri að finna eitt einasta alvarlegt orð … ég ætla bara að vara þig við: passaðu þig: óvinir þínir bíða þín.“
Í stað þess að passa sig lætur Kundera þennan draum sinn loks rætast í skáldsögu sem segja má að sé undraverð samantekt allra fyrri verka hans. Kostuleg samantekt. Kostulegur eftirmáli. Hlátur innblásinn af samtímanum sem er fyndinn vegna þess að hann hefur misst allt skopskyn. Hverju er við að bæta? Engu. Lesið!
Friðrik Rafnsson þýddi.

Hlálegar ástir
1.990 kr.Hvað gerist þegar fólk tekur sér ný gervi í stundarléttúð og leikur annarleg hlutverk í kynlífsleiknum án þess að hugsa það til enda eða gera sér grein fyrir afleiðingunum? Eða þegar karlmaður gerir sér upp trúarhita til að vinna hug og hjarta konu? Eða þegar listasögukennari kemur sér ekki að því að gefa umsögn um akvonda grein um myndlist?
Milan Kundera fer á kostum í þessum sjö smásögum og skoðar margar viðkvæmustu hliðar mannlífsins í spéspegli, en meðal viðfangsefna hans eru ást og kynlíf, sýnd og reynd, einstaklingsbundinn húmor í húmorslausu samfélagi og sjálfsvirðing einstaklingsins.
Smásögurnar komu fyrst út í Prag árið 1968 og gerast allar á sjöunda áratugnum, því skeiði sem nefnt hefur verið Vorið í Prag, skeiði frelsis og léttlyndis sem lauk snarlega þegar Rússar gerðu innrás í Prag, skömmu eftir að þessi bók kom út. En svo djúpt skyggnist Kundera í mannlegt hlutskipti að sögurnar gætu sem hægast gerst í nútímanum.
Auk Óbærilegs léttleika tilverunnar er Hlálegar ástir sú bók Kundera sem mestra vinsælda hefur notið víða um heim.




