



Höfundur Íslands
1.290 kr.Fremsti höfundur Íslands vaknar í brekku í afskekktum dal við það að lítill strákur potar í hann. Hvar er hann? Er hann lifandi eða dauður? Ekki minnkar undrun gamals manns þegar þungstígur bóndi, forn í skapi og illúðlegur, tekur hann í fangið og ber hann heim í sitt frumstæða kot, þar sem margt er kunnuglegt. Er hann staddur í eigin höfundarverki?
Höfundur Íslands (2001) eftir Hallgrím Helgason er margslungin og nýstárleg saga sem leiðir lesandann í ótrúlega ferð um íslenskan menningarheim liðinnar aldar. Um leið er tekist á við áleitnar spurningar um samband höfundar og verks, veruleika og skáldskapar, lífs og dauða. Þetta er hrífandi og ögrandi skáldsaga sem öðrum þræði er uppgjör við 20. öldina. Fyrir hana hlaut Hallgrímur Íslensku bókmenntaverðlaunin.







Gegn gangi leiksins
1.290 kr.Sjö ár eru liðin frá því ljóðskáldið Svanur Bergmundsson losnaði úr klefa sínum á Litla-Hrauni, eftir að hafa afplánað nokkurra ára dóm fyrir manndráp í miðbæ Reykjavíkur. Lóa, systir Svans, er farin á heimili fyrir aldraða, og hefur sett íbúð sína í Þingholtunum á sölu, en leyfir bróður sínum að búa í henni þangað til hún selst. Á fallegum haustdegi bankar ungt par upp á hjá Svani, og vill skoða íbúðina. Svanur er á því augnabliki að koma sér fyrir til að fylgjast með leik á alþjóðlegu fótboltamóti í sjónvarpinu – en framundan er líka annar leikur, sem Svanur mun sjálfur taka þátt í. Í kjölfar heimsóknar unga parsins fer síðan enn einn boltinn að rúlla …
Bragi Ólafsson hefur frá árinu 1986 gefið út ljóðabækur, smásagnasöfn og skáldsögur auk þess að skrifa leikrit fyrir útvarp og svið, Aðrar skáldsögur hans eru Hvíldardagar, Gæludýrin, Samkvæmisleikir, Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenny Alexson, Fjarveran, Sögumaður og Staða pundsins.

