
Hóras prins af Hákoti
4.390 kr.Uppgjafabóndinn Hóras gerist róni í Reykjavík á sjöunda áratug 20. aldar. Hann kemur víða við sögu og er um tíma formaður 17. nefndar Reykjavíkurborgar og síðar forsætisráðherra en stefnumálin eru vafasöm og sögulok ill. Hóras prins af Hákoti er drepfyndinn harmleikur í bundnu máli, ortur af galsafenginni ófyrirleitni sem kankast á við klassískan skáldskap fyrri alda.


Brimurð
4.390 kr.Brimurð er áttunda bók höfundar. Ástvinamissir er ávallt sár, hvort heldur sá sem hverfur til annarrar víddar hefur tvo fætur eða fjóra. En ástin deyr ekki, hún nær yfir allar víddir, því að elska er að lifa.
Brimurð er tileinkuð öllum dýravinum og eigendum þeirra, dýrunum, sem auðga lífið jafnt að fegurð, dýpt og gleði.
„Með síðustu tveimur ljóðabókum sínum, Varurð og Einurð, hefur Draumey Aradóttir markað sér bás meðal áhugaverðustu ljóðskálda á Íslandi.“
Soffía Auður Birgisdóttir
Varurð
3.790 kr.Varurð er sjötta bók höfundar. Fimm ljóðanna hafa þegar hlotið verðlaun og viðurkenningar. Í bókinni býðst lesendum að reima á sig skóna og halda með höfundi í ljóðför um oddhvassar lendur óttans; allt frá upptökum hans að óumflýjanlegum átökunum við hann. Nestuð áræði, einlægni og varurð er áfangastaðurinn langþráð frelsið, friðurinn og fögnuðurinn sem bíður þeirra sem fletta af sér öllu því sem þeir töldu sig vera og kasta sér kviknaktir út í ógnvekjandi eldskírnina.

Einurð
3.790 kr.Einurð er sjöunda bók höfundar. Lesanda er hér boðið í ljóðför um hugarheim barns – og síðar fullorðins einstaklings – sem ávarpar móður sína allt frá þeim degi og þeirri nóttu sem eitt líf slokknar og annað kviknar. Þar sem form og formleysi mætast. Þar sem hughrif, kenndir og geðhrif móta einstaklinginn á viðkvæmasta skeiði hans – í móðurlífinu. Lokaljóð bókarinnar, sem er í senn meginstef og niðurstaða verksins, hlaut fyrstu verðlaun í árlegri ljóðasamkeppni Júlíönu – hátíð sögu og bóka 2023.




Aldrei nema kona
1.290 kr.Aldrei nema kona er heimildaskáldsaga sem fylgir þremur ættliðum kvenna í Skagafirði á átjándu og nítjándu öld. Þetta eru fátækar konur og lífsbaráttan er hörð en með þrautseigju og æðruleysi tekst þeim að komast af þrátt fyrir hart árferði og harðneskjulegt samfélag.
Höfundurinn Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir var kennari í nær 40 ár. Í þessari sögu rekur hún æviferil langmæðgna sinna í Skagafirði og byggir þar á heimildum úr kirkjubókum, manntölum, æviskrám, dómabókum og ýmsum heimildum öðrum. Sögutíminn spannar meira en hundrað ár, frá miðri átjándu öld fram yfir miðja hina nítjándu.







Leiðin út í heim
1.290 kr.Palli vaknar í rúminu sínu. Hann er einn í herberginu og þar er undarlega kyrrt og hljótt. Hann sest upp. Fötin hans liggja snyrtilega samanbrotin á stólkoll við bláan rúmgaflinn. Undan rúminu skaga uppreimaðir skór. Maðurinn veit að hann dreymdi eitthvað en man ekki hvað það var.
Palli er einn í heiminum en þó ekki því hér eru að lágmarki tveir. Heimurinn innra með manneskjunni og heimurinn fyrir utan hana. Falli heimurinn hið ytra snurðulaust saman við innri heim er maðurinn einn í einum heimi. Það er mikil og dapurleg einsemd. Sé munur á heimunum en ekki milligengt er maðurinn í öðrum heimi.
Höfundur bregður á leik með fræga barnabók Jens Sigsgaard um Palla sem var einn í heiminum en veltir um leið upp tilvistarlegum spurningum.
Leiðin út í heim er fimmta skáldsaga Hermanns Stefánssonar rithöfundar sem hlotið hefur verðskuldaða athygli fyrir nýbreytni og frumlega hugsun í skáldskap. Eftir Hermann hafa einnig komið út ljóð, leikrit og skáldfræðilegir textar.



Bjargræði
1.290 kr.Látra-Björg (1716-1784), einhver stórbrotnasti karakter Íslandssögunnar, kraftaskáld á tímum þegar kvæði hafa sannarlega áhrif á veruleikann og koma góðu eða illu til leiðar, sægarpur hinn mesti og fiskin með eindæmum, grálynd og ögrandi galdrakerling og hin versta grýla sem menn bæði óttuðust og virtu, húskona og eigin húsbóndi við svaðalegar aðstæður á Látrum, flökkukona í móðuharðindunum, brennd af háskalegum ástum samkvæmt þjóðtrúnni.
Látra-Björg var sérkennilegt, stórbrotið og kraftmikið skáld og furðu nútímalegt, lét engan eiga neitt inni hjá sér, hitti alltaf í mark í samskiptum við valdsmenn og kyssti ekki vöndinn. Í þessari bók er Björg Einarsdóttir komin til Reykjavíkur í ókunnum erindagjörðum við ókunnugan mann og þótt hún sé fædd fyrir 300 árum hefur hún aldrei verið nær okkur. Hvað vill hún? Hverra erinda gengur hún? Hver er sagan á bakvið goðsögnina um Látra-Björgu?
Bókina prýðir fjöldi kvæða eftir Látra-Björgu.
Hermann Stefánsson er höfundur fjölda bóka og vakti mikla athygli fyrir síðustu skáldsögu sína, Leiðina út í heim, sem tilnefnd var til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut einróma lof gagnrýnenda.

