
Á nóttunni er allt blóð svart
3.890 kr.Þegar Alfa Ndiaye treystir sér ekki til að veita æskuvini sínum Mademba Diop náðarhöggið þar sem hann liggur illa særður milli skotgrafa í fyrri heimstyrjöldinni brestur eitthvað innra með honum og hefndarþorsti heltekur hann. Í fyrstu dást félagarnir að hugrekki Alfa en þegar voðaverkunum linnir ekki hættir þeim að lítast á blikuna.
Fransk-senegalski rithöfundurinn David Diop varpar ljósi á fáránleika skotgrafahernaðarins sem einkenndi fyrri heimstyrjöldina, þar sem um tvö hundruð þúsund fótgönguliðar frá Vestur – Afríku létu lífið fyrir Frakkland. Afrísku hermennirnir gengu undir nafninu Chocolats vegna húðlitarins og var þeim ætlað að vekja skelfingu hjá óvininum sem mannætur og villimenn vopnaðir sveðjum.

Allt sundrast
3.590 kr.Allt sundrast kom fyrst út árið 1958 og er talin höfuðrit afrískra bókmennta. Bókin var sú fyrsta í ritröð Heinemanns African Writers Series sem hefur átt mikinn þátt í að vekja athygli á afrískum bókmenntum í hinum vestræna heimi. Hún hefur verið þýdd á 58 tungumál og selst í yfir 20 milljónum eintaka.
Allt sundrast segir sögu hins óttalausa Igbo-stríðsmanns Okonkwos í upphafi nýlendutímans þegar ágengir Evrópumenn ógna heimi ættflokkanna á svæðinu. Skáldsagan fagnar í ár 60 ára útgáfuafmæli og er útgáfa hennar á íslensku löngu tímabær. Hún markar upphafið á því þegar rithöfundar Afríkulanda hófu að segja sína sögu sjálfir en fram að því hafði hún verið skráð af vestrænu fólki.
Chinua Achebe (1930–2013) var einn merkasti rithöfundur Nígeríu og er oft talinn faðir afrískra nútímabókmennta. Hann er þekktastur fyrir „Afríska þríleikinn“ sem samanstendur af skáldsögunum Things Fall Apart (Allt sundrast), Arrow of God og No Longer at Ease, sem segja sögu þriggja kynslóða frá upphafi nýlendutímans í Nígeríu til aukinnar þéttbýlismyndunar og hnignunar hefðbundinnar menningar. Hann skrifaði fjölmargar skáldsögur, ljóð, smásögur, ritgerðir og barnabækur.
Achebe hafði umsjón með útgáfu afrískra skáldverka í Ritröð afrískra höfunda hjá Heinemann-útgáfunni og starfaði sem háskólaprófessor í Bandaríkjunum. Chinua Achebe var gerður heiðursdoktor í yfir 30 háskólum víða um heim. Honum voru einnig veitt þjóðarverðlaun Nígeríu, sem eru æðsta viðurkenning landsins, auk þess sem hann hlaut alþjóðlegu Man Booker-verðlaunin árið 2007 fyrir stórkostlegt ævistarf.

Allt sem við misstum í eldinum
3.890 kr.Dáleiðandi smásögur eftir argentíska rithöfundinn Mariönu Enriquez, eina athyglisverðustu bókmenntarödd Rómönsku-Ameríku, sem vísa í sögulegan og pólitískan veruleika Argentínu. Magnaðar sögur sem hafa vakið athygli víða um heim og verið þýddar á 28 tungumál.
Ungt fólk í nútímanum, ímyndunarafl á barmi sjúkleika, ofbeltisvofur herstjórnanna, svartigaldur, norður-argentínsk hjátrú, stéttaskipting og spilling, ástarsambönd, lágstéttarhverfi, jaðarsetning og staða kvenna. Myrkur og oftar en ekki óþægilegur heimur.

Akam, ég og Annika
4.590 kr.Hrafnhildur neyðist til að flytja til Þýskalands með fjölskyldu sinni þegar stjúpfaðir hennar fær þar vinnu. Nýi skólinn er mjög strangur og hún saknar pabba síns og ömmu, en aðallega bestu vinkonu sinnar. Þegar hún kynnist hinum krökkunum í skólanum renna hins vegar á hana tvær grímur. Vissulega er erfitt að vera nýja stelpan í bekknum, mállaus og vinalaus, en það virðist vera til verra hlutskipti. Hrafnhildur þarf á öllu sínu hugrekki að halda þegar hún tekst á við áskoranir sem hana hefði ekki einu sinni grunað að væru til. Hverjum getur hún eiginlega treyst? Af hverju vill Annika endilega vera vinkona hennar – og í hvaða vandræðum er Akam?

Akam, ég og Annika – Stytt útgáfa
4.590 kr.Stytt útgáfa af verðlaunabókinni Akam, ég og Annika. Einfalt málfar og orðskýringar til að koma til móts við fjölbreyttan lesendahóp.
Hrafnhildur er ósátt við að flytja til Þýskalands með fjölskyldu sinni þegar stjúpfaðir hennar fær þar vinnu. Nýi skólinn er mjög strangur og hún saknar pabba síns og ömmu, en aðallega bestu vinkonu sinnar. Það er erfitt að vera nýja stelpan í skólanum, mállaus og vinalaus, en fljótlega kemst hún að því að lífið er enn erfiðara hjá öðrum. Hrafnhildur þarf að takast á við áskoranir sem hún hefði aldrei trúað að væru til og reyna verulega á hugrekki hennar. Hverjum getur hún eiginlega treyst? Af hverju vill Annika endilega vera vinkona hennar? Og í hvaða vandræðum er Akam?




Ef við værum á venjulegum stað
1.290 kr.Í borginni Lagos de Moreno í Mexíkó eru fleiri kýr en manneskjur og fleiri prestar en kýr. Íbúarnir gera uppreisn gegn stjórnvöldum vegna kosningasvindls sem verður upphafið að kostulegu ferðalagi sögumanns um ólíkar deildir hins mexíkanska þjóðlífs. Skálkasaga um spillta pólitíkusa, stórar fjölskyldur og hvað það þýðir að tilheyra millistétt í Mexíkó.
Áttum við ekki heima í þessu landi þar sem við áttum heima? Áttu ekki sífellt að vera að gerast hér stórkostlegir og yfirnáttúrulegir atburðir? Töluðum við ekki við dautt fólk? Sögðu ekki allir að við værum súrrealísk þjóð?
Mexíkóski rithöfundurinn Juan Pablo Villalobos (f. 1973) ólst upp í borginni Lagos de Moreno sem er sögusvið bókarinnar en hefur verið búsettur í Barcelona í næstum 20 ár. Fyrsta skáldsaga hans, Veisla í greninu, var fyrsta bókin í þýðingarröð Angústúru (2017) og hlaut hún mikið lof á Íslandi auk þess sem bóksalar völdu hana bestu þýddu bók ársins. Ef við værum á venjulegum stað er önnur bók Villalobos og einnig önnur bókin í þríleik hans um Mexíkó, en markmiðið með honum er að kljúfa sundur hugmyndina um Mexíkó sem töfrandi og súrrealískt land og sýna hversu hrikaleg staða mála er í raun. Auk þríleiksins hafa komið út þrjár skáldsögur eftir Villalobos. Hann er einnig virkur þýðandi og hefur þýtt verk brasilískra höfunda á spænsku.

Litla Land (notuð)
1.290 kr.Gabríel er tíu ára og lifir áhyggjulausu lífi í úthverfi Bújúmbúra, í Afríkuríkinu Búrúndí. Allt hverfist um vinina og þeirra uppátæki í botnlanganum sem þeir hafa gert að ríki sínu. En þegar borgarastríð skellur á í landinu, og þjóðarmorð er framið í nágrannaríkinu Rúanda, breytist allt. Falleg saga um vináttu og sakleysi æskunnar, en líka átakanlegur vitnisburður um þau eyðandi áhrif sem stríð og ofbeldi hafa á líf og samfélög manna.
Litla land er fyrsta skáldsaga tónlistarmannsins Gaëls Faye (f. 1982) og endurspeglar uppvöxt hans í Búrúndí. Bókin sló í gegn þegar hún kom út í Frakklandi árið 2016, hefur selst þar í yfir 800 þúsund eintökum, hlotið viðurkenningar og verðlaun og verið þýdd á 30 tungumál. Einstök saga sem nú hefur verið kvikmynduð.

Sæluvíma
1.290 kr.Sæluvíma er margverðlaunuð skáldsaga eftir bandaríska rithöfundinn Lily King. Hún byggir á raunverulegum atburðum í lífi bandaríska mannfræðingsins Margaretar Mead þegar hún var við störf á Nýju-Gíneu árið 1933 ásamt þáverandi eiginmanni sínum, Reo Fortune, og Gregory Bateson sem hún átti eftir að giftast síðar. Uggi Jónsson var tilnefndur til Íslensku þýðingaverðlaunanna fyrir þýðinguna. Fjórða bókin í áskriftarröð Angústúru.
Enski mannfræðingurinn Andrew Bankson er einangraður á vettvangi við rannsóknir á ættbálki sem býr við Sepik-fljótið á Nýju-Gíneu og rannsóknir hans ganga illa. Úrkula vonar er hann að því kominn að stytta sér aldur þegar hann rekst á hina frægu og hrífandi Nell Stone og kaldhæðinn eiginmann hennar, Fen, en bæði eru þau mannfræðingar. Úr verður áhugavert samstarf og ástríðufullt samband en ekki líður á löngu uns afbrýðisemi og græðgi stefnir öllu í voða.
Sæluvíma sló í gegn í Bandaríkjunum þegar hún kom út árið 2014 og fyrir hana hlaut höfundurinn Kirkus-skáldskaparverðlaunin, Bókmenntaverðlaun Nýja-Englands og Bandarísku gagnrýnendaverðlaunin, auk þess sem hún var valin ein af tíu bestu bókum ársins af The New York Times Book Review, tímaritinu TIME og Amazon. Sæluvíma hefur komið út í 15 löndum og er kvikmynd í bígerð.

Dauðinn er barningur
1.290 kr.Þrjú systkini flytja lík föður sín til greftrunar í heimabæ hans Anabia í Aleppohéraði. Ferðalagið ætti undir venjulegum kringumstæðum að taka um fimm klukkustundi en það er ekkert venjulegt við ástandið í stríðshrjáðu Sýrlandi. Og ekki auðveldar þátttaka föður þeirra í andspyrnunni þeim að komast í gegnum eftilitsstöðvar, því án réttra pappíra liggur beinast við að handtaka líkið.
Magnað verk um hnignun samfélags í löngu stríði eftir Khaled Khalifa, þekktasta samtímahöfund Sýrlands. Dauðinn er barningur hefur verið þýdd á 12 tungumál og tilnefnd til virtra bókmenntaverðlauna, meðal annars Booker International verðlaunanna.

Uppljómun í eðalplómutrénu
1.290 kr.Fjölskylda Bahar flýr Teheran í kjölfar ofsókna í byltingunni árið 1979 og sest að fyrir utan afskekkt þorp í von um að geta lifað í friði. Enginn fær þó komist undan brjálæðinu sem ríður yfir landið og snertir bæði lifandi og látna, aldna og unga. Mögnuð írönsk saga um mátt ímyndunarafsins gagnvart grimmd og miskunnarleysi. Persneskt töfraraunsæi. Fjórtánda bókin í áskriftarröð Angústúru.
Íranski rithöfundurinn Shokoofeh Azar (f. 1972) starfaði sem blaðamaður í heimalandinu en eftir ítrekaðar fangelsanir sá hún sig tilneydda til að flýja land og fékk pólitískt hæli í Ástralíu árið 2011. Uppljómun í eðalplómutrénu er fyrsta skáldsaga höfundar og hlaut Azar fyrir hana tilnefningu til alþjóðlegu Booker-verðlaunanna 2020.

Að borða Búdda
1.290 kr.Þegar Rauði her Maos Zedong flúði inn á hásléttu Tíbets í kínverska borgarastríðinu voru hermennirnir svo hungraðir að þeir rændu klaustrin í bænum Ngaba og víðar og borðuðu trúarlegar styttur úr byggmjöli og smjöri – og álitu að þeir væru að leggja sér sjálfan Búdda til munns. Róstur og skærur í héruðunum umhverfis Ngaba leiddu til þess að íbúarnir þar urðu eitt aðalhreyfiaflið í tíbesku andspyrnunni sem náði hámarki með sjálfsíkveikjum á götum úti á 21. öldinni.
Í Að borða Búdda varpar Barbara Demick ljósi á menningu sem hefur lengi verið rómantíseruð af Vesturlandabúum sem andleg og friðsamleg. Hún sýnir hvað það þýðir raunverulega að vera Tíbetbúi í nútímanum, reyna að varðveita menningu sína, trú og tungumál fyrir óstöðvandi ofurvaldi, gripdeildum þess og viðvarandi kúgun.
„Kínverjar hafa þegar skipað nefnd sem á að velja næsta Dalai Lama. Ef við tökum ekki slaginn, þá verða þeir á undan okkur. Þeir finna einhvern sætan, lítinn, tíbeskan dreng sem þeir geta haft fulla stjórn á.“
Barbara Demick (f. 1959) er margverðlaunaður bandarískur blaðamaður, þekkt fyrir greinar sínar um mannréttindamál og efnahagsog samfélagslegt umrót í Austur-Evrópu og Asíu. Í Að borða Búdda fjallar Demick um þær afdrifaríku breytingar sem orðið hafa á tíbesku samfélagi frá innrás Kínverja í landið um miðja síðustu öld. Á íslensku hefur áður komið út eftir hana metsölubókin Engan þarf að öfunda: Daglegt líf í Norður-Kóreu.
