
Satýrikon
2.990 kr.Satýrikon af mörgum talin fyrsta skáldsaga heimsins, rituð á latínu á árunum 50-60 e.Kr. Talið er að Gajus (Títus) Petróníus, einn af hirðmönnum Nerós keisara, hafi ritað söguna sem nú er varðveitt í brotum. Alvara og gamansemi togast á í litríkum og ísmeygilegum lýsingum á háum og lágum í þessu meistaralega bókmenntaverki.
Sagan segir frá flakki félaganna Enkolpíusar og Askýltosar um íburðarmikla veislusali og aumustu hreysi Rómverja. Hún er heillandi vitnisburður um hinn forna rómverska heim, um ástríður og afbrýði, græðgi og grimmd, spillingu og göfgi.
Satýrikon hefur vakið ýmsum miklum listamönnum innblástur og nægir þar að nefna samnefnda kvikmynd Federicos Fellinis og skáldverkið Petrolio eftir Pier Paolo Pasolini.
Satýrikon birtist hér í þýðingu Erlings E. Halldórssonar sem einnig ritar eftirmála. Margir minnast snilldarþýðingar hans á skáldverkinu Gargantúi og Pantagrúll eftir François Rabelais, en fyrir þá þýðingu hlaut Erlingur verðlaun frönsku akademíunnar, Le Grand Prix de l’Académie Française.

Kantaraborgarsögur
3.990 kr.Kantaraborgarsögur eru eitt af höfuðritum heimsbókmenntanna og langfrægasta verk Geoffrey Chaucers, þjóðskálds Englendinga. Hópur fólks úr öllum stigum ensks þjóðfélags er á leið í pílagrímsferð að gröf dýrlingsins Tómasar frá Beckett í Kantaraborg. Þau gera með sér samkomulag um að keppa í því hver getur sagt bestu söguna og á hver ferðalangur að segja tvær sögur, eina á leiðinni til áfangastaðarins og eina á leiðinni til baka. Chaucer lauk aldrei við að semja allar sögurnar en það sem til er af verkinu er fyrir löngu orðið sígilt og hefur glatt lesendur í gegnum aldirnar.
Í Kantaraborgarsögum birtist heillandi heimur síðmiðalda þar sem ægir saman dyggðum og klúrheitum, hetjuskap og lágum hvötum. Jarðbundið raunsæi og óbrengluð sýn á gangvirki mannfólksins er aðall þessara bráðfyndnu sagna, en á móti leggur höfundur á vogarskálarnar lærdóm sinn og lýsingar á riddaralegri hugprýði.
Geoffrey Chaucer er talinn hafa látist aldamótaárið 1400. Hann er iðulega nefndur faðir enskra þjóðarbókmennta.
Erlingur E. Halldórsson þýddi Kantara- borgarsögur, en hann er einn virtasti þýðandi okkar um þessar mundir og hefur m.a. þýtt klassísk verk eftir François Rabelais, Petróníus og Boccaccio.

Gargantúi og Pantagrúll
3.990 kr.Gargantúi og Pantagrúll er eitt þekktasta skáldverk sem ritað hefur verið á franska tungu fyrr og síðar. Þetta er flokkur fimm skemmtisagna eftir munkinn, lækninn, húmoristann og mannvininn François Rabelais (1484-1553), en fyrir þetta verk hefur Rabelais löngum verið settur á stall með klassískum höfundum á borð við Shakespeare, Dante og Cervantes. Hugmyndaflugið og frásagnargleðin er slík að lesandinn sogast inn í frásögnina og lendir með persónunum í ótrúlegustu ævintýrum, tekur þátt í spaklegum vangaveltum um aðskiljanlegustu málefni og skemmtir sér konunglega. Hann kynnist þar fjölda skrautlegra persóna, m.a. risahjónunum Grandgussa og Gargamelu og syni þeirra, átvaglinu Pantagrúl, raunum Panúrgs í kvennamálum og ferðalögum hans til furðulegra staða. En að baki glettninni býr þekking, viska og snörp ádeila höfundar sem var fjölfróðari en flestir samtímamenn hans. Ádeila hans á valdapot, menntasnobb, vanahugsun og helgislepju hverskonar kom illa við kaunin á samtímamönnum hans, einkum valda- mönnum kóngs og kirkju. Allar götur síðan hafa menn skipst í tvö horn í afstöðunni til verka Rabelais. Enda eru verk hans háskaleg fyrir þá sem ekkert skopskyn hafa. Fyrir alla aðra eru þau veisla.
