
Bók vikunnar
8.490 kr.Húni er nýkominn til borgarinnar þegar honum býðst starf á litlu skóverkstæði í Reykjavík meðfram námi í háskólanum. Gamli skósmiðurinn lést fyrir skömmu og Húni fær það hlutverk að afgreiða ósótta skó til viðskiptavina.
Húni kemur úr afskekktri sveit, fullur efasemda um nútímann og á því nokkuð erfitt með að fóta sig í bænum. Til að flækja tilfinningalíf hans enn frekar kynnist hann Júlíu sem honum þykir bæði óútreiknanleg og heillandi. Dag einn þegar hann situr á skóverkstæðinu fær hann hugmynd sem gæti bæði unnið hjarta Júlíu en um leið uppfyllt draum hans um að setja mark sitt á menningarlífið í borginni.
Snæbjörn Arngrímsson hefur áður vakið athygli fyrir óvenjulegar glæpasögur, en nú hefur hann skrifað annars konar bók – Bók vikunnar. Hér spretta fram sérstæðar persónur í kunnuglegu umhverfi – og seiðmögnuð stemmning ljær sögunni leyndardómsfullan blæ.

Rigning í nóvember
990 kr.Kona fer í ferðalag austur á land eftir að maðurinn hennar yfirgefur hana vegna annarrar konu. Með í för er fimm ára heyrnarlaus sonur vinkonu hennar en tilgangur ferðarinnar er að finna stað fyrir sumarbústað sem hún hefur unnið í happdrætti.
Síðasta skáldsaga Auðar Övu, Afleggjarinn hefur farið sannkallaða sigurför um heiminn, meðal annars hlotið ein tólf virt bókmenntaverðlaun í Frakklandi.

Andlit
1.290 kr.Andlit er skálduð en þó sönn saga. Hér segir Bjarni Bjarnason frá litríkri æsku á áttunda áratugnum, hvernig hann elur sig að mestu upp sjálfur, þvælist milli staða innanlands og utan og kynnist ótrúlegasta fólki; slöngukonu sem þjónað hefur heimsfrægum leikara, amerískum gúrú sem nærist á íslenskum sálum, Kleópötru sem hefur áhuga á lifnaðarháttum neðanjarðarskálda, sænskum lögreglumönnum sem finnast draumar grunsamlegir, taugatrekktum flugfreyjum og draugum af ýmsu tagi.
Þetta er saga full af húmor, trega og hlýju en umfram allt einstök lýsing á sérkennilegu lífshlaupi.
Bjarni Bjarnason hefur hlotið Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og verið tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hér sýnir hann á sér nýja hlið með léttleikandi verki sem á köflum er lygilegra en nokkur skáldsaga.

Mistur
1.290 kr.Stórhríð geisar uppi á heiðum á Austurlandi fyrir jólin 1987 þar sem hjón búa á einangruðum bóndabæ. Ókunnugur maður ber óvænt að dyrum á Þorláksmessu og segist hafa villst í fárviðrinu.
Konan á erfitt með að trúa frásögn mannsins og eftir því sem hátíðin nálgast verður andrúmsloftið á þessum afskekkta bæ meira þrúgandi, símasamband rofnar, rafmagnið fer og ekki munu allir lifa heimsóknina af. Lögreglukonan Hulda Hermannsdóttir þarf að kljást við flókið og erfitt mál skömmu eftir að hafa sjálf lent í fjölskylduharmleik sem skilur eftir sár sem aldrei gróa.
Ragnar Jónasson sýnir hér og sannar að hann er í hópi fremstu spennusagnarithöfunda Norðurlanda en útgáfuréttur á bókum hans hefur verið seldur til fjölda landa. Bækurnar hafa hlotið frábæra dóma og víða setið í efstu sætum metsölulista. Unnið er að gerð breskra spennuþátta sem byggjast á bókum Ragnars.




Höll minninganna
1.290 kr.Höll minninganna er mögnuð skáldsaga um Íslending sem hvarf að heiman um dimma nótt frá fjölskyldu sinni og vinum og endaði sem einkaþjónn hjá bandaríska auðkýfingnum William Randolph Hearst eftir fyrri heimsstyrjöld. Hvers vegna yfirgaf hann konu sína og börn, blómlegt fyrirtæki og trausta stöðu í Reykjavík? Hvernig lenti hann í höll Hearsts blaðakóngs við Kyrrahafið?
Höll minninganna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er ógleymanleg frásögn um mannleg örlög, ást og aðskilnað, einsemd og söknuð. Stíllinn er fágaður, persónurnar ljóslifandi og sagan heldur lesanda föngnum frá upphafi til loka.
Ólafur Jóhann hefur notið fádæma vinsælda fyrir skáldverk sín. Í Höll minninganna kemur hann að lesandanum úr óvæntri átt og vakti sagan athygli heima og erlendis.

Skáldalíf: ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri
1.990 kr.Eiga þeir nokkuð sameiginlegt, heimsmaðurinn Gunnar Gunnarsson og heimalningurinn Þórbergur Þórðarson? Annar skrifaði bækur á dönsku sem þýddar voru á fjölmörg tungumál; bækur hins voru vel varðveitt leyndarmál á fátalaðri tungu landsmanna. Annar spurði stórra spurninga um tilvist mannsins; hinn var annálaður húmoristi og ólíkindatól.
En þeir voru báðir íslenskir bændasynir, nánast jafnaldra, og þá dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og þjóðarinnar. Þeir tóku trú á erlenda stríðsherra, hvorn af sinni stjórnmálastefnu og fór sú trú illa með þá. En báðir höfðu afgerandi áhrif á þróun íslenskra bókmennta.
Halldór Guðmundsson dregur upp einstæða mynd af þessum tveim rithöfundum í samhliða ævisögum þeirra. Hér segir frá æsku og uppvexti, erfiðum sveltiárum og örlagaríkum ástarsamböndum, þrá eftir sveitinni, heimsreisum og endurkomu. Með því að láta þá varpa sterku ljósi hvorn á annan fæst mynd af hvorum um sig sem aldrei hefur áður sést.
Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2006.

Högni
1.990 kr.Högni starfar á Framtíðarstofnun við að meta áhrif loftslagsbreytinga á umhverfi og skipulag Reykjavíkur. Í einkalífinu hefur aftur á móti hallað undan fæti eftir erfiðan skilnað. Hann leitar svölunar í faðmi kvenna á börum bæjarins – og skyndilega er Högni orðinn umdeildasti maður landsins og er knúinn til að horfast í augu við sjálfan sig.
Hárbeitt samtímasaga en um leið bráðfyndinn samfélagsspegill og geymir margslungnar og lifandi persónur.Auður Jónsdóttir er einn vinsælasti rithöfundur landsins og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín. World Literature Today útnefndi bók hennar, Skjálfta, eina af 75 athyglisverðustu þýðingum ársins árið 2022.

Leiðin út í heim
1.290 kr.Palli vaknar í rúminu sínu. Hann er einn í herberginu og þar er undarlega kyrrt og hljótt. Hann sest upp. Fötin hans liggja snyrtilega samanbrotin á stólkoll við bláan rúmgaflinn. Undan rúminu skaga uppreimaðir skór. Maðurinn veit að hann dreymdi eitthvað en man ekki hvað það var.
Palli er einn í heiminum en þó ekki því hér eru að lágmarki tveir. Heimurinn innra með manneskjunni og heimurinn fyrir utan hana. Falli heimurinn hið ytra snurðulaust saman við innri heim er maðurinn einn í einum heimi. Það er mikil og dapurleg einsemd. Sé munur á heimunum en ekki milligengt er maðurinn í öðrum heimi.
Höfundur bregður á leik með fræga barnabók Jens Sigsgaard um Palla sem var einn í heiminum en veltir um leið upp tilvistarlegum spurningum.
Leiðin út í heim er fimmta skáldsaga Hermanns Stefánssonar rithöfundar sem hlotið hefur verðskuldaða athygli fyrir nýbreytni og frumlega hugsun í skáldskap. Eftir Hermann hafa einnig komið út ljóð, leikrit og skáldfræðilegir textar.


Ástin Texas
1.290 kr.„Ef líf mitt væri hugljúf bíómynd hefði ég sest í lótusstellingu fyrir framan grammófóninn við hvert tækifæri og svifið inn í heim klassískrar tónlistar og háleitra tilfinninga. Inn um dyrnar eitt kvöldið hefði gengið fínlegur og listrænn ungur maður, alger andstæða hnakka tískunnar sem reið röftum á þessum tíma, og fallið í stafi yfir afgreiðslustúlkunni sem var svona mikill listunnandi. Við hefðum orðið ástfangin og skapað okkur innihaldsríkt líf saman. Í staðinn lagðist ég undir sjoppueigandann.“
Í þessum tengdu sögum Guðrúnar Evu eru samskipti fólks á öllum aldri í forgrunni; mæðgna, feðgina, elskenda, vinnufélaga, hyskis og góðborgara. Persónugalleríið er fjölbreytt og litríkt; sálfræðineminn Hildigunnur, Agnar sjoppueigandi, Jósteinn múrari, trúboðarnir Austin og David frá Texas, Jóhanna sem dregst háskalega að Kára, móðurbróður bestu vinkonu sinnar, elskendurnir Sóti og Magga sem verja tíma sínum á knæpunni Dallas …
Af einstöku næmi og stílgáfu nær Guðrún Eva hér fágætri dýpt í mannlýsingum og bæði persónur og andrúmsloft sagnanna lifa með lesanda lengi á eftir. Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011 fyrir Allt með kossi vekur og síðasta bók hennar, Skegg Raspútíns, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2016, og vakti mikla athygli.




