
Allt með kossi vekur
1.290 kr.Þegar Davíð fær send eftirlátin gögn Láka, sambýlismanns Elísabetar móður hans, vaknar hjá honum óslökkvandi löngun til þess að komast til botns í því sem gerðist haustið 2003. Hver var þáttur móður hans í örlögum vina hennar, Indi og Jóns? Hafði Elísabet eyðileggjandi áhrif á alla í kringum sig? Kallaði Kötlugosið fram illskuna í fólki? Bjó hinn eini sanni koss yfir óskilgreindum ógnarkrafti? Leit Davíðs að sannleikanum verður að ferðalagi inn í innstu sálarmyrkur og knýr hann að lokum til að takast á við erfiðar spurningar um tilvist sína.
Allt með kossi vekur er kraftmikil og hugmyndarík saga sem sver sig í ætt við fyrri bækur Guðrúnar Evu Mínervudóttur, þar sem frásögnin dansar á mörkum raunsæis og fantasíu. Guðrún Eva hlaut fyrir hana Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011.
Teikningar í bókinni eru eftir Sunnu Sigurðardóttur.

Harmur englanna
990 kr.Tíminn er stundum bölvað kvikindi, færir okkur allt til þess eins að taka það burt aftur. Það eru þrjár vikur síðan strákurinn kom í Plássið með stórhættulegan skáldskap á bakinu og vegalengdin milli Bárðar og lífsins eykst miskunnarlaust með hverjum degi.
Jens landpóstur er kominn í Plássið, rétt slapp undan norðanvindinum þótt komið væri vor. Saman fara þeir strákurinn yfir að Vetrarströndinni, það eru apríllok og snjókoman tengir saman himin og jörð, þurrkar út áttirnar og landslagið. Hafi djöfullinn skapað eitthvað í þessum heimi, fyrir utan peningana, þá er það skafrenningur uppi á fjöllum.


Valeyrarvalsinn
1.290 kr.Kata hjólar út í Samkomuhús því kórinn hennar heldur tónleika á Valeyri í kvöld. Jósa setur gamlar bekkjarmyndir á Facebook en Sidda hlustar á Andrés á safninu segja margþvældar sögur meðan hún bíður eftir Kalla sínum sem hefur tafist í hlöðunni þar sem hann gerir við aflóga þvottavélar. Smyrill skáld reynir að yrkja, séra Sæmunur tekst á við öfl ljóss og myrkurs, hjónin í Valeyrarvinnslunni talast ekki við í dag, Ásta veit ekki hvort það voru reimleikar sem hún upplifði í nótt en Lalli lundi reynir að rifja upp af hverju hann fór í göngutúr…
Valeyrarvalsinn er hrífandi og margradda skáldverk þar sem sextán sögur fléttast saman, kallast á, botna hver aðra og skarast margvíslega enda gerast þær allar á sömu tveimur mínútunum í litlu þorpi. Þetta eru sögur um mannfólkið og það sem kemur fyrir það, sögur um ástir og afglöp og fjölskyldutengsl og öll leyndarmálin, alkunn og djúpt grafin. Persónur, atvik og kenndir kvikna til lífs og tónlistin umvefur allt í ómótstæðilegum texta Guðmundar Andra Thorssonar sem hefur aldrei skrifað betur.
Bókin var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og hefur komið út í nokkrum löndum.

Óþægileg ást
990 kr.Delia á von á móður sinni með lestinni til Rómar, en hú skilar sér ekki. Skömmu síðar finnst lík hennar í sjónum við baðstað þar sem fjölskyldan hafði stundum farið í sumarfrí.
Í tengslum við jarðarförina þarf Delia að takast á hendur ferð til æskustöðvanna og um leið á vit erfiðrar bernsku með tvístraðri fjölskyldu. En ekki síst þarf hún að svara knýjandi spurningu: Hver var eiginlega móðir hennar?
Í þessari fyrstu skáldsögu Elenu Ferrante fjallar hún um það efni sem einkennt hefur höfundarverk hennar síðan: flókin og margræð sambönd kvenna. Hér er mæðgnasamband í forgrunni, en einnig samskipti kynjanna, dulin og ódulin, og hvernig konur sem storka karlveldinu eiga erfitt uppdráttar.
Um þetta fjallar Elena Ferrante af þeirri stílgáfu, dýpt og innsæi sem lesendur þekkja af Napólí-fjórleik hennar, og gert hefur hana að einum vinsælasta rithöfundi samtímans. Eftir þessari bók var gerð vinsæl kvikmynd.



