
Fljótt, fljótt sagði fuglinn
990 kr.Þessi bók er veisluborð. Réttirnir eru fjölbreyttir með ólíkindum og fram bornir af einstæðri kunnáttusemi. Lesandanum er boðið í hóf og þarf ekki að gæða sér á öllum réttunum í einu, en finnur hvarvetna „bragð hins göfga óspillta víns“, eins og Sverrir Kristjánsson komst eitt sinn að orði um ritlist Thors Vilhjálmssonar.
Fljótt, fljótt sagði fuglinn færir lesanda heim sanninn um myndvísi Thors, orōkynngi og stílíþrótt. Rætur verksins liggja víða í evrópskri menningu, goðsögum sem samtímalist, en um leið er það merk heimild um umbrotin miklu sem urðu þegar það var ritað, 1968.
Fljótt, fljótt sagði fuglinn, er tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu. Ásamt örfáum verkum öðrum markaði bókin nýjan áfanga í íslenskri sagnagerð, og hefur æ síðan verið lesin og kapprædd af áhugafólki um bókmenntir. Hún hefur verið þýdd á nokkur tungumál, en lengi verið ófáanleg hérlendis.





