
Kómeta
7.390 kr.Leiftrandi og óvenjuleg frásögn um kraftaverk lífsins, stríðið gegn gleymskunni, leitina að ljósi í heimi þar sem dauði, illska og fáfræði ráða oft ríkjum, og hvernig sálirnar á jörðinni takast á við sviptingar og breytta heimsmynd.
Ég er ljóssúla í gleymskunnar myrkri,
ég bregð birtu yfir grafir hinna þögnuðu.Kolnismeyjamessa árið 1536. Aldrað skáld sem dvelur í íslensku klaustri finnur reifabarn við klausturhliðið, bjargar lífi þess og byrjar að rita bréf til þeirra sem dauðinn hefur tekið frá honum. Upphefst þá frásögn sem spannar breitt svið og berst frá Íslandi á tímum siðaskipta, hertöku og skefjalausrar grimmdar til logheitrar Andalúsíu og öngstræta Granadaborgar. Einnig er greint frá afstöðu fugla til dauðans, brottflutningum Mára og sorginni sem situr eins og fleinn í hjartanu.
Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson hefur áður sent frá sér smásagnasöfnin 500 dagar af regni (2020) og Svefngarðurinn (2021) sem hlutu góðar viðtökur.

Ég er annar – Sjöleikurinn III-IV
4.890 kr.Önnur bókin af þremur í stórvirki norska Nóbelshöfundarins. Sjöleikurinn er magnþrungið verk um baráttuna við að rata rétta leið í lífinu og bregður jafnframt upp lýsandi myndum af aðstæðum og tíðaranda í norsku samfélagi á liðinni öld.
Listmálarinn Ási er að undirbúa jólasýningu í galleríi í Björgvin. Í borginni býr annar Ási sem líka er listmálari. Þeir nafnar eru vinir og á vissan hátt spegla þeir hvor annars líf.
Í þessum hluta verksins fær lesandinn innsýn í uppvaxtarár Ása í Bugðu. Við sögu koma feimnislegir kossar, reykingar og áfengisneysla, hljómsveitaræfingar og slagsmál, nöldrandi mamma og þolinmóður pabbi, flutningur að heiman og menntaskólaár. Fljótlega heldur listamaðurinn ungi og upprennandi sína fyrstu sýningu og vekur óvænta athygli sem veitir honum brautargengi.
Jon Fosse (f. 1959) er einn þekktasti og virtasti samtímahöfundur Norðmanna. Allt frá fyrstu bók sinni, Raudt, svart (1983) hefur hann helgað sig ritstörfum og sent frá sér skáldsögur, ljóð, leikrit, barnabækur og ritgerðir. Verk hans hafa verið þýdd og gefin út á meira en fimmtíu tungumálum og leikritin sviðsett um allan heim. Fosse hefur einnig lagt stund á bókmenntaþýðingar. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna bæði í heimalandinu og erlendis. Árið 2015 hlaut hann Bókmenntaverðaun Norðurlandaráðs fyrir þríleikinn Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja, sem kom út á íslensku 2016. Frá árinu 2011 hefur Fosse búið í Grotten, heiðursbústað norska ríkisins fyrir listamenn.
Jon Fosse hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels 2023.


Einar Bragi – Ljóðasafn
8.990 kr.Einar Bragi (1921-2005) var í fylkingarbrjósti atómskáldanna svonefndu og átti stóran þátt í þeim straumhvörfum sem urðu í íslenskri ljóðagerð um og eftir miðja 20. öld. Hann gaf út fjölda ljóðabóka, fór oft ótroðnar slóðir varðandi útgáfu þeirra, var frumkvöðull að stofnun tímaritsins Birtings og atkvæðamikill þýðandi erlendra ljóða.
Í þessari útgáfu birtist meginþorri frumortra ljóða Einars Braga, allt frá fyrstu ljóðabókinni, Eitt kvöld í júní (1950), til þeirrar síðustu, Ljós í augum dagsins (2000), auk viðamikils úrvals af ljóðaþýðingum hans sem einnig spanna rúmlega hálfa öld.
Ástráður Eysteinsson bókmenntafræðingur valdi ljóðin og ritar ítarlegan inngang þar sem fram kemur ný sýn á feril skáldsins.

Heyrnarlaust lýðveldi
3.790 kr.Heyrnarlaust lýðveldi er nýstárleg og áhrifamikil ljóðabók sem fjallar um atburði í ónefndum bæ á stríðstímum. Þegar innrásarlið drepur heyrnarlausan dreng, verður byssuskotið það síðasta sem bæjarbúar heyra – allir missa heyrnina, en angist, reiði, skelfing og uppgjöf eru látin í ljós á táknmáli. Ljóðin eru tilfinningarík og dansa frjálslega á mörkum frásagnar og leikrits. Frásagnaraðferð skáldsins er bæði sérstæð og hrífandi, enda hefur bókin hlotið einróma lof og verið tilnefnd til verðlauna.
Ilya Kaminsky fæddist í Úkraínu, sem þá var hluti af Sovétríkjunum, en fluttist til Bandaríkjanna ungur að árum og skrifar á ensku. Verðlaunabók hans Dansað í Ódessa kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar árið 2018.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson íslenskaði.

Naustið
3.790 kr.Naustið er óhefðbundin saga sem gerist á þremur sumardögum og fjallar um náin tengsl þriggja persóna. Síendurtekin stef mynda sterk hugrenningatengsl en það sem gerist í raun og veru er samt sem áður ófyrirsjáanlegt enda þótt vinátta, ást, afbrýðisemi og dauði séu í forgrunni. Bókin kom fyrst út 1989 og markaði upphafið að velgengni höfundarins í heimalandinu, en haustið 2023 hlaut Jon Fosse Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.
Hjalti Rögnvaldsson íslenskaði.
