
Stúlka með höfuð: Sjálfsævisaga
1.290 kr.Hann kenndi mér að halda mig á mottunni um leið og hann gerði mig reiða svo mig langaði að slíta af mér hlekki. Þar er spennan. Það sem gerir lífið spennandi. Að syndga og slíta af sér hlekki og taka út refsinguna. Þessi línudans á línunni voðalegu, að vilja vera á mörkunum og teygja þau út svo heimurinn skáni. Að bögglast við að vera hamingjusamur í heimi þar sem næstum ekkert má.
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir segir hér frá uppvexti sínum í Reykjavík rokksins og hippaáranna, þar sem erfiður skilnaður foreldranna varpaði skugga á gleðina, frá frjálsu stúdentalífi í Lundi og Mexíkó, kommúnum, ástmönnum og litríkum samferðamönnum. Opinská frásögnin er ofin trega og hamingju, léttleika og djúpum söknuði. Bókin er sjálfstætt framhald hinna marglofuðu Stúlku með fingur og Stúlku með maga, þar sem Þórunn notaði heimildir og skáldlega túlkun til að segja sögu móður sinnar og formæðra.

Skúli fógeti: Faðir Reykjavíkur – saga frá átjándu öld
1.290 kr.Skúli Magnússon, faðir Reykjavíkur, varð fyrstur Íslendinga fógeti landsmanna. Með það afl í farteskinu tókst honum að flytja vísi iðnbyltingarinnar til Íslands með stofnun Innréttinganna, þar sem hann var helsti drifkrafturinn.
En Skúli átti sér margar hliðar: hann var búðarstrákur, lífsglaður Hafnarstúdent, kornungur framagjarn embættismaður, kvennagull og svallari, sýslumaður Skagfirðinga og baráttumaður gegn valdi einokunarkaupmanna, áhrifamestur Íslendinga um hálfrar aldar skeið og í nánu vinfengi við valdamenn í Kaupmannahöfn – og lífsþreytt gamalmenni sem galt áður en lauk landskuldina af Viðey til fulls og endaði ævina þar í skjóli andstæðinga sinna. Allar þessar hliðar Skúla sýnir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir hér á sinn einstaka hátt og lýsir um leið samferðafólki hans og samtíð af innlifun.
Skúli fógeti er tuttugasta og fjórða bók höfundar. Þórunn hefur sent frá sér skáldsögur, ljóð og bækur um ýmis sagnfræðileg efni, æviminningar og fleira, meðal annars ævisögur Snorra á Húsafelli og Matthíasar Jochumssonar. Verk hennar hafa hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar.

Stúlka með maga: skáldættarsaga
1.290 kr.„Svo kemur afsökun hans í víðari skilningi. Hann segir að hann eigi þetta máski skilið fyrir að vera að fikta við það sem honum hafi ekki komið við, en það sé nú svona, maður sé skapaður með þessari löngun eða nautn, sem er líka sterkasta aflið yfir manni af öllum nautnum, eða að minnsta kosti sé það þannig hjá honum.“
Í Stúlku með maga fær tregi höfundar rödd Erlu Þórdísar Jónsdóttur. Í frásögn hennar lifna þau dánu, þegar ættarmein og leyndarmál koma úr glatkistunni. Dómur í yfirrétti, skipskaði, heimsstyrjaldir, afleiðingar sýfiliss og hversdagsleikinn blár af fjarlægð fléttast saman af skáldlegri hugkvæmni.
Stúlka með maga – skáldættarsaga byggð á pappírum úr járnskápnum er sjálfstætt framhald af Stúlku með fingur sem út kom 1999. Fyrir bókina hlaut höfundur Fjöruverðlaunin árið 2014.

Upp á Sigurhæðir – saga Matthíasar Jochumssonar
1.290 kr.Matthías Jochumsson var tilfinningaríkur eldhugi, framsýnn, réttsýnn, dáður og elskaður af þjóð sinni en stundum líka fyrirlitinn og jafnvel hataður.
Sem prestur, ritstjóri og þjóðskáld setti hann sterkan svip á íslenska menningu samtíðar sinnar og hafði djúp áhrif á alla sem til hans þekktu, svo opinskár og einlægur sem hann var. Þórunn byggir á fjöldamörgum heimildum, innlendum sem erlendum, bréfum og öðrum persónulegum gögnum sem koma hér í fyrsta skipti fyrir almennings sjónir.
Upp á sigurhæðir er rituð af innsæi og skáldlegum þrótti þar sem rödd Þórunnar kallast með eftirminnilegum hætti á við líf og list þjóðskáldsins.

Kalt er annars blóð
1.290 kr.Í Kalt er annars blóð er glæpasagnaformið fléttað glæsilega saman við íslenska sagnahefð og íslensk örlög í nútíð og fortíð eins og Þórunni Jörlu einni er lagið. Í kuldalegri Reykjavíkurborg flögrar krummi um og fylgist með viðburðum sem draga munu dilk á eftir sér; hann sér margt sem mannleg augu sjá ekki – peningar skipta um hendur, kettir eru keyrðir niður, hús brennd og menn skotnir eins og skepnur.
Þegar Ása finnur af tilviljun lík í malarhaugi norðan heiða ber margt fyrir augu sem áður hefur verið hulið – hvað rekur fólk til að ryðja öðrum úr vegi og hvað gerist þegar hömlurnar hverfa ein af annarri?
Kalt er annars blóð, sem sækir efnivið m.a. í Njálu, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2007.

Fagurboðar
5.190 kr.Við uppgjör bókarans
verður dagljóst
að lífið
gefur meira
en það tekur.
Þórunn Valdimarsdóttir er einn fjölhæfasti rithöfundur okkar, jafnvíg á bundið og laust mál og hefur fengist við flestar greinar bókmennta. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín og meðal annars verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Fagurboðar er fjórða ljóðabók Þórunnar.
