
Blái pardusinn: Hljóðbók
7.990 kr.Blái pardusinn – hljóðbók er dramatísk gamansaga um hlustun og athygli, sagnfræði og skáldskap.
Streymisveita ein hefur gefið út hljóðbókina Bláa pardusinn, örlagasögu sem innblásin er af ævintýralegu ferðalagi íslenskrar konu um Evrópu á tímum seinni heimsstyrjaldar. Hér segir frá þremur hlustendum bókarinnar og baráttu þeirra við að halda þræði í æsispennandi atburðarásinni mitt í daglegu amstri en höfundurinn, sem enginn veit hver er, gerir þeim ekki auðvelt fyrir. Dæmalaus frásögnin fer um víðan völl og illmögulegt er að henda reiður á hvað er skáldað og hvað ekki, líkt og kemur í ljós þegar leiðir hlustendanna þriggja liggja að lokum saman við óvenjulegar og þrúgandi aðstæður.
Sigrún Pálsdóttir skrifar knappar, meitlaðar og innihaldsríkar sögur sem hafa vakið verðskuldaða athygli heima og erlendis. Fyrri bækur hennar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og fyrir þær hefur hún hlotið verðlaun og tilnefningar.

Kompa
1.290 kr.Fræðimaður, ung kona, verður fyrir smávægilegri truflun inni á handritasafni við rannsókn á 365 ára gamalli dagbók. Afleiðingarnar eru afdrifaríkar en koma þó ekki í ljós fyrir en sex árum síðar þegar konan áttar sig á að rannsóknartilgáta hennar hefur í öll þessi ár verið byggð á röngum forsendum, og að ritgerðin, heilar 600 síður, er að öllum líkindum þvættingur frá upphafi til enda.
Í örvæntingu sinni grípur hún til þess eina ráðs sem virðist geta bjargað henni úr skelfilegum aðstæðum, en verknaðurinn eykur bara á hremmingar hennar og áfallið í kjölfar þessa alls verður til þess að gömul veikindi taka sig upp. Buguð og í fræðilegri sjálfheldu frestar hún námslokum og fylgir eiginmanni sínum heim til Íslands.
Þar burðast hún með leyndarmál sitt og laskaða sjálfsmynd gagnvart fjölskyldu og vinum, og tekst á við afleiðingar veikinda sinna, ofskynjanir, sem virðast þó að lokum ætla að opna henni leið út úr ógöngunum.
Kompa er skáldsaga um uppruna sögulegra heimilda og tilviljunarkennda varðveislu þeirra.

Dyngja
1.290 kr.Hvað leynist bak við bláan einkennisbúning og silkislæðu, sólbrúna húð og rauðlakkaðar neglur? Dauð rödd söguhetjunnar býður þér að kaupa tollfrjálsan varning og þegar þú afþakkar boðið heldur hún áfram ganginn með þennan klunnalega en vellyktandi vagn á undan sér. Hægt í átt að ljósinu og endalokum þeirrar undraverðu sögu sem nefnd hefur verið Dyngja. Hún hófst um miðbik 20. aldar á litlum bæ við rætur Ódáðahrauns og þaðan barst hún lengra inn í landið; frá hálendi Íslands út í geim og að lokum til tunglsins.
Sigrún Pálsdóttir lauk doktorsprófi í sagnfræði frá University of Oxford árið 2001 og hefur frá námslokum unnið við ýmsar rannsóknir og ritstjórn. Fyrri bækur hennar eru Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar (2010), Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga (2013), Kompa (2016) og Delluferðin (2019). Bækurnar hafa verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna, Menningarverðlauna DV og Viðurkenningar Hagþenkis. Delluferðin hlaut Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins 2021.

