
Ríkisfang: Ekkert
1.290 kr.Haustið 2008 flúðu átta fjölskyldur skelfilegar aðstæður í Al Waleed-flóttamannabúðunum og fengu hæli á Akranesi. Allt voru þetta einstæðar mæður með börn, af palestínsku bergi brotnar en höfðu alið allan sinn aldur í Írak. En hvað rak þær á flótta?
Sigríður Víðis kynntist konunum og sögu þeirra og fjallar hér af yfirsýn og þekkingu um landlausa Palestínumenn, innrásina í Írak, flóttamannabúðir í einskismannslandi og leiðina löngu á Skagann. Í forgrunni eru tvær þeirra kvenna sem hingað komu: Ayda sem varð að skilja elsta barnið sitt eftir í Írak og Lína sem flúði ásamt þremur ungum börnum og fann hamingjuna á ný á Íslandi.
Ríkisfang: Ekkert er einstök frásögn um pólitísk átök undangenginna áratuga í Mið-Austurlöndum og fólkið sem lifir og hrærist í skugga þeirra.
Vegabréf: Íslenskt
1.290 kr.Í Vegabréf: Íslenskt ferðast Sigríður Víðis Jónsdóttir með lesendum um heiminn, heimsækir til að mynda brunadeild á sjúkrahúsi í Afganistan, dvelur í völundarhúsi í Sýrlandi, hittir börn í gullnámu í Búrkína Fasó og kynnist flóttafólki í Suður-Súdan. Í Eþíópíu búa geimverur á Hilton-hótelinu og í Mjanmar hvíslar fólk um stjórnvöld.
Í gegnum frásagnir af fólki á hverjum stað miðlar Sigríður heimssögunni af einstakri næmni og virðingu og minnir okkur á að þrátt fyrir að höf og eyðimerkur skilji okkur að búum við öll undir sama himni, sömu sól.
