
Útreiðartúrinn
8.690 kr.Útreiðartúrinn er áhrifarík samtímasaga með djúpar rætur í fortíðinni. Þetta er saga af flóknu feðgasambandi og af vináttu sem ekki er öll þar sem hún er séð; ljúfsárt og heillandi ferðalag um gamlar og nýjar slóðir.
Sævar er myndskreytir og nýfluttur með fjölskyldu sína út á Álftanes, þar sem hann sækir myndefni sitt í lífríki fjörunnar. Hann kann strax vel við sig í kyrrðinni og náttúrufegurðinni en Pétur, sonur hans á unglingsaldri, er ósáttur við breytinguna og lengur að sætta sig við nýtt umhverfi. Pétur er mátulega búinn að eignast vini og farinn að blómstra þegar hópur drengja gerir fólskulega árás á þá félagana að kvöldlagi og slasar besta vin hans.
Lögreglan tekur í kjölfarið við rannsókn málsins en lítið gengur að upplýsa það. Sævar er bugaður af áhyggjum af syni sínum en árásin rifjar auk þess bæði upp tregablandna sumardvöl Sævars sjálfs hjá afa sínum og ömmu á nesinu á níunda áratugnum og morðmál frá 19. öld sem forfaðir hans var flæktur í. Þá skýtur skyndilega upp kollinum á netinu myndband af árás drengjanna og málið tekur óvænta og óhugnanlega vendingu.

Vetrargulrætur
990 kr.Fimm knýjandi sögur sem fara með lesandann í tímaferðalag frá samtíma aftur á átjándu öld.
Í úthverfi Reykjavíkur týnir kona barni og glímir við afleiðingar þess; ungur málari grípur til ör-þrifaráða þegar kærasta hans sekkur í þunglyndi; myndlistarkona finnur sína leið þrátt fyrir þöggun; og flóttakona frá Þýskalandi tekst á við sköpunar-kraft sinn í nýju umhverfi. Í fimmtu og síðustu sögunni, um ungling sem á sér einn draum heit-astan, birtist kjarni sagnanna fimm: Þvert á tíma og rúm eiga persónurnar það sameiginlegt að rækta drauma sína og skapa eigið líf.



Skot
1.290 kr.Ung íslensk kona, Margrét, er að vinna um nokkurra mánaða skeið í Rotterdam í Hollandi. Dag nokkurn hittir hún Arno, austrænan og heillandi karlmann, og fellur samstundis kylliflöt fyrir honum. En kynni þeirra verða endaslepp, því örfáum klukkustundum eftir fyrsta og síðasta ástarfund þeirra er hann skotinn á færi úti á götu.
Unga konan stendur ein eftir með barn Arnos undir belti og hugann fullan af spurningum. Hver skaut Arno? Hvers vegna? Hver var hann, þessi yndislegi maður? Með dyggri aðstoð kynjafuglsins og ættarfylgjunnar Bokka hefst hún handa við að raða saman brotum héðan og þaðan og kemst að niðurstöðu sem hana óraði ekki fyrir.
Þetta er spennandi og listavel skrifuð saga eftir höfund skáldsögunnar Borg sem kom út fyrir nokkrum árum og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.


