Pétur Gunnarsson fæddist 15. júní 1947 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1968 hélt hann utan til náms í Frakklandi og lauk prófi í heimspeki frá Université d’Aix-Marseille árið 1975. Fyrsta ljóðabók Péturs, Splunkunýr dagur, kom út 1973 en áður höfðu birst ljóð eftir hann í Tímariti Máls og menningar. Skáldsagan Punktur, punktur, komma, strik leit svo dagsins ljós 1976. Þorsteinn Jónsson kvikmyndaleikstjóri gerði eftirminnilega kvikmynd eftir bókinni sem naut mikilla vinsælda. Bókin var sú fyrsta af fjórum um söguhetjuna Andra en síðasta Andrabókin, Sagan öll, var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1987. Eftir Pétur liggja fleiri skáldsögur og hafa tvær þeirra verið tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Hversdagshöllin árið 1990 og Myndin af heiminum árið 2000, auk fyrra bindis ævisögu hans um Þórberg Þórðarson, ÞÞ – Í fátæktarlandi. Ævisagan öll hlaut viðurkenningu Hagþenkis árið 2009. Pétur hefur einnig fengist við þýðingar og hlaut þýðing hans á Frú Bovary eftir Gustave Flaubert Menningarverðlaun DV 1996. Hann hefur einnig þýtt hluta af verki Prousts, Í leit að glötuðum tíma. Pétur hefur sent frá sér aragrúa greina um bókmenntir og menningarmál í fagtímaritum, skrifað um þjóðmál og menningarmál í dagblöð og haldið erindi á margvíslegum vettvangi. Pétur hefur tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum m.a. í leikhúsum, sjónvarpi og útvarpi. Hann átti sæti í stjórn Alliance française á árunum 1977-1981, þar af sem forseti 1980 -1981. Hann sat jafnframt í stjórn félags áhugamanna um bókmenntir 1988–1990 og var í ritnefnd Tímarits Máls og menningar um árabil. Pétur var formaður Rithöfundasambands Íslands 2006–2010.
(Af forlagid.is)




ÞÞ – í forheimskunarlandi
1.290 kr.Ævisaga Þórbergs Þórðarsonar, skráð af rithöfundinum Pétri Gunnarssyni, hefur vakið verðskuldaða athygli. Fyrra bindi sögunnar, ÞÞ – Í fátæktarlandi, kom út árið 2007 og hlaut þá tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Seinna bindið, ÞÞ – Í forheimskunarlandi, kom út árið 2009 og seldist upp.
Í bókunum endurskapar Pétur þroskasögu Þórbergs sem rithöfundar og einstaklings. Hann leitar víða fanga, m.a. í sendibréfum, dagbókum og óútgefnu ævisöguhandriti, svo og í útkomnum verkum Þórbergs. Pétur endurskapar andrúmsloft liðinna ára og dregur upp forvitnilega og heillandi mynd af einum merkasta rithöfundi okkar sem koma mun nýjum sem gömlum aðdáendum Þórbergs á

ÞÞ – í fátæktarlandi
1.290 kr.Þórbergur Þórðarson er án efa einn fremsti höfundur íslenskra bókmennta, en það vekur furðu hve seint hann „fór í gang“. Hann er orðinn 36 ára þegar Bréf til Láru kemur út og stendur á fimmtugu þegar hans fyrsta eiginlega skáldverk, Íslenskur aðall, lítur dagsins ljós.
Hvað hafðist hann að fram að því? Hann háði löngum tvísýna glímu við sárustu fátækt, gaf sig allan á vald háleitustu hugsjónum og átti í litríkum ástarævintýrum.
Í ÞÞ – í fátæktarlandi endurskapar Pétur Gunnarsson þroskasögu Þórbergs og leitar víða fanga, ekki aðeins í útkomnum verkum heldur líka ríkulegu óbirtu efni: sendibréfum, dagbókum og óútgefnu ævisöguhandriti. Hér er dregin upp mynd sem á eftir að koma nýjum sem gömlum aðdáendum Þórbergs á óvart.







