
Kvæði ’84
1.490 kr.Í einni af fyrri ljóðabókum sínum segir Kristján Karlsson að „kvæði sé hús sem hreyfist“.
Hann hefur ennfremur látið svo um mælt að kvæði eigi hvorki að vera flöt rökræða né blaut dula, það verður að rísa af pappírnum af eigin rammleik. Ef það gerir það ekki væri efni þess betur komið í öðru formi. Hugsun kvæðis og tilfinning er ekkert annað en kvæðið sjálft: hús þess.
Kristján Karlsson er eitt af sérstæðustu skáldum samtímans, ef til vill nokkuð seintökinn, en þeim mun stórkostlegri við nánari kynni. Ljóðagerð hans verður sennilega ekki lýst öllu betur í örfáum orðum en með þessum ljóðlínum úr síðustu bók hans, – NEW YORK:
Ljóðið ræður, þess ræða er frjáls
þess rök skulu geyma yður litla stund.
Kvæði 90
1.490 kr.Kvæði 90, sjötta ljóðabók Kristjáns Karlssonar, er kvæðaflokkur sem ber heitið Engey í þröngum glugga, og vísar það til þess sviðs sem á er horft.
Kvæðin mynda sterka heild þar sem uppistaðan er útsýni frá Reykjavík og grennd. Efnið er sett fram í litsterkum myndum og út frá þeim hrannast minningar fjölbreyttrar ævi sem einnig stíga fram í myndum og líkingum.
Hvað úr hverju, smám saman eða allt í einu muntu verða til, tvö forvitin augu
sem koma í ljós einhvern góðviðrisdag við sjó
2
marglitir veggsteinar týndra borga
liggja á víð og dreif í bláum sandi
og ambergris, grár klumpur mör búrhvalsins og
3
festi í ilmvötn virði milljóna grotnar
undir bakka en uppi yfir hring-
sólar mávurinn vængjaður óstillandi grun
(Þrjú fyrstu erindin úr kvæðinu Brim.)
Kvæði 92
1.490 kr.Í þessari bók leggur Kristján Karlsson meiri áherzlu á fjölbreytni en í nokkurri af fyrri bókum sínum allt frá hógværu og nákvæmu raunsæi til óhefts hugmyndaflugs. Samt liggur einn rauður þráður í gegnum þessa bók því að kvæði eftir kvæði fjallar um eðli og gildi skáldskaparins sjálfs í margskonar myndum og ýmist í gamni eða alvöru. Þessi kvæði binda bókina saman þrátt fyrir óvænt tilbrigði forms og efnis.
