
Heiðmyrkur
5.990 kr.Áratug eftir atburði Svikabirtu sækja illir draumar á Dimmbrá. Djúpt í iðrum jarðar kynnist hún leyndustu kimum seiðsins. Hnikar reikar um heimskautið uns hann finnur ný heimkynni langt í suðri; óafvitandi kallar hann Dimmbrá til sín með ófyrirséðum afleiðingum. Indra vex úr grasi á Bifröst uns hún stígur niður, þess albúin að leggja jörðina að fótum sér. Í bakgrunni er uppruni stjarneyga fólksins, útdauði mannkynsins og endalok skuggabrúarinnar.
Í Heiðmyrkri lýkur Ingi Markússon sögunni sem hófst með Skuggabrúnni og hélt áfram í Svikabirtu, bókum sem vakið hafa verðskuldaða athygli og lof. Heiðmyrkur bindur þríleikinn saman í myrkri frásögn á mörkum fantasíu og vísindaskáldskapar – sögu um vináttuna og hefndina; lífið og eilífðina; vitundina og vélina; ljósið, myrkrið og skugga mannsins.

Svikabirta
4.990 kr.„Á ísbreiðunni ofan við þorpið læddist skuggi …“
Fáeinum árum eftir að himnarnir opnuðust eru grimmileg morð framin á heimskautinu. Sú eina sem getur stöðvað morðingjann er máttug norn sem er fangelsuð í fjarlægu landi.
Agni, listhagur pörupiltur í neðanjarðarborginni Neðra, leggur á flótta eftir að hafa verið dæmdur til dauða. Brátt flækist hann í ógnvænlega atburðarás og tekst á hendur ferðalag yfir íshelluna í von um að kaupa frelsi nornarinnar og binda enda á illvirkin – en skugginn sem læðist er ávallt skrefi á undan.
Örlög stjarneyginganna Dimmbrár, Hnikars og hrafnsins Uglu, sem lesendur skildu við þegar Skuggabrúin féll, fléttast með óvæntum hætti inn í sprennuþrungna og myrka frásögn sem heldur lesendum föngnum frá upphafi til enda.
Í Svikabirtu dregur Ingi Markússon lesendur enn lengra inn í hélaðan heiminn sem hann skóp með fyrstu skáldsögu sinni, Skuggabrúnni, sem vakti mikla athygli og einróma lof gagnrýnenda. Svikabirta er morðsaga á mörkum fantasíu og vísindaskáldskapar, ætluð jafnt ungmennum sem fullorðnum – saga um líf og dauða; ljós og myrkur; trú, von og hefnd.

Skuggabrúin
4.990 kr.Í fjarlægri framtíð, á ísilagðri jörð, hafa allar stjörnurnar slokknað nema ein; án hennar væri vetrarmyrkrið algert.
Þegar síðasta stjarnan hverfur verða Dimmbrá og Hnikar viðskila og hrekjast á flótta um heimskautið. Ekki er allt sem sýnist og alls staðar grúfir myrkrið yfir, hyldjúpt og kalt. Hvað varð um stjörnuna, hvernig tengist hún skuggabrúnni – verður hægt að afstýra almyrkva?
