Hallgrímur Helgason er þúsundþjalasmiður í íslensku menningarlífi og hefur komið við í ýmsum kimum bókmenntanna auk þess að stunda myndlist og samfélagsumræðu. Hann lærði myndlist í Reykjavík og München og hefur frá árinu 1982 starfað sjálfstætt sem myndlistarmaður og rithöfundur. Fyrsta skáldsaga Hallgríms, Hella, kom út árið 1990 og síðan hefur hann sent frá sér fjölda skáldsagna auk leikrita, ljóðabóka og þýðinga. Skáldsögur hans hafa komið víða út erlendis, verið kvikmyndaðar og settar á svið. Nýjasta skáldsaga hans, Sextíu kíló af kjaftshöggum, er sjálfstætt framhald sögunnar af Gesti Eilífssyni í Segulfirði; Sextíu kíló af sólskini – þar lýsir Hallgrímur ferðalagi Íslendinga úr myrkum torfgöngum inn í raflýstar stofur og þaðan beint í dans á síldarpalli með tilheyrandi kossum og kjaftshöggum. Örlagasaga Gests hefur hitt lesendur í hjartastað og bækurnar notið mikilla vinsælda. Hallgrímur hefur hlotið ófáar viðurkenningar á ferli sínum sem rithöfundur. Árið 2021 var hann sæmdur Heiðursorðu Frakka fyrir framlag sitt til lista og bókmennta, hefur þrisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og bæði fengið Íslensku þýðingarverðlaunin og Íslensku hljóðbókaverðlaunin. Þá hefur hann hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin þrisvar sinnum, fyrir Höfund Íslands 2001, Sextíu kíló af sólskini 2018 og Sextíu kíló af kjaftshöggum 2021.
(Af forlagid.is)


Drungabrim í dauðum sjó
8.690 kr.Hallgrímur Helgason, okkar þróttmikla þjóðskáld, hefur tekið saman kvæðasafn safn háttbundinna ljóða sinna frá síðustu kvartöld. Hér mætast hið persónulega og pólitíska, innileiki og ádeila, mýkt og harka í skáldskap sem kviknar jafnt af barneignum og jarðarförum sem og bankahruni og þjóðarmorði. Skáldið bruggar seið úr hefðum fortíðar og kenndum samtíðar og blandar ýmist með húmor eða trega. Bókin er ríkulega myndlýst af Hallgrími sjálfum.

Sextíu kíló af kjaftshöggum
990 kr.Annað bindið í Sextíu kílóa sögu Hallgríms Helgasonar um síldarævintýrið á Segulfirði og fylgifiska þess.
Sagan hefst í Segulfirði, árið 1906. Áfram vindur furðuríku ferðalagi Íslendinga út úr myrkum torfgöngum inn í raflýstar stofur. Lesandinn er hrifinn með í dans á síldarpalli, í ólgandi takti sem dunar í huganum að lestri loknum því enn á ný hefur Hallgrími tekist að kveða dýran óð úr örlögum fátæks fólks við ysta haf.











