
Skáldalíf: ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri
1.990 kr.Eiga þeir nokkuð sameiginlegt, heimsmaðurinn Gunnar Gunnarsson og heimalningurinn Þórbergur Þórðarson? Annar skrifaði bækur á dönsku sem þýddar voru á fjölmörg tungumál; bækur hins voru vel varðveitt leyndarmál á fátalaðri tungu landsmanna. Annar spurði stórra spurninga um tilvist mannsins; hinn var annálaður húmoristi og ólíkindatól.
En þeir voru báðir íslenskir bændasynir, nánast jafnaldra, og þá dreymdi stóra drauma um eigin framtíð og þjóðarinnar. Þeir tóku trú á erlenda stríðsherra, hvorn af sinni stjórnmálastefnu og fór sú trú illa með þá. En báðir höfðu afgerandi áhrif á þróun íslenskra bókmennta.
Halldór Guðmundsson dregur upp einstæða mynd af þessum tveim rithöfundum í samhliða ævisögum þeirra. Hér segir frá æsku og uppvexti, erfiðum sveltiárum og örlagaríkum ástarsamböndum, þrá eftir sveitinni, heimsreisum og endurkomu. Með því að láta þá varpa sterku ljósi hvorn á annan fæst mynd af hvorum um sig sem aldrei hefur áður sést.
Tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2006.


Skáldið og ástin
1.290 kr.Litla stúlka – þú getur kveikt í sígarettunni minni með augunum!
Þetta voru fyrstu orðin sem Halldór Laxness sagði við Ingibjörgu Einarsdóttur, á Þingvöllum sumarið 1924 – og stúlkan lét heillast af rithöfundinum orðfima. Smám saman varð til ástarsamband og þegar Halldór hélt til dvalar í Ameríku um mitt ár 1927 mátti heita að þau væru trúlofuð. Bréfin lýsa ótrúlegum metnaði Halldórs og vinnusemi, en líka kvíða hans og áhyggjum og um leið þróun ástar þeirra Ingu sem leiddi til þess að þau giftu sig þann 1. maí 1930; hjónabandið hélst í tíu ár.
Á þessum árum, sem jafnframt eru afkastamesti tími Halldórs sem rithöfundar, skrifar hann Ingu næstum 180 bréf. Um þau segir í inngangi:
„Lesendur þekkja það sem hann birti opinberlega en hér má lesa skrif hans sem ekki var ritstýrt fyrir opinberan vettvang; metnaður hans nakinn, dugnaður hans og sjálfsagi, listræn viðhorf og pólitískar hugsjónir, og alltaf í bakgrunni ástarsamband sem sveiflast milli stríðni og einlægni, afbrýðisemi og þrár, trúnaðar og hálfsannleika, eins og ástarsambönd gera.“
Einar Laxness, sonur Halldórs og Ingu, og Halldór Guðmundsson önnuðust útgáfuna.

