



Tengdadóttirin I – Á krossgötum
1.290 kr.Þorgeir Þorgeirsson, ungur sjómaður að sunnan, ræður sig sem vinnumann á prestssetur í blómlegri norðlenskri sveit. Hann hrífst af fallegustu vinnukonunni á bænum en hikar við að bindast henni af því að hann hræðist líf í fátækt. Á heimleið um haustið leysir hann af slasaðan vinnumann á stórbýlinu Hraunhömrum. Bóndinn þar á tvær dætur og sú eldri, Ástríður, er harðákveðin í að sleppa Þorgeiri ekki aftur suður. Þótt Ástríður sé röggsöm og forkur til vinnu er hún ekki heillandi kona – en auður föður hennar freistar.
Í Tengdadótturinni, sem kom fyrst út 1952–54 í þremur bindum og átti miklum vinsældum að fagna, segir frá ástum og örlögum jafnt sem daglegu lífi til sveita í byrjun 20. aldar. Guðrún frá Lundi hefur einstakt lag á að gæða persónur sínar lífi svo að lesandinn hverfur um hundrað ár aftur í tímann. Á krossgötum er fyrsta bókin í þessum magnaða flokki en nýrrar útgáfu hefur verið beðið lengi.

Dalalíf V – Logn að kvöldi
1.290 kr.„Komdu til mín, Þórður. Lofaðu mér að reyna að bæta svolítið fyrir það sem ég hef gert þér illt.“
Í þessu lokabindi Dalalífs hnýtir Guðrún frá Lundi endahnúta síns mikla verks og fylgir öllum helstu söguhetjum sínum í heila höfn. En hér er líka ný aðalpersóna, Dísa, dóttir Ketilríðar og Páls Þórðarsonar og fósturdóttir hjónanna á Nautaflötum. Þrátt fyrir gott atlæti getur hún ekki stillt sig um slúður og illmælgi frekar en móðir hennar, og það dregur dilk á eftir sér.
Dalalíf er einn voldugasti sagnabálkur sem saminn hefur verið á íslensku, ríflega tvö þúsund blaðsíður, iðandi af lífi og ólgandi fjöri. Aldrei hefur hversdagslífi í íslenskri sveit á fyrri tímum verið gerð betri skil og við það bætast tugir minnisstæðra persóna sem lesanda finnst hann að lokum þekkja eins og sjálfan sig.

Dalalíf IV – Laun syndarinnar
1.290 kr.„Vetrarnóttin, kolsvört og draumarík, hefur alltaf verið hjálpleg ófrjálsum ástum og kitlandi ástríðum.“
Lína á ekkert mótstöðuafl til gagnvart elskhuga sínum, glæsimenninu Jóni á Nautaflötum. En þegar hún verður barnshafandi þarf að bjarga málum tafarlaust svo að Anna Friðriksdóttir frétti ekki af hjúskaparbrotinu. Lína stingur sjálf upp á því að giftast Dodda, vitgranna bóndanum á Jarðbrú; hún kýs frekar þann versta en þann næstbesta.
Dalalíf Guðrúnar frá Lundi afhjúpar miskunnarleysi íslensks samfélags á fyrri öldum þegar konum hefndist grimmilega fyrir ástir í meinum. Hún dregur líka upp skýra mynd af veikluðu frúnni á höfuðbólinu og átök þeirra kvennanna verða öllum ógleymanleg. Guðrún hóf rithöfundarferil sinn seint en varð fljótt einn vinsælasti höfundur landsins.

Dalalíf II – Alvara og sorgir
1.290 kr.„Það er ekki svo langt lífið að maður þurfi að neita sér um það sem maður þráir mest.“
Þetta sagði Jón á Nautaflötum við æskuunnustuna Þóru í Hvammi undir lok fyrsta bindis Dalalífs. Þó að hann sé kvæntur annarri konu finnst honum ekki að hann þurfi að neita sér um lífsins lystisemdir. Til að verjast ásókn Jóns ræður Þóra til sín dugandi vinnumann og sveitin logar af sögum.
Dalalíf Guðrúnar frá Lundi heillar enn, sjötíu árum eftir að sagnabálkurinn hóf göngu sína. Myndin sem höfundur dregur upp af ólíkum lífskjörum og ólíkum hjónaböndum í öðru bindi er skýr og áhrifamikil. Guðrún sendi frá sér sextán skáldsögur alls, sumar í mörgum bindum, og var áratugum saman einn alvinsælasti höfundur landsins.





