
Missir
990 kr.Hvert leitar hugurinn þegar komið er á leiðarenda og fátt er framundan nema eilífið sjálf? Til liðinnar tíðar … sem geymir misfagrar minningar.
Ekkert rífur þögnina nema miskunnarlaust suðið í katlinum, hversdagslegur undirleikur við uppgjör einmana manns við tilveru sína, ástina eða ástleysið sem nær yfir mörk lífs og dauða – og ellina, það hlutskipti sem allra bíður þegar líkaminn hrörnar og þrekið þverr.
Guðbergur Bergsson veitir hér ögrandi og óvænta sýn inn í þá hversdagsheima sem allir þekkja en hver og einn fetar á sinn einstaka hátt. Missir er saga sem afhjúpar einstaklinginn gagnvart óhjákvæmilegum örlögum sínum.
Valin besta bók ársins 2010 af gagnrýnendum Morgunblaðsins, Kolbrúnu Bergþórsdóttur og Árna Matthíassyni: „Guðbergur hefur hér meistaraleg tök á efninu og frásögninni allri. Missir er tvímælalaust eitt af hans áhrifameiri verkum, knappt og meitlað og vekur lesendann til umhugsunar.“

Þrír sneru aftur
1.290 kr.„Menn leita að orku í stríði og friði, lífið þrífst á orkunni í okkur sjálfum og í náttúrunni, sagði gamli maðurinn vesældarlega.“
Á einangraðan stað suður með sjó, þar sem aldrei gerist neitt, berast fregnir af átökum heimsstyrjaldarinnar. Fyrr en varir hefur atburðarásin teygt anga sína þangað og nútíminn heldur innreið sína með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Höfundur dregur upp hárbeitta mynd af samfélagi á tímamótum; af eilífri baráttu manneskjunnar fyrir tilveru sinni, glímunni við fáfræði og fásinni, sannleika og lygi, heimsku og græðgi.
Og sagan endurtekur sig stöðugt við nýjar og breyttar aðstæður, kynslóðir koma og fara … en ættarfylgjan lætur ekki að sér hæða, enginn flýr frá sjálfum sér.
Guðbergur Bergsson hefur skrifað fjölmargar bækur, þýtt öndvegisrit og ritað greinar í blöð og tímarit. Hann hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin og verðlaun Sænsku bókmenntaakademíunnar.
Guðbergur Bergsson lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona 1958. Fyrsta bók hans, Músin sem læðist, kom út 1961. Hann hefur skrifað barnabækur, ljóð, smásögur, skáldsögur, skáldævisögur og greinar um bókmenntir, listir og þjóðfélagsmál í dagblöð og tímarit bæði hér á landi og í útlöndum. Hann er afkastamikill þýðandi og hefur átt sinn þátt í því að kynna fyrir Íslendingum spænskar og portúgalskar bókmenntir. Margar bækur Guðbergs hafa verið þýddar á erlend tungumál.

Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans
1.290 kr.Þetta er saga af nokkrum framsæknum nútíma Íslendingum sem lenda í ýmsum ævintýrum en bjargast úr hverjum háska með þjóðlegu hugviti og hreysti.
Langt er síðan Guðbergur Bergsson skipaði sér í röð allra fremstu rithöfunda þjóðarinnar, og verk hans hafa notið mikillar hylli. Þessi bók er nýr sproti á þeim meiði. Persónurnar hafa ekki birst áður í bókum Guðbergs og stíllinn er nýr. Spurning er hvort skáldgáfa hans nýtur sín ekki einmitt best í þeim ærsla- og fjarstæðustíl sem hér er að finna.


Ævinlega
1.290 kr.Vífill gullsmiður er ókvæntur maður á miðjum aldri sem hefur ekki gengið í hjónaband af því hann þráir að elska manneskju aðeins einu sinni, ævilangt á meðan lífið endist, en ekki fundið hana, eins og segir í sögunni. Dag einn þegar Vífill er á gangi á Laugaveginum, birtist ljóslifandi konan sem hann hafði geymt í hjarta sínu í fjörutíu ár. Það virðist deginum ljósara að fundur þeirra tveggja er upphafið að hamingjuríkri sambúð og ævilöngu hjónabandi – og hefst þar með kostuleg frásögn af kynnum hjónaleysanna, ferð þeirra í Bláa lónið og til Grindavíkur í heimsókn til frænku.
Guðbergur Bergsson fer á kostum í lýsingu sinni á samskiptum og sambúð kynjanna. En ekki er allt sem sýnist og bak við grínið og háðið leynist saga af leit manneskjunnar að ást og hamingju.


Vorhænan og aðrar sögur
1.290 kr.Með þessu smásagnasafni kemur Guðbergur Bergsson lesendum enn einu sinni í opna skjöldu með hugmyndaflugi og efnistökum.
Hér má lesa um ævintýralegan fund persónu við sitt innra líf, uppákomu sem Guðbergur hefur löngum gert óviðjafnanleg skil. Og um vorhænu sem ferðast í lest frá Portúgal til Spánar.
Guðbergur hefur sett mark sitt á íslenskar bókmenntir í fjóra áratugi og rutt nýjar brautir í íslenskri skáldsagnaritun. Bækur hans hafa komið út víða um heim og hlotið afburða viðtökur. Skáldsagan Svanurinn hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1991 og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993.

Missir
2.990 kr.Bókin er gefin út í þúsund tölusettum og árituðum eintökum. Henni fylgir geisladiskur með upplestri höfundar á verkinu.




