
Líf
8.490 kr.Fjölskyldufaðir finnst látinn á heimili sínu í Grafarholti og virðist hafa fallið fyrir eigin hendi. En við krufningu kemur í ljós örlítið frávik. Smávægilegt ósamræmi sem breytir öllu.
Guðrún Ýr Ingimarsdóttir rannsóknarlögreglumaður fær málið í sínar hendur. Hún er eldskörp og hröð í hugsun, en líka þrjósk og rekst gjarnan á veggi innan kerfisins.
Í ljós kemur að þetta mál er aðeins upphafið að miklu stærri ráðgátu. Þræðirnir liggja inn í heim valda, spillingar og leyndarmála sem einhver er tilbúinn að verja með blóði. Í skuggunum bíður sá sem skilgreinir morð ekki sem glæp, heldur list.
Líf er ófyrirsjáanlegur sálfræðitryllir sem kafar djúpt í myrkustu afkima mannlegs eðlis. Reynir Finndal Grétarsson leiðir lesandann inn í hugarheim þar sem sannleikurinn er aldrei einfaldur og siðferði er afstætt. Lesandinn er orðlaus að lestri loknum.

Fjórar árstíðir – sjálfsævisaga
7.990 kr.Reynir Finndal Grétarsson ólst upp við að þurfa að standa sig. Sem stofnandi og stjórnandi Lánstrausts, síðar Creditinfo, byggði hann frá grunni upp öflugt alþjóðlegt fyrirtæki sem stóð af sér risavaxnar sviptingar. En eitthvað vantaði.
Við lítum í baksýnisspegilinn með Reyni, sem segir sögu sína af fágætri einlægni. Þetta er saga um venjulegan strák frá litlu þorpi á Norðurlandi, sem gerir stundum óvenjulega hluti. Viðskiptasaga, saga af andlegum áskorunum og ástarsaga. Fólkinu sem bregður fyrir er jafnan lýst af innsæi. Ekki síst Reyni sjálfum.
Gefur það starfsævinni meiri merkingu að gera sjálfan sig óþarfan? Er betra fyrir sálina að smíða hús á Blönduósi en að sitja að veisluborðum með milljarðamæringum og þjóðhöfðingjum? Er betra að græða sár en peninga? Er hægt að finna slóða þegar vegurinn virðist ekki ná lengra? Er skemmtilegra að safna landakortum en greiðslukortum? Er hægt að finna nýjan tilgang og gerast rithöfundur?
Fjórar árstíðir er þroskasaga um andríkan harðhaus sem lærði að sleppa tökunum.

Don Juan
9.890 kr.Don Juan er piltur af spænskum lágaðli alinn upp af strangri og siðavandri móður. Eftir að hafa valdið safaríku hneyksli á heimaslóð er hann sendur úr landi sér til betrunar. Hann lendir í miklum ævintýrum: sjávarháska á Miðjarðarhafi, ástarævintýri á grískri eyju, er seldur á þrælamarkaði í Konstanínópel einni eiginkonu soldánsins á laun henni til holdlegra þarfa, tekst að flýja, gengur til liðs við her Katrínar miklu Rússlandsdrottningar og verður eftirlætiselskhugi hennar um hríð. Hún gerir hann út sem sérlegan sendiherra til Englands.
Um þetta allt og miklu fleira yrkir Byron lávarður í þessu verki. Hann tvinnar saman eigin lífsreynslu og ævintýri Dons Juans og prjónar við sínar meinhæðnu athugasemdir um menn og málefni eins og honum var einum lagið.

Hin helga kvöl
8.490 kr.Hin helga kvöl er þrettánda bókin um rannsóknarlögreglumanninn sérlundaða Hörð Grímsson, sem hefur fyrir löngu skipað sér í hóp allra vinsælustu skáldsagnapersóna samtímans.
Lík af karlmanni finnst skammt frá Reykjanesbraut og Hörður Grímsson er kallaður á vettvang. Líkið reynist vera af fyrrverandi sjómanni sem hafði misst tökin á tilveru sinni í kjölfar alvarlegs vinnuslyss. Ýmislegt bendir til þess að dauða hans hafi borið að með saknæmum hætti. Hinn látni skuldaði hættulegum manni í undirheimunum og var hundeltur.
Heimspekineminn Indriði Thorarensen heillast af ungri konu sem hann spjallar við í flugvél á leiðinni heim til Íslands frá París. Hann veit ekki hvað konan heitir og missir sjónar á henni eftir að vélin lendir í Keflavík. Indriði býst við að gleyma henni en þess í stað fær hann þráhyggju og fer að leita konunnar, sem hann veit nánast ekkert um.
Hörður kemst að því að hinn látni hringdi í Neyðarlínuna skömmu áður en hann var myrtur. Svo virðist sem hann hafi orðið vitni að alvarlegri árás á unga konu, jafnvel morði. Hörður vill kanna þetta nánar en yfirmaður hans fullyrðir að símtalið hafi verið misskilningur eða gabb, lögreglan hafi þegar kannað málið og engrar konu sé saknað.
Hörður er ekki sáttur og ákveður að óhlýðnast yfirboðara sínum. Hann er þrjóskur sem naut og vanur að fara sínar eigin leiðir.

