
Eftirför
4.590 kr.„Þögnin var nánast áþreifanleg. Það eina sem heyrðist í þröngu og skítugu rýminu var hans eigin andardráttur sem hljómaði skyndilega framandi, eins og hann tilheyrði einhverjum öðrum. Svona var þá tilfinningin að vera bjargarlaus.“
Þegar fjölskyldufaðirinn Hallur hverfur sporlaust stendur lögreglan ráðþrota gagnvart kaldri slóð. Það er ekkert sem gefur til kynna að hann hafi verið flæktur í neitt misjafnt og langþráð vetrarfrí fjölskyldunnar breytist skyndilega í martröð. Það er engu líkara en að jörðin hafi gleypt hann. Gæti hvarfið tengst dularfullu skilaboðunum sem Selmu, eiginkonu hans, hafa borist að undanförnu?
Lögfræðingurinn Hrefna er komin í starf hjá lögreglunni og þetta mannshvarf ætlar ekki að reynast auðleyst. Angar þess teygja sig víða og lögreglan þarf að hafa sig alla við í kappi við tímann þar sem hver klukkustund telur.
Eftirför er önnur skáldsaga Önnu Rúnar Frímannsdóttur en sú fyrri, Dauðaþögn, hlaut frábærar viðtökur lesenda.

Margrét Lára – Ástríða fyrir leiknum
7.790 kr.Margrét Lára Viðarsdóttir er meðal fremstu íþróttamanna sem Ísland hefur alið. Hún er markahæsti landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu frá upphafi og spilaði í sterkustu deildum heims. Hér segir Margrét Lára sögu sína og deilir reynslu sinni og góðum ráðum. Hún gerir ferilinn upp og segir á einlægan hátt frá sigrum og mótlæti.
Margrét Lára Viðarsdóttir er meðal fremstu íþróttamanna sem Ísland hefur alið. Hún er markahæsti landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu frá upphafi en hún lék sinn fyrsta A-landsleik 16 ára gömul og sinn fyrsta meistaraflokksleik með ÍBV þegar hún var einungis 14 ára. Margrét Lára hélt í atvinnumennsku þar sem hún spilaði í sterkustu deildunum og með einu besta félagsliði heims. Á ferli sínum varð hún landsmeistari í þremur löndum, var kjörin íþróttamaður ársins, spilaði á stórmótum með landsliðinu, varð þrívegis markahæst í Meistaradeildinni og fjórum sinnum útnefnd knattspyrnukona ársins. Margrét Lára skoraði með sinni fyrstu og síðustu snertingu í leik með íslenska landsliðinu og ruddi brautina fyrir ungar knattspyrnukonur, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim.
Í bókinni segir Margrét Lára sögu sína og deilir reynslu sinni og góðum ráðum. Hún gerir ferilinn upp og segir á einlægan hátt frá sigrunum og mótlætinu, samherjum og mótherjum, lífinu eftir fótboltann og síðast en ekki síst ástríðunni fyrir leiknum.

Sögurnar okkar – 11 norrænar smásögur
5.390 kr.Í þessari bók má finna fjölbreyttar smásögur fyrir börn og ungmenni eftir eftirtektarverða höfunda frá Norðurlöndunum. Sögurnar fjalla allar á einn eða annan hátt um vináttu, samskipti og allar þær margvíslegu tilfinningar sem fylgja því að vaxa úr grasi. Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir skrifar framlag Íslands í bókina.

Grænland og fólkið sem hvarf
6.390 kr.Hvað varð af norrænu byggðinni á Grænlandi sem hvarf með dularfullum hætti fyrir 500 árum? Hér er reynt að ráða gátuna auk þess sem rýnt er í sögu landsins frá komu danskra nýlenduherra, mikilla þjóðfélagsbreytinga á 20. öld og svo umsvifum Bandaríkjanna eftir síðari heimsstyrjöld og fram á okkar daga. Aðgengilegt sagnfræðirit og ferðasaga í bland.
Árið 1408 var brúðkaup haldið í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi. Í kjölfarið héldu brúðhjónin til Íslands og hefur ekki spurst til byggðar norrænna manna á Grænlandi síðan. Þremur öldum síðar kom danski presturinn Hans Egede til landsins í leit að afkomendum norrænna manna. Þeir fundust ekki en Danir tryggðu sér yfirráð yfir eyjunni, sem með einhverjum hætti standa enn. En hvað varð af þessu samfélagi norrænna manna á Grænlandi sem hafði fyrirfundist í næstum 500 ár?
Sagnfræðingurinn Valur Gunnarsson veltir hér upp ráðgátunni um þetta dularfulla hvarf heillar siðmenningar. Sagt er frá byggð norrænna manna á miðöldum, allt frá Eiríki rauða til brúðkaupsins í Hvalseyjarkirkju. Einnig er saga landsins fram á okkar daga rakin. Grænland sem hluti af nýlenduveldi Dana, þjóðfélagsbreytingarnar miklu á 20. öld, umsvif Bandaríkjamanna sem hófust í síðari heimsstyrjöld og hin ýmsu hneykslismál sem hafa flækt samband Grænlands og Danmerkur undanfarið.
Valur dvaldi á Grænlandi og skoðaði þar fornminjar jafnt sem að taka heimamenn tali og dvaldi auk þess á hreindýrabúi um stund. Bókin er aðgengilegt sagnfræðirit og ferðasaga í bland eins og höfundar er von og vísa.

Sjáandi
7.790 kr.Þegar dularfull spákona úr austri birtist í friðsælum dal í íslenskri sveit fara ævintýralegir hlutir að gerast og allt sem áður var fer úr skorðum. Saman við komu spákonunnar fléttast barátta kotbænda við auðvaldið úr nærliggjandi kaupstað, hrifnæmni fjósastráks, forboðnar ástir heimasætu og förukona sem enginn veit hvort er að koma eða fara.
Ester Hilmarsdóttir er bóndadóttir úr Aðaldal. Hún hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna fyrir ljóðabók sína Fegurðin í flæðinu en Sjáandi er fyrsta skáldsaga hennar. Hún segir frá uppvexti, ást sem er alheimsfasti, vaxtarverkjum nýrra tíma, samstöðu og baráttu fyrir afkomu og verndun náttúrunnar. Harmur og húmor liðast um söguna líkt og áin sem rennur um dalinn – stundum gjöful en stundum brigðul, þar sem auðvelt er að festast í slýinu og missa fótanna.

Heimsins besti dagur í helvíti
6.890 kr.„Ég get skipt lífinu upp í þrjá kafla.
Fyrir, eftir og ferðalagið þar á milli.“Þegar Lilja Ósk flækir fæturna í hundabúri í miðju matarboði og dettur á höfuðið er hún sannfærð um að hún muni jafna sig fljótt og örugglega, enda hefur hún hvorki tíma né þolinmæði til annars. Raunin verður þó önnur. Hvað tekur kona til bragðs sem týnir sjálfri sér? Hvenær ætli heimsins besti dagur í helvíti komi?
Hrá, einlæg, átakanleg og á köflum fyndin frásögn af því hvernig lífið getur breyst á einu andartaki.

Ísbirnir
8.490 kr.Það er órói í samfélaginu. Eitthvað slæmt liggur í loftinu. Þegar Dagbjört, samfélagsmiðlastjarna í blóma lífsins, hverfur sporlaust þarf Guðgeir að hafa sig allan við að leysa málið. Hver klukkustund telur og eftir því sem líður á rannsóknina rætist versta martröð lögreglunnar. Hvarf Dagbjartar er ekki einangrað tilvik.
„Það var gripið fast um axlir hennar. Hún fann heitan másandi andardrátt við hálsinn. Klær klipu í holdið. Rispuðu og rifu í það. Sársaukinn var nístandi sár en Dagbjört streittist á móti af öllu afli. Hún var sterk, fann fyrir hverjum vöðva líkamans en allt kom fyrir ekki. Hrammarnir þrýstu henni niður, neglurnar boruðu sig inn fyrir húðina. Hún var keyrð niður í gólfið af villidýri.“
Ísbirnir er níunda bók Sólveigar Pálsdóttur en bækur hennar hafa komið út í nokkrum löndum og hlotið mikið lof. Sólveig hlaut Blóðdropann, hin íslensku glæpasagnaverðlaun, fyrir bók sína Fjötrar. Sama ár var hún útnefnd bæjarlistamaður Seltjarnarness, fyrst rithöfunda.





