• Fjallkirkjan

    Fjallkirkjan

    Fjallkirkjan – sagnabálkurinn um Ugga Greipsson – er höfuðverk Gunnars Gunnarssonar og eitt af meistaraverkum norrænna nútímabókmennta. Þýðing Halldórs Laxness birtist upphaflega á íslensku fyrir rúmlega hálfri öld og hefur verið ófáanleg um langt skeið. Gunnar Gunnarsson yngri myndskreytti Fjallkirkjuna, en margar af myndum hans við söguna birtast nú á bók í fyrsta sinn.

    „Hugblærinn er hrifvaldur þessarar bókar frá upphafi til enda. Og þessum blæ, sem sífelt skiftir lit eftir efninu, er í bókinni ætlað hlutverk sem önnur áhrifabrögð gegna í venjulegri sagnagerð, þeirri sem bókvísi mundi kalla sígilda. Þetta hugarástand sem höfundur er í sjálfur, og vekur um leið í hverjum næmum lesanda, ber einkenni þess sem á voru máli mundi vera kent við seið og töfur: „fögur var sú kveðandi að heyra.“

    Hinn einstæði hæfileiki skáldsins til að ljá dauðu sem kviku sinn sérstaka andblæ, mér er nær að segja andrúmsloft, er leyndardómur þessa skáldskapar og um leið svar við því, hverju sæti að slíkur höfundur varð höfuðskáld.“

    Halldór Laxness

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Hvítt haf

    Hvítt haf

    Hvítt haf lýsir á meistaralegan hátt örlagaríkum tíma í sögu Noregs. Bókin er sjálfstætt framhald sögunnar Hin ósýnilegu sem hefur hlotið mikið lof.

    Árið 1944 hafa Þjóðverjar hertekið Noreg. Ingrid snýr aftur til æskustöðva sinna á Barrey sem hefur verið auð og yfirgefin. Hún býr sig undir kulda og einsemd vetrarins því hún þekkir eyjalífið. Fljótlega kemst hún þó að því að hún er ekki ein á eyjunni og á óvæntan hátt kemur ástin inn í líf hennar nokkrar kaldar vetrarvikur.

    Roy Jacobsen hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars tvisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Árið 2017 hlaut hann, fyrstur norskra rithöfunda, tilnefningu til alþjóðlegu Man Booker-verðlaunanna fyrir Hin ósýnilegu, en sú bók hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál og kom út á íslensku 2019.

    Jón St. Kristjánsson þýddi.

    990 kr.
    Setja í körfu
  • Hin ósýnilegu

    Hin ósýnilegu

    Hin ósýnilegu er sterk og áhrifamikil saga um horfinn veruleika, hugdirfsku og fagra en óblíða náttúru.

    Ingrid elst upp á lítilli eyju við strönd Norður-Noregs snemma á síðustu öld. Heimur hennar er Barrey og fjölskyldan – foreldrar hennar, afi og frænka, litli frændinn, húsdýrin, fuglarnir, fiskarnir, stormar, ís og sjór. Einangruð veröld þar sem gestir gægjast þó af og til inn. Lífsbaráttan er hörð en fólkið á sínar vonir og framtíðardrauma. Faðirinn vill koma upp bryggju til að tengja eyna við umheiminn en náttúruöflin eru á öðru máli. Og svo taka óblíð örlögin í taumana og Ingrid þarf að berjast til að bjarga eynni sem hún hélt að hún gæti yfirgefið.

    Norski rithöfundurinn Roy Jacobsen hefur tvívegis hlotið tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir verk sín. Hin ósýnilegu var tilnefnd til alþjóðlegu Man Bookerverðlaunanna 2017, fyrst norskra bóka, og hefur verið þýdd á fjölmörg tungumál.

    Jón St. Kristjánsson þýddi.

    990 kr.
    Setja í körfu
  • Hroki og hleypidómar

    Hroki og hleypidómar

    „Það er kunnara en frá þurfi að segja að piparsvein í góðum efnum hlýtur að vanta eiginkonu,“ segir í frægum upphafsorðum þessarar bókar. Þegar ungur og vel stæður karlmaður flytur í héraðið fara sveitungarnir undir eins að orða hann við stúlku fallegustu heimasætuna í sveitinni. Sú saga hefði fljótlega endað vel ef vinur hans, auðugur piparsveinn úr öðru héraði, hefði ekki farið að skipta sér af þessum ráðagerðum. Í hroka sínum þykir honum stúlkan ekki af nógu góðum ættum fyrir vin sinn og vekur með því heiftarlega hleypidóma systur hennar sem verður honum verðugur andstæðingur.

    Hroki og hleypidómar eftir breska rithöfundinn Jane Austen kom í fyrsta skipti út árið 1813 og er einhver frægasta ástarsaga sem skrifuð hefur verið. Fjörug, ögrandi og fyndin leiðir skáldkonan persónur sínar út á dansgólf sögunnar þar sem þær stíga sín þokkafullu spor, ganga frá einum dansfélaga til annars, hring eftir hring, sem smám saman þrengist utan um söguhetjurnar.

    Silja Aðalsteinsdóttir þýddi söguna og skrifaði eftirmála um Jane Austen og umhverfið sem sagan er sprottin úr.

    3.990 kr.
    Setja í körfu
  • Réttarhöldin

    Réttarhöldin

    Réttarhöldin eftir Franz Kafka hafa að geyma eitt frægasta sakamál aldarinnar. Helsta einkenni þess máls er að sakborningnum, bankamanninum Jósef K., er ekki ljóst hvað honum er gefið að sök. Hann leitar sífellt skýringa á því sem er að gerast og það er engu líkara en hann þurfi að elta uppi glæpinn, dómarana og örlög sín.

    Réttarhöldin komu fyrst út árið 1925, að höfundi látnum, og marka tímamót í nútímabókmenntum. Þessi saga er jafn fersk og áleitin nú og þegar hún kom fyrst út fyrir sjötíu árum, því enn getur sérhver lesandi séð sjálfan sig í grátbroslegum samskiptum Jósefs K. við hinn annarlega heim réttvísi og valds.

    Franz Kafka (1883-1924) var þýskumælandi gyðingur, fæddur í Prag, þar sem hann nam lögfræði og starfaði lengstaf á skrifstofu tryggingafyrirtækis, þótt hugurinn væri löngum bundinn ritlistinni. Helstu verk hans, auk Réttarhaldanna, eru Ameríka, Höllin og Hamskiptin.

    Þýðing Ástráðs Eysteinssonar og Eysteins Þorvaldssonar á Réttarhöldunum kom fyrst út hjá Menningarsjóði árið 1983 en birtist hér í endurskoðaðri gerð, auk þess sem þeir hafa nú þýtt sex kafla sem höfundur lauk ekki við en segja þó sína sögu.

    3.990 kr.
    Setja í körfu
  • Ferðabíó herra Saitos (notuð)

    Ferðabíó herra Saitos (notuð)

    „Ég var getin á dansgólfi í Buenos Aires árið 1927.“

    Þannig hefst saga Litu sem fæðist og elst upp í nunnuklaustri ásamt kornungri móður sinni sem hefur lítinn áhuga á barnauppeldi en elskar tangó og fallega skó. Líf mæðgnanna tekur óvænta stefnu þegar þær þurfa að flýja heimkynni sín og enda óvænt á afskekktri eyju undan ströndum Kanada þar sem þær fá inni á sjómannaheimilinu Betlehem. Smám saman kynnast þær samfélagi eyjarinnar og þar eignast Lita vinkonu í fyrsta skipti, hina heyrnarlausu Oonu McGregor. En þegar herra Saito mætir til eyjarinnar með ferðabíóið sitt opnast nýr ævintýraheimur fyrir Litu og ekkert verður eins og áður.

    Annette Bjergfeldt hefur hlotið afar góðar viðtökur fyrir Ferðabíó herra Saitos enda er hér á ferð heillandi saga með óvenjulegu sögusviði og eftirminnilegum persónum.

    Jón St. Kristjánsson þýddi.

    1.990 kr.
    Setja í körfu
  • Göngulag tímans

    Göngulag tímans

    Aðalpersóna þessarar bókar, John Franklin, er söguleg persóna sem á sinni tíð (1786-1847) var frægur sæfari og landkönnuður. Hann dreymir frá blautu barnsbeini um að komast á sjóinn en virðist þó illa til þess fallinn því hann er einkar hægur í tali og hugsun og öllum viðbrögðum og leggur annan mælikvarða á tímann en flestir í kringum hann. John kemst þó í sjóherinn er fram líða stundir, lendir í orustunum við Kaupmannahöfn og Trafalgar og virðir fyrir sér hraða og skelfilega framvindu átakanna með sinni sérstöku hægð. Síðar bíða hans og félaga hans ótrúlegar mannraunir í könnunarleiðöngrum á norðurhveli jarðar.

    Þessi líflega frásögn er öðrum þræði sjóferðasaga og þroskasaga en er ekki síður ógleymanleg athugun á eðli tímans og ægivaldi hraðans. Hún gefur lesandanum hlutdeild í þeirri einstæðu reynslu sem veitist hinum hægláta.

    Sten Nadolny er þýskur höfundur, fæddur árið 1942 og er búsettur í Berlín. Hann hefur skrifað nokkrar skáldsögur en langþekktust þeirra er Göngulag tímans sem þýdd hefur verið á fjölmörg tungumál.

    Arthur Björgvin Bollason þýddi bókina.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Blóðug jörð

    Blóðug jörð

    Árið er 883. Veldi norrænna manna á Bretlandseyjum riðar til falls og Þorsteinn rauður berst við að halda velli á Katanesi þar sem innfæddir gerast æ herskárri. Lífið er hverfult og enginn veit Urðar hug. A augabragði stendur Auður Ketilsdóttir ein uppi, umkringd óvinum og ábyrg fyrir ungum sonarbörnum. Stefnan er tekin til eylandsins á enda veraldar þar sem ár og vötn eru sögð iða af fiski, jökulhettur ber við himin og sjálf jörðin spyr eldi.

    Á suðurströnd Íslands hafa þrælar gert uppreisn og goldið grimmilega fyrir. Nýja landið er vigt blóði. Einn kemst lífs úr þeim hildarleik: maður sem á harma að hefna á ætt Dyflinnarkonungs.

    Vilborg Davíðsdóttir lýkur hér þríleiknum um landnámskonuna Audi djúpúðgu með Blóðugri jörð, sjálfstæðri sögu um siglinguna yfir hafið. Fyrri bækurnar tvær, Auður og Vígroði, hlutu fádæma góðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda og var sú fyrri tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Skepna í eigin skinni

    Skepna í eigin skinni

    Skepna í eigin skinni eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur er sterk og heillandi ljóðabók þar sem eftirminnilegar náttúru- og borgarmyndir fanga athyglina en undir yfirborðinu býr annar og sárari veruleiki. Hér er ort um tímann og lífið – breytingar, niðurbrot, dauða, endurnýjun og hringrás – í djúpum, myndríkum ljóðum; andrúmsloftið er grípandi og textinn blæbrigðaríkur og tær. Hrafnhildur hefur skrifað fjölda leikrita og hlotið fyrir þau margvíslegar viðurkenningar

    1.490 kr.
    Setja í körfu
  • Meistari Jim

    Meistari Jim

    Hann var kallaður Tuan Jim, Meistari Jim, en þá nafnbót fékk hann ekki fyrr en hann var sestur að á afskekktri eyju í Austur-Indíum. Þar var hann dáður sem friðflytjandi og réttlátur stjórnandi hinna innfæddu, en saga hans fólst ekki í þessum afrekum: hún bjó í mistökum hans, í því að hafa brugðist á hættustund. Eins og þúsundir annarra ungra manna í Evrópu hafði Jim orðið sjómaður í kaupskipaflota nýlenduveldanna, knúinn áfram af hugsýn um mikil ævintýri og stórkostlegar hetjudáðir, en þegar á hólminn kom brást hann og upp frá því var ævi hans einn samfelldur flótti undan lydduorðinu sem af honum fór.

    Joseph Conrad (1857-1924) hét upphaflega Jozef Teodor Konrad Korzeniowski, sonur pólskra landeigenda sem rússnesk yfirvöld sendu í útlegð til afskekkts bæjar þar sem foreldrar hans létust meðan hann var barn að aldri. Sautján ára fór hann á sjóinn og í nærri tvo áratugi sigldi hann um öll heimsins höf. Hann varð breskur ríkisborgari og hóf að skrifa sögur á ensku sem flestar byggjast á reynslu hans af sjómennsku og nýlenduásælni Evrópumanna, sögur sem einkennast af orðkynngi og frumlegri sögutækni.

    Atli Magnússon þýddi.

    1.990 kr.
    Setja í körfu
  • Satýrikon

    Satýrikon

    Satýrikon af mörgum talin fyrsta skáldsaga heimsins, rituð á latínu á árunum 50-60 e.Kr. Talið er að Gajus (Títus) Petróníus, einn af hirðmönnum Nerós keisara, hafi ritað söguna sem nú er varðveitt í brotum. Alvara og gamansemi togast á í litríkum og ísmeygilegum lýsingum á háum og lágum í þessu meistaralega bókmenntaverki.

    Sagan segir frá flakki félaganna Enkolpíusar og Askýltosar um íburðarmikla veislusali og aumustu hreysi Rómverja. Hún er heillandi vitnisburður um hinn forna rómverska heim, um ástríður og afbrýði, græðgi og grimmd, spillingu og göfgi.

    Satýrikon hefur vakið ýmsum miklum listamönnum innblástur og nægir þar að nefna samnefnda kvikmynd Federicos Fellinis og skáldverkið Petrolio eftir Pier Paolo Pasolini.

    Satýrikon birtist hér í þýðingu Erlings E. Halldórssonar sem einnig ritar eftirmála. Margir minnast snilldarþýðingar hans á skáldverkinu Gargantúi og Pantagrúll eftir François Rabelais, en fyrir þá þýðingu hlaut Erlingur verðlaun frönsku akademíunnar, Le Grand Prix de l’Académie Française.

    2.990 kr.
    Setja í körfu
  • Utz

    Utz

    Kaspar Utz á óviðjafnanlegt safn af Meissenpostulíni, matarílát og skrautmuni, sem honum hefur tekist að varðveita á tímum margvíslegra ógna. Hann er aðalsmaður af gamla skólanum, sem býr með postulínssafni sínu og þjónustustúlku í tveggja herbergja íbúð sinni í Prag. Sögumaður kemur á fund hans og verður margs vísari um merkileg örlög á umbrotatímum.

    Bruce Chatwin lýsir hér sálarlífi ástríðusafnarans og afdrifum gamals og sérkennilegs menningararfs í stalínisma eftirstríðsáranna. Þar spinnist inn sögur um evrópskan aðal, um gyðinga og skriffinna kommúnismans. Chatwin er næmur höfundur, og hann hefur óvenjulega og auðuga kímnigáfu.

    Unnur Jökulsdóttir og Þorbjörn Magnússon þýddu.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Heimur feigrar stéttar

    Heimur feigrar stéttar

    Sögusviðið er Suður-Afríka í ólgu sjötta og sjöunda áratugarins. Söguna segir Liz Van Den Sandt, hvít millistéttarkona. Fyrrum eiginmaður hennar, vanmáttugur og ráðvilltur uppreisnarmaður, hefur fyrirfarið sér. Liz verður hugsað til lífs þeirra saman og baráttu gegn aðskilnaðarstefnunni.

    Hvernig er að vera hvít kona í Suður-Afríku á umbrotatímum sem ekki sér fyrir endann á? Er nóg að vilja vel? Er hægt að leiða kúgunina hjá sér? Verður sá sem tekur afstöðu einnig að hafa kjark til að gera eitthvað í málunum?

    Þessi bók kemur við kvikuna í hinu margklofna þjóðfélagi Suður-Afríku frá sjónarmiði þess hluta hvíta forréttindahópsins sem finnur að samviskan er svört.

    Ólöf Eldjárn þýddi.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Auður

    Auður

    Auður, dóttir víkingahöfðingjans Ketils flatnefs, vex upp á Suðureyjum, ættstór og skapheit. Allt hennar fólk er heiðið en þegar hún kynnist Gilla munki laðast hún bæði að honum og boðskap hans um Hvítakrist. Fullveðja er Auður gefin Ólafi hvíta, konungi yfir Dyflinni á Írlandi. Samband þeirra er heitt en stormasamt og vináttan við Gilla verður henni dýrkeypt …

    Auður djúpúðga er í hópi þekktustu landnema Íslands. Hér er þroskasaga hennar sögð um leið og dregin er upp mynd af þeim róstusömu tímum þegar norrænir menn lögðu undir sig eyjarnar við Skotland og herjuðu í Vesturhafi. Vilborg Davíðsdóttir er þaulkunnug mannlífi sögutímans og Auður rís úr djúpi aldanna, sterk og heillandi kona.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Galeiðan

    Galeiðan

    GALEIÐAN er nútímaskáldsaga og viðfangsefni hennar er í senn tímabært og sjaldséð í íslenskum bókmenntum. Lesandi slæst í hóp nokkurra stúlkna sem vinna í dósaverksmiðju og lifir með þeim súrt og sætt fáeina daga. Við kynnumst aðstæðum þeirra heima fyrir og á vinnustað og einnig yfirboðurum þeirra, æðri sem lægri.

    Skýrar og margþættar persónulýsingar eru einn meginkostur bókarinnar og stúlkurnar verða því mjög sannfærandi og lifandi fyrir augum lesandans, hver með sínum persónusérkennum. Ekki síst þess vegna birtist glöggt það galeiðumynstur sem líf þeirra er í raun hneppt í, bæði á vinnustað og í einkalífi. Á þessum dögum gerast einnig atburðir sem gætu breytt lífi þessara stúlkna, a.m.k. reynist samstaða þeirra vonum meiri þegar í odda skerst…

    Sagan er öll skrifuð af hispursleysi og næmu innsæi og frásögn er lipur og skemmtileg. Með þessari bók hefur Ólafur Haukur Símonarson bætt enn einni sögu af alveg nýrri gerð inn í fjölbreytt ritverkasafn sitt sem á vafalaust enn eftir að auka vinsældir hans meðal bókmenntaunnenda.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Illska

    Illska

    Agnes Lukauskaite og Ómar Arnarson kynnast snemma á nístingsköldum sunnudagsmorgni í leigubílaröðinni í Lækjargötu. Þremur árum síðar brennir hann heimili þeirra til grunna, keyrir til Keflavíkur og flýgur úr landi.

    Sagan hefst raunar löngu fyrr, sumarið 1941, þegar helmingi bæjarbúa litháíska smábæjarins Jurbarkas var slátrað í skógunum í kring. Tveir langafar Agnesar voru þar – annar skaut hinn. Þremur kynslóðum síðar hefur Agnes gert helförina að miðpunkti lífs síns og sú þráhyggja leiðir hana á fund ísfirska nýnasistans og menntamannsins Arnórs.

    Illska er bók um helförina og bók um ástina, um Ísland og Litháen, um Agnesi sem glatar sjálfri sér á milli þess sem Jón Baldvin viðurkennir sjálfstæði Eystrasaltslandanna og litháískir glæpamenn taka að starfa í Reykjavík, um Agnesi sem veit ekki hvort hún heldur með b-heimsmeisturunum í handbolta eða Bogdan Kowalczyk, um Agnesi sem elskar Ómar sem elskar Agnesi sem elskar Arnór.

    Eiríkur Örn Norðdahl er einn framsæknasti höfundur sinnar kynslóðar og hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín, bæði ljóð og skáldsögur.

    Illska hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012 og bóksalar kusu hana bestu skáldsögu ársins.

    990 kr.
    Setja í körfu
  • Gatsby

    Gatsby

    Jay Gatsby er ungur New York-búi, sem berst mikið á og lifir yfirborðslegu lífi á uppgangstíma þriðja áratugarins. Í augum sögumannsins, Nicks, er hann leyndardómsfullur, og Nick verður vitni að ástarævintýri hans og frænku sinnar Daisy. Gatsby er hreinlyndur maður og þó um leið spilltur og undir niðri leynast heitar ástríður.

    Gatsby (The Great Gatsby) hefur jafnan þótt lýsa vel anda svokallaðs Djasstíma á árunum milli stríða, og hafa verið gerðar vinsælar kvikmyndir eftir sögunni. Höfundurinn, F. Scott Fitzgerald (1896-1940), er einn merkasti rithöfundur Bandaríkjamanna á öldinni, og Gatsby er þekktast verka hans.

    Atli Magnússon íslenskaði söguna.

    990 kr.
    Setja í körfu
  • Kantaraborgarsögur

    Kantaraborgarsögur

    Kantaraborgarsögur eru eitt af höfuðritum heimsbókmenntanna og langfrægasta verk Geoffrey Chaucers, þjóðskálds Englendinga. Hópur fólks úr öllum stigum ensks þjóðfélags er á leið í pílagrímsferð að gröf dýrlingsins Tómasar frá Beckett í Kantaraborg. Þau gera með sér samkomulag um að keppa í því hver getur sagt bestu söguna og á hver ferðalangur að segja tvær sögur, eina á leiðinni til áfangastaðarins og eina á leiðinni til baka. Chaucer lauk aldrei við að semja allar sögurnar en það sem til er af verkinu er fyrir löngu orðið sígilt og hefur glatt lesendur í gegnum aldirnar.

    Í Kantaraborgarsögum birtist heillandi heimur síðmiðalda þar sem ægir saman dyggðum og klúrheitum, hetjuskap og lágum hvötum. Jarðbundið raunsæi og óbrengluð sýn á gangvirki mannfólksins er aðall þessara bráðfyndnu sagna, en á móti leggur höfundur á vogarskálarnar lærdóm sinn og lýsingar á riddaralegri hugprýði.

    Geoffrey Chaucer er talinn hafa látist aldamótaárið 1400. Hann er iðulega nefndur faðir enskra þjóðarbókmennta.

    Erlingur E. Halldórsson þýddi Kantara- borgarsögur, en hann er einn virtasti þýðandi okkar um þessar mundir og hefur m.a. þýtt klassísk verk eftir François Rabelais, Petróníus og Boccaccio.

    3.990 kr.
    Setja í körfu
  • Fljótt, fljótt sagði fuglinn

    Fljótt, fljótt sagði fuglinn

    Þessi bók er veisluborð. Réttirnir eru fjölbreyttir með ólíkindum og fram bornir af einstæðri kunnáttusemi. Lesandanum er boðið í hóf og þarf ekki að gæða sér á öllum réttunum í einu, en finnur hvarvetna „bragð hins göfga óspillta víns“, eins og Sverrir Kristjánsson komst eitt sinn að orði um ritlist Thors Vilhjálmssonar.

    Fljótt, fljótt sagði fuglinn færir lesanda heim sanninn um myndvísi Thors, orōkynngi og stílíþrótt. Rætur verksins liggja víða í evrópskri menningu, goðsögum sem samtímalist, en um leið er það merk heimild um umbrotin miklu sem urðu þegar það var ritað, 1968.

    Fljótt, fljótt sagði fuglinn, er tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu. Ásamt örfáum verkum öðrum markaði bókin nýjan áfanga í íslenskri sagnagerð, og hefur æ síðan verið lesin og kapprædd af áhugafólki um bókmenntir. Hún hefur verið þýdd á nokkur tungumál, en lengi verið ófáanleg hérlendis.

    990 kr.
    Setja í körfu
  • Náttvíg

    Náttvíg

    Ástin, dauðinn, hafið: Thor Vilhjálmsson fléttar þessa þræði saman í áhrifamikla sögu úr undirheimum Reykjavíkur, sem lögð er í munn leigubílstjóra. Sagan gerist að mestu á tveimur nóttum. Þá fyrri sýnast viðburðir allir sakleysislegri, en þó geymir nóttin víg; seinni nóttina ryðjast þrír rustar inn í bíl sögumanns og neyða hann í leiðangur – þeir sækja sér skotvopn og fremja svo óhugnanlegt innbrot. Þessi skelfilega för vekur með sögumanni minningar um fortíð hans á sjónum, um ofbeldi, dauða og varnarleysi lífsins. En hann er ekki laus: lögreglan þarf á liðveislu hans að halda við að leita illvirkjana uppi, og sú ferð reynist ekki síður viðburðarík.

    Inn í þessa meginsögu fellir Thor margar aðrar úr næturlífi Reykjavíkurborgar, af fortíð persóna en líka af öðru fólki, sumar erótískar, aðrar háðskar, en allar bornar uppi af einstakri frásagnargáfu hans og stílgaldri.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Óbærilegur léttleiki tilverunnar

    Óbærilegur léttleiki tilverunnar

    Hvað gerir maður þegar fallega þjónustustustúlkan á hótelinu úti á landi stendur allt í einu á tröppunum hjá honum í borginni með hafurtask sitt og er bara komin…? Tómas er góður læknir og ennþá betri kvennamaður og ákveður að hleypa hinni ástföngnu Teresu inn í líf sitt. En framhaldið er ekki á hans valdi – þau eru leiksoppar sögunnar, fórnarlömb ytri afla eins og heimaland þeirra, Tékkóslóvakía. Örlög þess í greipum grannans í austri fléttast óviðráðanlega saman við örlög persóna bókarinnar. Samt er þetta engin harmsaga: Óbærilegur léttleiki tilverunnar er full af óvæntri gamansemi og lýsir samhengi stjórnmála, kynlífs og dauða með grátbroslegum hætti. Léttleiki frásagnarinnar og frelsi draumsins verður athvarf mannshugans andspænis óbærilegum lögmálum sögunnar.

    Friðrik Rafnsson íslenskaði.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans

    Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans

    Þetta er saga af nokkrum framsæknum nútíma Íslendingum sem lenda í ýmsum ævintýrum en bjargast úr hverjum háska með þjóðlegu hugviti og hreysti.

    Langt er síðan Guðbergur Bergsson skipaði sér í röð allra fremstu rithöfunda þjóðarinnar, og verk hans hafa notið mikillar hylli. Þessi bók er nýr sproti á þeim meiði. Persónurnar hafa ekki birst áður í bókum Guðbergs og stíllinn er nýr. Spurning er hvort skáldgáfa hans nýtur sín ekki einmitt best í þeim ærsla- og fjarstæðustíl sem hér er að finna.

    1.290 kr.
    Setja í körfu
  • Sannstæður

    Sannstæður

    fyllast enn tungl
    og minnka
    flughamurinn stagbættur í
    gluggasyllunni

    orkarðu enn að leita
    svifmjúkra drauma
    svansvængja svartra
    úr ljóði

    Ljóð Geirlaugs Magnússonar lifna af sterkum myndum og sérstæðu tungutaki. Hann er enginn boðandi auðkeyptrar bjartsýni og venjulegra sanninda, en fylgi lesandinn honum á svansvængjum svörtum í ljóðheima, opnast honum víðáttur.

    2.990 kr.
    Setja í körfu
  • Tengsl

    Tengsl

    4.990 kr.
    Setja í körfu