
Í húsi Júlíu
1.290 kr.Í húsi Júlíu (2006) segir frá tveimur systrum og stormasömum samskiptum þeirra. Þegar Lena kemur heim öllum að óvörum eftir áratuga langa dvöl í útlöndum og sest að í húsi Júlíu fara þau hjól að snúast sem bjóða hættunni heim.
Viðfangsefnin í þessari skáldsögu Fríðu Á. Sigurðardóttur eru mörg og áleitin og á sinn einstaka hátt vefur Fríða saman alla þræði svo að úr verður áhrifamikil og mögnuð samtímasaga. Í húsi Júlíu er einstaklega vel skrifuð, fyndin og fáguð og í henni kveður við nýjan tón í íslenskri bókmenntaflóru. En umfram allt er hér tekið á málum sem brenna á nútímakonunni: Hvers vegna fórna konur sér iðulega fyrir aðra?
Fríða Á. Sigurðardóttir er einn virtasti rithöfundur þjóðarinnar. Hún hefur sent frá sér smásögur, skáldsögur og þýðingar. Skáldsaga hennar Meðan nóttin líður (1990) hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin, Menningarverðlaun DV í bókmenntum og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1992 og hefur verið þýdd og gefin út víða erlendis.

Tíu ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp
1.290 kr.Í skáldsögunni 10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp eftir Hallgrím Helgason (2008) fylgjumst við með ævintýrum króatíska leigumorðingjans Tomislav Bokšic, sem gengur undir nafninu Toxic.
Eftir nokkuð ‘farsælan’ feril sem leigumorðingi í Bandaríkjunum neyðist hann einn góðan veðurdag til að leggja á flótta og endar á Íslandi fyrir slysni. Þar taka kristnir trúboðar á móti honum fyrir misskilning og úr verða ýmsir menningar- og tungumálaárekstrar á meðan hann fótar sig í nýju umhverfi.
Hörkuspennandi og fyndin saga með þyngri undirtóni sem sýnir lesanda íslenskt samfélag frá býsna óvæntu og óvenjulegu sjónarhorni.

Milla
1.290 kr.Milla er tuttugu og eins árs gömul og þráir að lifa eins og venjuleg stelpa – en hún veit ekki hvað hún á að gera við líf sitt og hefur á tilfinningunni að komandi sumar gæti orðið hennar síðasta. Þrjár vikur í maí skipta sköpum: ástin kemur og fer, Milla skrifar ömmu sinni ótal bréf en fær engin svör, hún skoðar vorkvöld í Reykjavík úr lofti með vini sínum og í vinnunni skrásetur hún gögn „Safnsins um hina venjulegu íslensku fjölskyldu í lok tuttugustu aldar“.
Milla er ævintýraleg Reykjavíkursaga, í senn létt og þung, glaðleg og sorgleg – Milla ræktar garðinn sinn en þar vex tré sem enginn annar sér …
Kristín Ómarsdóttir hefur skrifað skáldsögur, smásögur, leikrit og ljóð og hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir skrif sín, þar á meðal Fjöruverðlaunin, Menningarverðlaun DV og Grímuverðlaunin sem leikskáld ársins.
Milla hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2012.

Stríðsárin 1938-1945
5.990 kr.Í þessu magnþrungna stórvirki er Ísland fært inn á landakort heimsstyrjaldarinnar síðari og sýnt hvernig það varð órofa hluti af hildarleiknum sem fram fór um víða veröld – og ekki síst á hafinu kringum landið. Grimmd, lífsþorsti, hetjudáðir og hryllingur stríðsátakanna er dreginn fram í fjölda frásagna, fréttaskeyta, leyniskjala, dagbóka og minningabrota, auk þess sem verkið geymir aragrúa ljósmynda, innlendra og erlendra, sem margar koma nú í fyrsta sinn fyrir almenningssjónir.
Páll Baldvin Baldvinsson, bókmenntafræðingur og menningarrýnir, hefur um árabil haft brennandi áhuga á þessu einstæða tímabili í sögu þjóðarinnar. Verkið er afrakstur gríðarlega umfangsmikillar vinnu hans við söfnun ljósmynda, endurminninga og annarra heimilda um stríðsárin.

Þrír sneru aftur
1.290 kr.„Menn leita að orku í stríði og friði, lífið þrífst á orkunni í okkur sjálfum og í náttúrunni, sagði gamli maðurinn vesældarlega.“
Á einangraðan stað suður með sjó, þar sem aldrei gerist neitt, berast fregnir af átökum heimsstyrjaldarinnar. Fyrr en varir hefur atburðarásin teygt anga sína þangað og nútíminn heldur innreið sína með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Höfundur dregur upp hárbeitta mynd af samfélagi á tímamótum; af eilífri baráttu manneskjunnar fyrir tilveru sinni, glímunni við fáfræði og fásinni, sannleika og lygi, heimsku og græðgi.
Og sagan endurtekur sig stöðugt við nýjar og breyttar aðstæður, kynslóðir koma og fara … en ættarfylgjan lætur ekki að sér hæða, enginn flýr frá sjálfum sér.
Guðbergur Bergsson hefur skrifað fjölmargar bækur, þýtt öndvegisrit og ritað greinar í blöð og tímarit. Hann hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin og verðlaun Sænsku bókmenntaakademíunnar.
Guðbergur Bergsson lauk prófi í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá La Universidad de Barcelona 1958. Fyrsta bók hans, Músin sem læðist, kom út 1961. Hann hefur skrifað barnabækur, ljóð, smásögur, skáldsögur, skáldævisögur og greinar um bókmenntir, listir og þjóðfélagsmál í dagblöð og tímarit bæði hér á landi og í útlöndum. Hann er afkastamikill þýðandi og hefur átt sinn þátt í því að kynna fyrir Íslendingum spænskar og portúgalskar bókmenntir. Margar bækur Guðbergs hafa verið þýddar á erlend tungumál.

Stuldur
990 kr.Samastúlkan Elsa verður vitni að því þegar sænskur nágranni drepur hreindýrskálfinn hennar, Nástegallu. Maðurinn ógnar henni og hún þorir aldrei að segja frá; veit líka að það er tilgangslaust, lögreglan skiptir sér ekki af því þótt ofbeldismenn misþyrmi og ræni hreindýrum Samanna og grannar þeirra hæðast að þeim og menningu þeirra og leggja þá í einelti. Hún þekkir það úr skólanum og samfélaginu. Áratug síðar er Elsa fullorðin og farin að berjast gegn sívaxandi misrétti og lítilsvirðingu sem Samar verða fyrir en ekki síður fyrir eigin réttindum í feðraveldissamfélagi þar sem ungar konur eiga ekki sömu möguleika og bræður þeirra. Svo ákveður maðurinn sem drap Nástegallu að kenna Elsu lexíu og þá skellur fortíðin á henni eins og snjóflóð og hún tekur til sinna ráða.
Stuldur var valin bók ársins í Svíþjóð 2021, hlaut mikið lof og hefur verið seld til nítján landa. Höfundurinn, Ann-Helén Laestadius, er sjálf Sami og byggir söguna á raunverulegum atvikum. Hún hefur skrifað fjölda barna- og unglingabóka og hlotið verðlaun fyrir þær en Stuldur er fyrsta skáldsaga hennar fyrir fullorðna.
Ísak Harðarson þýddi.


Valeyrarvalsinn
1.290 kr.Kata hjólar út í Samkomuhús því kórinn hennar heldur tónleika á Valeyri í kvöld. Jósa setur gamlar bekkjarmyndir á Facebook en Sidda hlustar á Andrés á safninu segja margþvældar sögur meðan hún bíður eftir Kalla sínum sem hefur tafist í hlöðunni þar sem hann gerir við aflóga þvottavélar. Smyrill skáld reynir að yrkja, séra Sæmunur tekst á við öfl ljóss og myrkurs, hjónin í Valeyrarvinnslunni talast ekki við í dag, Ásta veit ekki hvort það voru reimleikar sem hún upplifði í nótt en Lalli lundi reynir að rifja upp af hverju hann fór í göngutúr…
Valeyrarvalsinn er hrífandi og margradda skáldverk þar sem sextán sögur fléttast saman, kallast á, botna hver aðra og skarast margvíslega enda gerast þær allar á sömu tveimur mínútunum í litlu þorpi. Þetta eru sögur um mannfólkið og það sem kemur fyrir það, sögur um ástir og afglöp og fjölskyldutengsl og öll leyndarmálin, alkunn og djúpt grafin. Persónur, atvik og kenndir kvikna til lífs og tónlistin umvefur allt í ómótstæðilegum texta Guðmundar Andra Thorssonar sem hefur aldrei skrifað betur.
Bókin var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og hefur komið út í nokkrum löndum.



Hnattflug
1.490 kr.Systir mín átti upplýstan brott rafmagnaðangrip og það er trúlega
honum að kenna að ég hugsa mér stundum fimmþúsund vatta
peru inni í jarðkúlunni þá verður hafið gegnsætt fjallgarðar
logandi og örnefni vandlega letruð í litaðan svörðinn.Sá sem opnar þessa bók piggur boð um heimsreisu. Hvert ljóð er áfangastaður á ferð sem hefst á Íslandi en heldur áfram í austur allan hringinn. Stiklað er á lengdarbaugum frá einu kennileiti til annars og úrinu flýtt eftir atvikum.
Sigurbjörg Þrastardóttir er fædd árið 1973 á Akranesi. Hún hefur vakið athygli fyrir frumlega texta, bæði skáldskap og pistla, en hún starfar sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Ljóðabókin Blálogaland kom út árið 1999. Sigurbjörg hefur hlotið ýmiss konar viðurkenningar fyrir ljóð sín og sögur. Hnattflug hlaut viðurkenningu dómnefndar í samkeppni um Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2000.

